Hópur breskra vísindamanna hefur sýnt fram á að býflugur sem geta valið á milli hreinnar fæðu og fæðu sem er menguð af skordýraeitrinu neónikótínoíð virðast forðast eitrið í fyrstu en fara svo smám saman að taka eitraða fóðrið framyfir hitt. Þetta bendir til að flugurnar þrói með sér einhvers konar fíkn, sambærilega fíkn reykingamanna í nikótín í tóbaki, enda um skyld efni að ræða. Þetta gæti verið vísbending um að skordýraeitrið sé enn skaðlegra býflugum en áður var talið.
(Sjá frétt Guardian í gær).
Greinasafn fyrir flokkinn: Vistkerfi
Horfur á stórfelldum samdrætti í fiskveiðum
Líkur eru á að árið 2300 verði fiskafli í heiminum að meðaltali 20% minni en hann er nú og að í Norður-Atlantshafi verði samdrátturinn um 60%. Þetta kemur fram í grein sem vísindamenn við Háskólann í Kaliforníu rita í nýjasta tölublað Science. Með hækkandi hitastigi sjávar og bráðnun íss á heimskautasvæðunum mun ljóstillífun plöntusvifs við Suðurskautslandið vaxa verulega, sem þýðir að næringarefni (einkum köfnunarefni og fosfór) hætta að berast þaðan til annarra hafsvæða í sama mæli og nú. Þar af leiðandi mun plöntusvifi fara hnignandi á þeim svæðum og sú hnignun mun ganga upp alla fæðukeðjuna.
(Sjá frétt Science Daily 8. mars).
Fuglar geta dregið úr varnarefnanotkun
Bændur geta minnkað þörf sína fyrir varnarefni í ræktun nytjaplantna með því að laða til sín fugla sem verja akra fyrir dýrum sem skerða uppskeruna. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn Háskólans í Michigan, sem sagt er frá í nýjasta hefti tímaritsins Agriculture, Ecosystems and Environment. Berjaræktendur hafa m.a. náð góðum árangri á þessu sviði með því að setja upp hreiðurkassa eða búa með öðrum hætti í haginn fyrir ránfugla sem síðan nærast í smærri fuglum, nagdýrum o.fl. dýrum sem annars eiga það til að éta drjúgan skammt af berjauppskerunni. Á þennan hátt fá bændurnir mikilvæga vistkerfisþjónustu með litlum tilkostnaði, spara fé í varnarefnakaupum, auka uppskeru, framleiða neytendavænni vöru og hjálpa jafnvel til við að viðhalda stofnum lífvera í útrýmingarhættu.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Michigan 1. mars).
Fangelsisdómur fyrir dreifingu ágengra tegunda
Ríkisstjórn Svíþjóðar áformar ýmsar lagabreytingar til að hefta útbreiðslu ágengra tegunda í landinu. Í tillögum stjórnarinnar er m.a. gert ráð fyrir að hver sá sem dreifir ágengum tegundum af ásetningi eða með vítaverðu gáleysi skuli dæmdur til sektargreiðslu eða fangelsisvistar í allt að tvö ár. Þá er lagt til að heimilt verði að tilgreina í reglugerðum hvaða aðgerða skuli gripið til vegna einstakra tegunda og að sveitarstjórnir geti gripið til aðgerða til að eyða ágengum tegundum af landi í einkaeigu, jafnvel gegn vilja eigandans. Tillögum stjórnarinnar er ætlað að tryggja að Svíþjóð uppfylli skilyrði Evrópureglugerðar frá árinu 2015.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 23. febrúar).
Ósjálfbært súkkulaði í Valentínusargjöf?
Kakóræktun á stóran þátt í eyðingu skóga víða um heim að því er fram kemur í skýrslu samtakanna Mighty Earth. Þetta sést m.a. þegar kort af kakóræktunarsvæðum eru borin saman við kort af skógareyðingu síðustu árin. Ástandið er sérstaklega alvarlegt í Vestur-Afríku og vaxandi eftirspurn eftir súkkulaði gæti leitt til sambærilegra afleiðinga í löndum á borð við Fílabeinsströndina og Gana.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).
Fosfórmengun ógnar ferskvatni jarðar
Styrkur fosfórs í ferskvatni er víða kominn að hættumörkum, en á hverju ári bætast 1,47 teragrömm (1,47 milljónir tonna) vegna athafna manna við það sem fyrir er. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Water Resources Research, sem gefið er út af The American Geophysical Union (AGU). Á 38% jarðarinnar er styrkur fosfórs í ferskvatni kominn fram úr því sem náttúruleg kerfi ráða við að taka upp og þynna. Á þessum svæðum búa um 90% mannkyns. Stærstur hluti fosfórmengunarinnar, um 54%, á rætur að rekja til fráveitukerfa, um 38% koma úr áburði sem skolast út af landbúnaðarlandi og 8% koma frá iðnaði. Fosfórmengun í vötnum stuðlar að ofauðgun og þörungablóma með tilheyrandi súrefnisskorti og dauða í neðri lögum vatnsins.
(Sjá frétt á heimasíðu AGU 25. janúar).
