100 milljón hektarar af ósnertum skógi horfnir á 14 árum

forest_160Um 104 milljónir hektara af ósnertum skógi, eða sem svarar til þriggja Þýskalanda, (um tífalds flatarmáls Íslands), hafa horfið síðan á árinu 2000 samkvæmt nýrri greiningu sem unnin var af Greenpeace, Háskólanum í Maryland, Transparent World, the World Resources Institute (WRI) og Rússlandsdeild WWF. Við greininguna var notast við gervitunglamyndir og skoðuð þekja í landupplýsingakerfi (GIS) sem skilgreind er sem ósnertur skógur. Um 65% af ósnertum skógi heimsins er að finna í Rússlandi, Kanada og Brasilíu og hafa um 50 milljónir hektara eyðilagst vegna uppbyggingar í þessum löndum. Aðstandendur greiningarinnar segja stjórnvöld þurfa að bregðast flljótt við hnignuninni með því að stækka vernduð landsvæði og bæta réttindi samfélaga sem eru háð afkomu skóga. Auk þess þurfi Sameinuðu þjóðirnar, iðnríki og þróunarstofnanir að styðja við verndun ósnertra skóga í þróunarríkjum. Ósnertir skógar gegna mikilvægu hlutverki í að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni, hægja á loftslagsbreytingum og tryggja gæði andrúmslofts og vatns.
(Sjá frétt WRI 4. september).

Rauntímavöktun regnskóga á netinu

GFW_logo_4cFramvegis getur almenningur fylgst með ástandi regnskóga heimsins í nánast beinni útsendingu á netinu, en World Resources Institute (WRI) í Washington hefur gert þetta mögulegt með aðstoð Google Earth og nokkurra annarra aðila. Með þessari nýju tækni verður hægt að fylgjast með regnskógum á svæðum sem hingað til hafa verið lítið sem ekkert vöktuð. Verkefnið gengur undir nafninu Global Forest Watch, og þeir sem að því standa vonast til að það skapi þrýsting á ríkisstjórnir að stöðva eyðingu skóga og leiði jafnframt til ábyrgari verslunar með afurðir á borð við pálmaolíu, soja og kjöt, sem hugsanlega eru framleiddar á svæðum þar sem regnskógar hafa verið ruddir.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).