Betri orkunýtni gerir ESB minna háð Rússum

The logo of Russian gas producer Gazprom.Hægt er að draga úr þörf Evrópusambandsríkja fyrir rússneskt jarðgas um þriðjung með því að ríki sambandsins setji sér ströng markmið í orkunýtni. Þetta er mat Institute for Public and Policy Research í framhaldi af umræðum innan ESB um refsiaðgerðir gegn Rússum vegna framgöngu þeirra í Úkraínu, en hugsanlegt er talið að Rússar skrúfi fyrir gasið til að svara refsiaðgerðunum. Um 34% af orkunotkun innan ESB eru háð rússnesku jarðgasi og hefur þetta hlutfall hækkað á síðustu árum. Finnland, Eistland, Lettland, Litháen, Slóvakía og Búlgaría fá jafnvel alla sína orku með þessum hætti. Haft er eftir Rear Admiral Morisetti, fyrrum sendifulltrúa Bretlands, að þróun mála í Úkraínu og Mið-Austurlöndum hafi undirstrikað viðkvæmni orkuframboðs og þá pólitísku spennitreyju sem Evrópa er í á meðan hún er háð jarðefnaeldsneyti frá þessum óstöðugum svæðum. Besta leiðin til að losna úr spennitreyjunni sé að draga úr orkunotkun.
(Sjá frétt the Guardian í dag).

100 milljón hektarar af ósnertum skógi horfnir á 14 árum

forest_160Um 104 milljónir hektara af ósnertum skógi, eða sem svarar til þriggja Þýskalanda, (um tífalds flatarmáls Íslands), hafa horfið síðan á árinu 2000 samkvæmt nýrri greiningu sem unnin var af Greenpeace, Háskólanum í Maryland, Transparent World, the World Resources Institute (WRI) og Rússlandsdeild WWF. Við greininguna var notast við gervitunglamyndir og skoðuð þekja í landupplýsingakerfi (GIS) sem skilgreind er sem ósnertur skógur. Um 65% af ósnertum skógi heimsins er að finna í Rússlandi, Kanada og Brasilíu og hafa um 50 milljónir hektara eyðilagst vegna uppbyggingar í þessum löndum. Aðstandendur greiningarinnar segja stjórnvöld þurfa að bregðast flljótt við hnignuninni með því að stækka vernduð landsvæði og bæta réttindi samfélaga sem eru háð afkomu skóga. Auk þess þurfi Sameinuðu þjóðirnar, iðnríki og þróunarstofnanir að styðja við verndun ósnertra skóga í þróunarríkjum. Ósnertir skógar gegna mikilvægu hlutverki í að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni, hægja á loftslagsbreytingum og tryggja gæði andrúmslofts og vatns.
(Sjá frétt WRI 4. september).

Umhverfismál í ólestri í Sochi

sochiUmhverfisverndarsamtökin WWF gagnrýna skipuleggjendur vetrarólympíuleikanna í Sochi harðlega og hafa hætt samstarfi við þá vegna þess sem þeir kalla „innantóm orð“ um umhverfismál. Heimamenn í samtökunum Echo Waschta taka undir þessa gagnrýni og telja yfirlýsingar um græna og mengunarlausa leika lítils virði þegar við blasa ólöglegir ruslahaugar, byggingarúrgangur í nærliggjandi vatnsföllum og eyðilögð svæði innan þjóðgarðs. Verst mun ástandið vera í ánni Mzymta sem sér stórum hluta af Sochi fyrir drykkjarvatni. Sagt er að áin hafi verið algjörlega eyðilögð vegna framkvæmda við vegi og járnbrautir.
(Sjá frétt Miljöaktuellt 8. janúar).

Ólögleg urðun við Sochi

Sochi urðunSvo virðist sem Rússar standi ekki við fyrirheit um að vetrarólympíuleikarnir í Sochi verði þeir grænustu í sögunni. Þar átti eingöngu að nota endurnýjanlegt efni og engum úrgangi átti að farga, hvorki byggingarúrgangi né öðru. AP-fréttastofan komst hins vegar að því á dögunum að mikið magn af blönduðum úrgangi hefur verið flutt á urðunarstað sem rússnesku járnbrautirnar reka við þorpið Akhshtyr, án starfsleyfis. Reyndar fylgir sögunni að starfsleyfi myndi ekki fást þótt sótt væri um það, þar sem urðunarstaðurinn sé á vatnsverndarsvæði. Haft er eftir talsmanni Greenpeace að þarna snúist „úrgangsforvarnir“ um að koma úrgangi úr augsýn.
(Sjá frétt NewsDaily í gær).

Lífræn framleiðsla í sókn í Rússlandi

Organic RussiaLífræn framleiðsla er í mikilli sókn í Rússlandi þessi misserin, m.a. vegna aukinnar eftirspurnar heilsumeðvitaðra neytenda í Moskvu og St.Pétursborg. Bændum í lífrænni ræktun fjölgar og búin stækka. Fram til þessa hafa engar samræmdar reglur gilt um þessa framleiðslu í Rússlandi, en nú hafa þarlend stjórnvöld boðað að frá og með árinu 2015 geti lífrænir framleiðendur fengið afurðir sínar vottaðar, auk þess sem að þá verði tekinn upp sérstakur stuðningur við lífræna framleiðslu.
(Sjá frétt Organic News 8. maí).