Efnið Oxýbensón (einnig þekkt sem BP3), sem notað er sem útblámasía (e. UV-filter) í um 3.500 mismunandi tegundir af sólarvörn, á þátt í eyðileggingu kóralrifja að því er fram kemur í rannsókn sem sagt er frá í ritinu Archives of Environmental Contamination and Toxicology. Efnið getur verið banvænt fyrir unga kóralla og skaðað þá eldri. Þetta þykir skýra hvers vegna svo lítið af ungum kóröllum er að finna í kóralrifjum nálægt ferðamannastöðum, en á slíkum stöðum er styrkur efnisins eðlilega hæstur. Efnið virðist skaða kóralla í mjög lágum styrk, þ.e. allt niður í 62 þúsundmilljörðustuhluta sem jafngildir því að einum dropa væri blandað í sex og hálfa sundlaug af ólympískri stærð. Styrkurinn við Hawaii og í Karabíska hafinu mælist 12 sinnum hærri en þetta.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).
Greinasafn fyrir flokkinn: Vistkerfi
5.000 danskir garðeigendur hættir að eitra
Á síðustu fjórum mánuðum hafa um 5.000 garðeigendur í Danmörku hætt að nota Roundup og önnur eiturefni í garðræktinni og tilkynnt þátttöku sína í átakinu Eiturlausir garðar („Giftfri Have“), sem Náttúruverndarsamtök Danmerkur (DN) standa að í samvinnu við fleiri aðila. Tilkynning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á liðnu vori um að glýfosat, virka efnið í Roundup, geti valdið eitlakrabbameini, hefur væntanlega ýtt undir þessa þróun, en frá því að þetta var upplýst hefur Roundup víða verið bannað eða fjarlægt úr búðarhillum. Þannig hefur sala efnisins til einkaaðila verið stöðvuð í Frakklandi og Hollandi og á Sri Lanka hefur verið komið á innflutningsbanni, auk þess sem þar hefur verið bannað að dreifa því glýfosati sem þegar hefur verið keypt. Þá hefur efnið verið tekið úr sölu í a.m.k. 1500-2000 verslunum í Sviss, Þýskalandi og Danmörku, svo dæmi séu tekin.
(Sjá frétt á heimasíðu DN 5. október).
Mörg svæði á heimsminjaskrá í hættu vegna olíuvinnslu
Um þriðjungur allra náttúrufyrirbæra á heimsminjaskrá UNESCO (70 af 229) er í hættu vegna umsvifa olíu- og námufyrirtækja að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem náttúruverndarsamtökin WWF hafa unnið í samvinnu við fjárfestingarsjóðina Aviva Investors og Investec. Þar á meðal eru flestöll slík náttúrufyrirbæri í Afríku. Allmörg námufyrirtæki hafa gerst aðilar að svonefndri „no go“ yfirlýsingu sem felur í sér fyrirheit um að stunda ekki starfsemi á svæðum á heimsminjaskrá. Hins vegar hafa aðeins örfá olíufélög gert slíkt hið sama. Markaðshlutdeild „no go olíufélaga“ er þannig aðeins um 2% á heimsvísu.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Nýsjálendingar friða stórt hafsvæði
Nýsjálensk stjórnvöld hafa ákveðið að friða svonefnt Kermadecsvæði á hafinu norður af landinu, en á þessu svæði eru m.a. neðansjávareldfjöll og heimkynni sjávardýrategunda í útrýmingarhættu. John Key, forsætisráðherra landsins, tilkynnti um friðunina á fundi Sameinuðu þjóðanna í gær. Verndarsvæðið verður eitt af þeim stærstu í heimi, eða um 620.000 ferkílómetrar (sexföld stærð Íslands). Friðunin kom námufyrirtækjum í opna skjöldu, en nokkur þeirra höfðu uppi áform um vinnslu jarðefna af sjávarbotni á þessu svæði.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Frakkar hafna erfðabreyttri ræktun
Frönsk stjórnvöld ætla að nýta sér höfnunarkerfi Evrópusambandsins (ESB) til að viðhalda banni við ræktun á erfðabreyttum plöntum í landinu. Höfnunarkerfið, sem samþykkt var í mars, heimilar einstökum aðildarríkjum ESB að sækja um undanþágu frá öllum samþykktum sem heimila ræktun erfðabreyttra plantna í löndum sambandsins. Erfðabreytta maísafbrigðið MON810 frá Monsanto hefur hingað til verið eina erfðabreytta plantan sem ræktuð er í Evrópu, nánar tiltekið á Spáni og í Portúgal, en umsóknir um leyfi til ræktunar fleiri afbrigða bíða nú afgreiðslu hjá ESB. Þar á meðal er skordýraþolinn maís frá DuPont Pioneer og Dow Chemical, sem gengur undir nafninu 1507. Frakkar eru stærstu framleiðendur og útflytjendur korns í Evrópu, en Þjóðverjar hafa einnig ákveðið að beita höfnunarákvæðinu. Sama gildir m.a. um Letta og Grikki.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Norðmenn veiða rusl
Umhverfisstofnun Noregs hefur samið við fyrirtækið Salt Lofoten AS um að stýra tveggja ára tilraunaverkefni um veiðar á rusli í norskri lögsögu. Verkefnið er hluti af viðleitni aðildarríkja OSPAR-samningsins til að draga úr þeim neikvæðu áhrifum sem rusl hefur á lífríki sjávar. Fiskiskip sem taka þátt í verkefninu fá afhenta stórsekki sem þau safna í öllum úrgangi sem kemur upp með veiðarfærum. Fullum sekkjum er síðan skilað í höfnum sem þátt taka í verkefninu og þar verður innihaldið flokkað, skráð og komið í viðeigandi meðhöndlun. Markmiðið með verkefninu er ekki aðeins að fjarlægja rusl úr hafinu, heldur einnig að fræða sjómenn um umfang vandans, fá yfirlit yfir samsetningu úrgangsins og finna hentugar endurvinnsluleiðir. Stór hluti af ruslinu í hafinu er plast, gúmmí og málmar, sem allt á það sameiginlegt að brotna seint eða aldrei niður í náttúrunni. Áætlað er að um 15% af því rusli sem fer í sjóinn reki á land, um 15% fljóti um og um 70% sökkvi til botns. Heildarmagnið fer vaxandi ár frá ári.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs 23. ágúst).
