Glýfosat í þvagi danskra stjórnmálamanna

1450513463_9fe7108f9d_o-160Glýfosat fannst í þvagi allra stjórnmálamanna í 25 manna hópi sem tekinn var til rannsóknar í tilefni af ráðstefnu um erfðabreyttar lífverur sem haldin var í Christiansborg í Kaupmannahöfn á dögunum. Meðalstyrkur efnisins var 0,89 ng/mg (nanógrömm efnis í milligrammi af þvagi) meðal þeirra sem tamið höfðu sér lífrænan lífsstíl en 1,45 ng/mg hjá þeim sem töldust hefðbundnir neytendur. Glýfosat, sem er m.a. virka efnið í plöntueitrinu Roundup, er flokkað sem krabbameinsvaldur, en engin leið er að segja til um hvort umræddur styrkur muni hafa áhrif á heilsu viðkomandi stjórnmálamanna. Niðurstöðurnar sýna hins vegar að efnið er orðið útbreitt í umhverfinu og í fæðukeðjunni, en vitað er að það er m.a. mjög skaðlegt fyrir vatnalífverur.
(Sjá frétt á heimasíðu Náttúruverndarsamtaka Danmerkur í dag).

5.000 danskir garðeigendur hættir að eitra

dreng-i-have-600x338pxÁ síðustu fjórum mánuðum hafa um 5.000 garðeigendur í Danmörku hætt að nota Roundup og önnur eiturefni í garðræktinni og tilkynnt þátttöku sína í átakinu Eiturlausir garðar („Giftfri Have“), sem Náttúruverndarsamtök Danmerkur (DN) standa að í samvinnu við fleiri aðila. Tilkynning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á liðnu vori um að glýfosat, virka efnið í Roundup, geti valdið eitlakrabbameini, hefur væntanlega ýtt undir þessa þróun, en frá því að þetta var upplýst hefur Roundup víða verið bannað eða fjarlægt úr búðarhillum. Þannig hefur sala efnisins til einkaaðila verið stöðvuð í Frakklandi og Hollandi og á Sri Lanka hefur verið komið á innflutningsbanni, auk þess sem þar hefur verið bannað að dreifa því glýfosati sem þegar hefur verið keypt. Þá hefur efnið verið tekið úr sölu í a.m.k. 1500-2000 verslunum í Sviss, Þýskalandi og Danmörku, svo dæmi séu tekin.
(Sjá frétt á heimasíðu DN 5. október).