Levi’s lýsir yfir afeitrun

victory-LEVISGallabuxnaframleiðandinn Levi Strauss & Co. hét því sl. fimmtudag að fara í afeitrun, þ.e.a.s. að hætta að nota umhverfis- og heilsuspillandi efni í framleiðslu sinni. Með þessu bregst Levi’s við áskorunum nokkur hundruð þúsunda einstaklinga sem þrýst hafa á fyrirtækið síðustu 2 vikur að undirlagi umhverfisverndarsamtakanna Greenpeace undir yfirskriftinni „Go Forth and Detox“. Levi’s, sem er stærsti gallabuxnaframleiðandi í heimi, gengur með þessu í lið með 10 öðrum leiðandi fyrirtækjum í framleiðslu og sölu á fatnaði sem þegar höfðu brugðist við þessu kalli almennings. Í þeim hópi eru Zara, sem er stærsta fataverslunarkeðja í heimi, Nike, Adidas, Puma, H&M, Marks&Spencer, C&A, Li-Ning, Mango og Esprit.
(Sjá frétt á heimasíðu Greenpeace 13. desember).

Hættuleg efni í tískufatnaði

Margir af stærstu fataframleiðendum heims nota krabbameinsvaldandi og hormónatruflandi efni í framleiðslu sinni. Í umfangsmikilli könnun á vegum Greenpeace sem sagt var frá í gær fundust efni á borð við þalöt, nónýlfenólethoxýlat (NPE) og amín, en öll þessi efni geta haft skaðleg áhrif á heilsu og frjósemi fólks í tiltölulega litlum skömmtum. Alls var skoðuð 141 flík og reyndust 63% þeirra innihalda efni af þessu tagi. Þetta gilti jafnt um ódýrari fatamerki á borð við Zara, Jack&Jones, Only og Vero Moda – og dýrari merki á borð við Esprit og Benetton og sömuleiðis Armani og Calvin Klein. Efni sem þessi eru ekki nauðsynleg í fataiðnaði og finnast t.d. ekki í umhverfismerktum fatnaði.
(Sjá frétt á heimasíðu Greenpeace í gær).