Um 104 milljónir hektara af ósnertum skógi, eða sem svarar til þriggja Þýskalanda, (um tífalds flatarmáls Íslands), hafa horfið síðan á árinu 2000 samkvæmt nýrri greiningu sem unnin var af Greenpeace, Háskólanum í Maryland, Transparent World, the World Resources Institute (WRI) og Rússlandsdeild WWF. Við greininguna var notast við gervitunglamyndir og skoðuð þekja í landupplýsingakerfi (GIS) sem skilgreind er sem ósnertur skógur. Um 65% af ósnertum skógi heimsins er að finna í Rússlandi, Kanada og Brasilíu og hafa um 50 milljónir hektara eyðilagst vegna uppbyggingar í þessum löndum. Aðstandendur greiningarinnar segja stjórnvöld þurfa að bregðast flljótt við hnignuninni með því að stækka vernduð landsvæði og bæta réttindi samfélaga sem eru háð afkomu skóga. Auk þess þurfi Sameinuðu þjóðirnar, iðnríki og þróunarstofnanir að styðja við verndun ósnertra skóga í þróunarríkjum. Ósnertir skógar gegna mikilvægu hlutverki í að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni, hægja á loftslagsbreytingum og tryggja gæði andrúmslofts og vatns.
(Sjá frétt WRI 4. september).