Fiskar í menguðu vatni þurfa að vinna meira
Lyfjaleifar og önnur mengunarefni í vatni neyða fiska til að leggja á sig meira erfiði en ella til að komast af, að því er fram kemur í nýrri vísindagrein eftir sérfræðinga við McMaster-háskólann í Ontaríó í Kanada. Jafnvel fullkomnustu skólphreinsistöðvar ná ekki að klófesta leifar af lyfjum á borð við getnaðarvarnarpillur, þunglyndislyf og beta-blokkera áður en skólpinu er hleypt út í viðtakann. Þessi efni og önnur mengunarefni í vatni gera það að verkum að fiskar leggja á sig u.þ.b. 30% viðbótarvinnu til að losa sig við efnin. Þetta þýðir að minni orka verður afgangs en ella til annarra verka, svo sem til þess að afla næringar, verjast rándýrum og æxlast. Þar með minnka afkomumöguleikar stofnsins, jafnvel þótt efnin drepi ekki fiskana. Þarna er því í raun um falin eitrunaráhrif að ræða. Einn af höfundum rannsóknarinnar líkir þessum áhrifum við það ef fólk þyrfti að ganga í nokkrar klukkustundir á hverjum degi (án þess að fá meiri mat).
(Sjá frétt Science Daily 16. janúar).
Býflugum fækkar vegna sveppaeiturs
Sveppaeitur sem dreift er á ræktað land virðist eiga stóran þátt í þeirri fækkun býflugna sem mikið hefur verið í umræðunni á síðustu misserum. Þetta kom í ljós í nýrri greiningu sem sagt er frá í tímaritinu Proceedings of the Royal Society B. Niðurstöðurnar voru fengar með tölfræðilegri greiningu á niðurstöðum rannsókna frá 284 stöðum í Bandaríkjunum og samtals voru skoðuð áhrif 24 mismunandi þátta á afkomumöguleika fjögurra býflugnategunda. Meðal þessara þátta voru hnattstaða, hæð yfir sjó, gerð og ástand búsvæða, þéttleiki byggðar og notkun varnarefna. Það kom nokkuð á óvart að sveppaeitrið klóróþalóníl reyndist stærsti áhrifavaldurinn. Talið er líklegt að þetta stafi af því að eitrið drepi örverur í meltingarvegi býflugnanna og auki þannig líkur á þarmaveiki af völdum Nosema-sníkilsins. Áður var vitað að notkun skordýraeiturs sem inniheldur neónikótínoíð hefur skaðað býflugnastofna. Býflugur og aðrir frjóberar sjá um að frjóvga um 75% allra matjurta í heiminum og því er fækkun þeirra mikið áhyggjuefni.
(Sjá frétt The Guardian 29. desember).
Framandi tegundir hafa óvænta aðlögunarhæfni á nýjum svæðum
Framandi tegundir virðast hafa meiri aðlögunarhæfni þar sem þær nema land en áður var talið, að því er fram kom í viðamikilli rannsókn sem sagt er frá í grein í vefritinu Nature Ecology and Evolution. Þessi uppgötvun kollvarpar fyrri hugmyndum um að tegundir séu líklegastar til að ná útbreiðslu á svæðum þar sem loftslag og aðrar aðstæður eru eins og á heimasvæðum þeirra. Framandi tegundir geta með öðrum orðum orðið ágengar þó að aðstæður á nýjum stað virðist óhagstæðar við fyrstu sýn og verið fljótari að aðlagast þar en á gamla staðnum. Jafnframt virðist þessi aðlögunarhæfni meiri hjá ræktuðum tegundum en villtum. Þetta kallar á breytingar á áhættumati vegna innflutnings tegunda, þar sem þetta eykur óvissu í spám um afdrif tegundar á nýju svæði. Jafnframt getur þetta torveldað beitingu lífrænna varna (e. biological control). Allt þetta gerir varnir gegn framandi ágengum tegundum flóknari og ómarkvissari en ella og getur þannig haft víðtæk áhrif á fæðuframleiðslu og viðnámsþrótt vistkerfa.
(Sjá frétt Science Daily í dag).
Örlitlir skammtar eiturefna trufla vatnalífverur
Örlitlir skammtar af eiturefnum geta haft áhrif á næringarvenjur og sundhegðun vatnadýra. Þetta kom fram í rannsókn vísindamanna við háskólana í Barcelona og Portsmouth, en þeir könnuðu áhrif afar lítilla skammta af tilteknu sveppaeitri og tilteknu þunglyndislyfi sem berast að einhverju marki í vötn frá landbúnaði og fráveitukerfum. Marflær nærast m.a. á laufum sem sveppir hafa brotið niður, en örlítið magn sveppaeiturs dugar til að spilla því ferli. Þunglyndislyfjaleifar höfðu einnig neikvæð áhrif á fæðuinntöku. Marflær syntu hraðar en ella í vatni sem var annað hvort mengað af sveppaeitri eða þunglyndislyfi, en hægar ef bæði efnin voru til staðar samtímis. Rannsóknin bendir annars vegar til að efnamengun geti haft veruleg áhrif á hegðun vatnadýra löngu áður en banvænum styrk er náð og hins vegar að kokteiláhrif tveggja eða fleiri efna geti leitt til ófyrirséðra breytinga í vistkerfinu og þar með í fæðukeðju manna.
(Sjá frétt Science Daily 16. október).