Obama staðfestir bann við míkróplasti!

cosmeticsÞann 28. desember sl. undirritaði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lög sem banna notkun míkróplasts í snyrtivörur í Bandaríkjunum. Í lögunum (Microbead-Free Waters Act of 2015) er míkróplast skilgreint sem „plastagnir minni en 5 mm“ og frá og með 1. júlí 2017 verður bannað að framleiða snyrtivörur fyrir Bandaríkjamarkað sem innihalda slíkar agnir. Árið 2019 verður öll sala slíkrar vöru bönnuð. Snyrtivöruframleiðendur hafa tekið lögunum fagnandi og hrósað yfirvöldum fyrir þá samstöðu sem skapaðist við setningu laganna, en margir af stærstu framleiðendunum hafa þegar gert áætlanir um að úthýsa míkróplasti úr vörum sínum. Eins og áður hefur komið fram á 2020.is fékk bann við míkróplasti byr undir báða vængi vestanhafs eftir að rannsóknir sýndu fram á gríðarlegt magn plastagna í Vötnunum miklu.
(Sjá frétt Environmental Leader 4. janúar).

Hvíta húsið til bjargar býflugum

bees_160Hvíta húsið gaf í dag út Landsáætlun um heilsueflingu býflugna og annarra frjóbera sem á að stuðla að endurheimt frjóberastofna í Bandaríkjunum. Áætlunin kemur út samhliða rannsóknaniðurstöðum sem sýna að býflugnabændur í Bandaríkjunum hafa á einu ári misst um 42% af býflugnabúum sínum. Býflugur, fuglar, leðurblökur og fiðrildi gegna lykilhlutverki í frævun ávaxta- og grænmetisplantna auk annarra plantna sem eru undirstaða fæðuöflunar. Verðmæti þeirrar vistkerfaþjónustu sem þessir frjóberar veita er áætlað um 15 milljarðar Bandaríkjadala á ári (um 2.000 milljarðar ísl. kr.). Landsáætlunin felur meðal annars í sér tillögur um hvernig best sé að endurheimta skóglendi eftir skógarelda, hvernig hanna skuli opinberar byggingar með heilbrigði frjóbera í huga og hvernig haga skuli verndun vegkanta sem eru mikilvæg búsvæði frjóbera. Þá er stefnt að því að endurheimta eða bæta tæplega 3 milljónir hektara af landi fyrir frjóbera á næstu 5 árum.
(Sjá frétt Washington Post í dag).

Al Gore skorar á Barack Obama að láta til sín taka í loftslagsmálum

Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, hefur skorað á Barack Obama að nýta færið sem nú gefst í upphafi nýs kjörtímabils til að grípa til róttækra aðgerða í loftslagsmálum, svo sem með álagningu kolefnisskatta. Þannig megi í senn þoka þjóðinni fjær fjárlagaþverhnípinu svokallaða (e. fiscal cliff) sem blasir við í lok þessa árs og loftslagsþverhnípinu (e. climate cliff). Líklegt er að aðgerðir af þessu tagi njóti meiri stuðnings meðal Bandaríkjamanna nú en áður, þar sem fellibylurinn Sandy virðist hafa vakið fólk harkalega til umhugsunar um áhrif manna á loftslag á jörðinni.
(Sjá frétt The Guardian í gær).