Á síðustu fjórum mánuðum hafa um 5.000 garðeigendur í Danmörku hætt að nota Roundup og önnur eiturefni í garðræktinni og tilkynnt þátttöku sína í átakinu Eiturlausir garðar („Giftfri Have“), sem Náttúruverndarsamtök Danmerkur (DN) standa að í samvinnu við fleiri aðila. Tilkynning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á liðnu vori um að glýfosat, virka efnið í Roundup, geti valdið eitlakrabbameini, hefur væntanlega ýtt undir þessa þróun, en frá því að þetta var upplýst hefur Roundup víða verið bannað eða fjarlægt úr búðarhillum. Þannig hefur sala efnisins til einkaaðila verið stöðvuð í Frakklandi og Hollandi og á Sri Lanka hefur verið komið á innflutningsbanni, auk þess sem þar hefur verið bannað að dreifa því glýfosati sem þegar hefur verið keypt. Þá hefur efnið verið tekið úr sölu í a.m.k. 1500-2000 verslunum í Sviss, Þýskalandi og Danmörku, svo dæmi séu tekin.
(Sjá frétt á heimasíðu DN 5. október).