Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur tilkynnt að frá og með árinu 2022 skuli allar nýbyggingar sem fjármagnaðar eru af franska ríkinu vera að minnsta kosti að hálfu leyti byggðar úr timbri. Þetta er liður í viðleitni ríkisstjórnarinnar til að ýta undir sjálfbæra borgarþróun. Áður höfðu borgaryfirvöld í París lýst því yfir að timbur verði notað í auknum mæli sem byggingarefni fyrir Ólympíuleikana í París 2024. Þannig verða allar byggingar sem reistar verða í tengslum við leikana, og eru 8 hæðir eða minna, alfarið reistar úr timbri.
(Sjá frétt Planet/Ark Reuter 7. febrúar).
Klórpýrifos tekið úr sölu þrátt fyrir tilslökun Trump-stjórnarinnar
Bandaríski eiturefnaframleiðandinn Corteva tilkynnti í gær að framleiðslu á dýraeitrinu klórpýrifos verði hætt í lok þessa árs, þrátt fyrir að Trump-stjórnin hafi tilkynnt að ekkert verði af fyrirhuguðu banni við sölu efnisins í Bandaríkjunum. Corteva er stærsti framleiðandi efnisins í heiminum, en efnið hefur verið mikið notað í ræktun á maís, sojabaunum, hnetum, sítrusávöxtum, vínberjum o.fl. gegn skordýrum, ormum og öðrum dýrum sem litið er á sem meindýr í þessari ræktun. Klórpýrifos er taugaeitur sem rannsóknir benda til að geti haft alvarleg áhrif á heilsu barna, m.a. með því að trufla þroskun heilans. Ástæða þess að Corteva ætlar að hætta að framleiða efnið er einfaldlega sú að sala þess hefur dregist saman um 80% frá því sem var á árunum eftir 1990. Þeir sem berjast fyrir því að efnið verði bannað hyggjast halda baráttunni áfram þrátt fyrir ákvörðun Corteva, enda verður klórpýrifos frá öðrum framleiðendum áfram til sölu að óbreyttu.
(Sjá frétt The Guardian 6. febrúar).
Verslunarmiðstöð sjálfri sér nóg með orku
Verslunarmiðstöðin Väla í útjaðri Helsingborgar verður orðin sjálfri sér nóg með orku árið 2023 ef áform stjórnenda ganga eftir. Verslunarmiðstöðin, sem að grunni til var byggð á 8. áratug síðustu aldar, er sögð vera sú stærsta í Svíþjóð. Frá árinu 2012 hefur tekist að minnka orkunotkun í byggingunni um 40% og nú er ætlunin að ná því sem á vantar með enn frekari orkusparnaðaraðgerðum og aukningu á eigin orkuframleiðslu. Väla framleiðir nú þegar stóran hluta af raforkunni sem þarf til rekstrarins í 15.000 fermetra sólarskjöldum á þakinu. Ætlunin er að stækka framleiðslusvæðið enn frekar og taka jafnvel litlar vindmyllur í notkun þar að auki.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 4. febrúar).
Ný aðferð við endurvinnslu á plasti
Vísindamenn við háskólana í Bath og Birmingham hafa þróað nýja aðferð til að endurvinna plast. Með aðferðinni er mögulegt að brjóta plastið niður í grunnsameindir sínar, sem síðan er hægt að breyta í nýtt plast af sömu gerð og í sömu gæðum og upphaflega plastið. Hingað til hefur endurvinnsla á plasti byggst á því að tæta plastið og bræða það en við það breytist eðli þess og efnasamsetning. Nýja aðferðin krefst minni orku og minna magns af skaðlegum efnahvötum en fyrri aðferðir og með henni er fræðilega séð hægt að endurvinna sama plastið aftur og aftur.
(Lesið frétt á heimasíðu Háskólans í Bath 30. janúar).
Svanaðu lífið
Á dögunum hleypti skrifstofa Svansins í Svíþjóð af stokkunum nýju átaki undir yfirskriftinni „Svana ditt liv“, eða „Svanaðu lífið“. Tilgangurinn með átakinu er að fá fleiri neytendur til að taka upp sjálfbærari lífsstíl. Sögnin „að svana“ er nýyrði sem nær yfir hvers konar aðgerðir í anda sjálfbærrar þróunar, þ.m.t. að flokka úrgang, ferðast saman, neyta sparlega og kaupa svansmerktar vörur. Orðinu er ætlað að hvetja fólk og gera því auðveldara fyrir, bæði að tala um og lifa sjálfbærara lífi.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 27. janúar).
Ónæmiskerfið þróast hægar en loftslagið
Vísindamenn við Háskólann í Lundi hafa fyrstir manna sýnt fram á tengsl milli ónæmiskerfis í fuglum og loftslagsins sem þeir lifa í. Fuglar sem ala allan sinn aldur í hitabeltislöndum með mikla úrkomu hafa fleiri ónæmiserfðavísa en fuglar á norðlægari og þurrari slóðum og ráða þess vegna við fleiri sjúdóma. Farfuglar líkjast evrópskum staðfuglum hvað þetta varðar og hafa tiltölulega fáa ónæmiserfðavísa, enda geta þeir í raun flúið sjúkdóma. Ónæmiserfðavísar allra hryggdýra eru sambærilegir og því draga vísindamennirnar þá ályktun af rannsókninni að þegar hitastig hækkar og úrkoma eykst vegna loftslagsbreytinga, komist ýmis dýr í tæri við sjúkdóma sem þau ráða ekki við. Ónæmiskerfið hafi þróast á milljónum ára og breytingar á því gangi miklu hægar fyrir sig en loftslagsbreytingarnar.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).