Styrkur lyfja í evrópskum ám víða yfir mörkum
Hópur vísindamanna á vegum Evrópusambandins hefur reiknað út styrk þriggja algengra lyfja í evrópskum ám og komist að þeirri niðurstöðu að styrkurinn sé í allnokkrum tilvikum yfir viðmiðunarmörkum Vatnatilskipunar ESB. Lyfin sem um ræðir eru etinýlestradíól, estradíól og díklófenak. Tvö fyrrnefndu lyfin eru notuð í getnaðarvarnarpillur og sem staðgöngulyf fyrir hormón en díklófenak er bólgueyðandi (og má finna m.a. í Voltaren). Öll þessi efni eru talin hafa neikvæð áhrif á vistkerfi vatnasvæða, m.a. vegna áhrifa á hormónastarfsemi fiska, og eru því undir sérstöku eftirliti innan ESB. Niðurstöðurnar benda til að styrkur etinýlestradíóls sé yfir viðmiðunarmörkum í um 12% af evrópskum ám, að styrkur estradíóls sé yfir mörkum í 1,5% tilfella og að styrkur diklófenaks sé sömuleiðis yfir mörkum í 1,5% ánna. Ástandið er talið verst í Þýskalandi, Hollandi, Póllandi og Rúmeníu, þar sem allt að þriðjungur ánna stenst ekki gæðakröfur vatnatilskipunarinnar hvað þetta varðar.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 21. maí).
Lyfsölurisi með átak í söfnun lyfjaúrgangs
Lyfsölurisinn CVS í Bandaríkjunum hefur tekið til við að dreifa sérstökum tunnum fyrir lyfjaúrgang til sveitarfélaga og lögregluembætta með það að markmiði að lágmarka neikvæð áhrif úrgangsins á umhverfi og samfélag. Talið er að um 10-30% allra lyfja sem seld eru vestra séu aldrei notuð og safnist því fyrir í skápum eða endi annað hvort í salerninu eða ruslinu. Þaðan berist þau oftar en ekki í vötn og haf og geti þar skaðað vistkerfi og jafnvel heilsu manna ef þau berast inn í fæðukeðjuna. Lyfjaafgöngum á alla jafna að skila í apótek, því að erfitt hefur reynst að tryggja að lyfjaleifum sem skilað er á grenndarstöðvar sé ekki stolið úr gámunum. CVS hefur nú þegar dreift 275 sérstökum söfnunarílátum sem standast kröfur um öryggi og stefnir að því að færa yfirvöldum víðsvegar um Bandaríkin um 700 stykki til viðbótar á næstu misserum.
(Sjá frétt ENN í dag).
Hvíta húsið til bjargar býflugum
Hvíta húsið gaf í dag út Landsáætlun um heilsueflingu býflugna og annarra frjóbera sem á að stuðla að endurheimt frjóberastofna í Bandaríkjunum. Áætlunin kemur út samhliða rannsóknaniðurstöðum sem sýna að býflugnabændur í Bandaríkjunum hafa á einu ári misst um 42% af býflugnabúum sínum. Býflugur, fuglar, leðurblökur og fiðrildi gegna lykilhlutverki í frævun ávaxta- og grænmetisplantna auk annarra plantna sem eru undirstaða fæðuöflunar. Verðmæti þeirrar vistkerfaþjónustu sem þessir frjóberar veita er áætlað um 15 milljarðar Bandaríkjadala á ári (um 2.000 milljarðar ísl. kr.). Landsáætlunin felur meðal annars í sér tillögur um hvernig best sé að endurheimta skóglendi eftir skógarelda, hvernig hanna skuli opinberar byggingar með heilbrigði frjóbera í huga og hvernig haga skuli verndun vegkanta sem eru mikilvæg búsvæði frjóbera. Þá er stefnt að því að endurheimta eða bæta tæplega 3 milljónir hektara af landi fyrir frjóbera á næstu 5 árum.
(Sjá frétt Washington Post í dag).
Fosfór endurheimtur úr skólpi
Bandarískir vísindamenn hafa þróað nýja og betri aðferð til að endurheimta fosfór úr skólpi, en mikið af fosfór tapast með yfirborðsvatni og fljótandi úrgangi frá mönnum og dýrum. Athuganir vísindamannanna benda til að venjuleg skólphreinsistöð í Bandaríkjunum gæti framleitt um 490 tonn af fosfór árlega með þessari endurvinnslutækni. Með því að samþætta líffræðilegar og efnafræðilegar aðferðir telja vísindamennirnir að hægt sé að ná um 90% fosfórs úr fráveituvatni áður en því er sleppt út og að stofnkostnaður vegna hinnar nýju tæki ætti að geta borgað sig upp á þremur árum með sölu á fosfór. Fosfór er notaður í tilbúinn áburð og er undirstaða nútíma landbúnaðar. Eftirspurn eftir fosfór vex ört og er talið að nýtanlegar fosfórbirgðir heims muni ganga til þurrðar áður en langt um líður.
(Sjá frétt Science Daily 5. maí).