Úrgangi breytt í verðmætt grafen
Vísindamenn við Rice háskólann hafa fundið leið til að breyta hvaða kolefnisríka úrgangi sem er í grafen með eldsnöggri hitun í hvarftanki upp í rúmlega 2.700°C. Afurðin kallast „blossagrafen“ (e. flash graphene) og hefur m.a. þann kost að auðvelt er að aðskilja grafenlögin og fá þannig grafennet sem er aðeins ein sameind á þykkt. Efnið er firnasterkt og getur m.a. nýst sem styrktarefni í steinsteypu. Að sögn vísindamannanna þarf ekki nema 0,1% af grafeni í steypuna til að minnka kolefnisspor hennar um þriðjung, þar sem með þessu minnkar verulega þörfin fyrir framleiðslu og flutning á sementi. Sementframleiðsla orsakar nú um 8% af allri koldíoxíðlosun af mannavöldum í heiminum. Blossagrafenið er mun ódýrara en það grafen sem nú þekkist. Orkutap frá framleiðslunni er óverulegt þar sem varmaorkan binst nær öll í efninu. Önnur efni en kolefni losna frá hvarftankinum í loftkenndu formi og þau efni, þ.m.t. súefni og köfnunarefni, má auðveldlega fanga og jafnvel nýta.
(Sjá frétt ScienceDaily 27. janúar).
Fyrstu Svansmerktu drykkjarumbúðirnar
Umbúðafyrirtækið Tetra Pak í Svíþjóð varð á dögunum fyrst allra fyrirtækja til að fá vottun Norræna svansins fyrir drykkjarumbúðir. Ef allir Norðurlandabúar myndu velja þessar tilteknu drykkjarumbúðir (Tetra Rex® Plant-based) í stað umbúða sem nú eru notaðar í sama tilgangi, myndi losun koldíoxíðs minnka um 30.000 tonn á ári. Meðal krafna sem Svanurinn gerir til drykkjarumbúða er að þær samanstandi af a.m.k. 90% endurnýjanlegu efni (fernur) eða a.m.k. 80% endurunnu efni (gler,ál) eða a.m.k. 80% endurunnu/endurnýjanlegu efni (plast). Auk þess eru gerðar strangar kröfur um efnanotkun o.fl.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 23. janúar).
Hægt að minnka vistspor þjóða verulega með því að kaupa vörur frá löndum með „sjálfbæra“ framleiðslu
Hægt er að minnka verulega þann hluta af vistspori þjóða sem felst í innfluttum vörum með því að beina viðskiptum til umhverfisvænni landa. Í nýrri rannsókn á vistspori ESB-ríkjanna kom í ljós að ríkin gætu minnkað vatnsnotkun við framleiðslu á innfluttum varningi um 72%, landnotkun um 65%, efnisnotkun um 53% og kolefnisspor um 46% með því að beina viðskiptum sínum til landa sem framleiða vörur með sjálfbærari hætti en núverandi viðskiptalönd. Þannig flytja ESB-ríkin nú inn bíla frá 49 löndum og svæðum innan og utan sambandsins og er kolefnislosun vegna þessarar framleiðslu um 2 gígagrömm (Gg) CO2 fyrir hverjar milljón evrur. Með því að flytja aðeins inn bíla frá 13 völdum löndum og svæðum væri hægt að lækka þessa tölu í 0,4 Gg á milljón evrur, að teknu tilliti til framleiðslugetu upprunalandanna. Rannsóknin er innlegg í umræðu um kolefnisskatta á innflutning (carbon border adjustment (CBA)), þar sem hærri tollar yrðu lagðir á vörur frá löndum með mikla losun gróðurhúsalofttegunda.
(Sjá fréttabréfið Science for Environmental Policy 19. nóvember)
Hrun í fiskistofnum vegna skordýraeiturs
Fiskistofnar í japönskum vötnum hrundu á mjög skömmum tíma eftir að bændur í nágrenninu fóru að nota skordýraeitur sem innihélt neónikótínoíð. Þetta kemur fram í grein í tímaritinu Science, þar sem skoðuð voru gögn frá Shinji-vatninu í Japan fyrir og eftir upphaf neónikótínoíðnotkunar á svæðinu. Veiði á vatnaloðnu minnkaði um 90% á nokkrum árum eftir að eiturnotkunin hófst, en hafði áður verið stöðug áratugum saman. Á sama tíma minnkaði álaveiði um 74%. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem neónikótínoíð er tengt við fiskidauða, en fyrri rannsóknir hafa bent til tengsla eitursins við dauða ferskvatnsskordýra, snigla og fugla sem lifa á skordýrum í landbúnaðarhéruðum. Einnig hefur verið sýnt fram á neikvæð áhrif eitursins á ratvísi farfugla. Áhrif á fiska koma þó ekki á óvart þar sem ýmsir ferskvatnsfiskar lifa á smádýrum sem eitrið drepur. Reyndar spáði Rachel Carson fyrir um þessi tengsl í bók sinni Silent Spring árið 1962.
(Sjá frétt The Guardian 31. október).