Ósjálfbært súkkulaði í Valentínusargjöf?

Kakóræktun á stóran þátt í eyðingu skóga víða um heim að því er fram kemur í skýrslu samtakanna Mighty Earth. Þetta sést m.a. þegar kort af kakóræktunarsvæðum eru borin saman við kort af skógareyðingu síðustu árin. Ástandið er sérstaklega alvarlegt í Vestur-Afríku og vaxandi eftirspurn eftir súkkulaði gæti leitt til sambærilegra afleiðinga í löndum á borð við Fílabeinsströndina og Gana.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).

Páskaeggjaumbúðir endurunnar

Sainsburys-Easter-Egg-Rec-009Sérstökum endurvinnslutunnum fyrir páskaeggjaumbúðir hefur verið komið fyrir í 50 verslunum bresku keðjunnar Sainsbury’s. Í tunnurnar er hægt að skila harðplasti, mjúkplasti, pappa, álpappír, borðum og hvers kyns umbúðaúrgangi sem notaður er utan um páskaegg. Talið er að um 3.000 tonn af umbúðaúrgangi falli til í Bretlandi á hverju ári í tengslum við sölu á páskaeggjum og öðru páskatengdu súkkulaði. Með átaki sínu vill Sainsbury’s ýta undir aukna endurvinnslu og minnka magn heimilisúrgangs til urðunar.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Tíu stærstu matvælafyrirtæki heims sinna lítt um fólk og umhverfi

Food-companies-and-ethica-009Tíu stærstu matvælafyrirtæki heims fá nánast falleinkun í nýrri skýrslu Oxfam um frammistöðu fyrirtækjanna í umhverfis- og samfélagsmálum. Í skýrslunni, sem ber yfirskriftina „Á bak við merkin“, eru fyrirtækjunum gefnar einkunnir fyrir 7 þætti, þ.e. „land“, „konur“, „bændur“, „verkamenn“, „loftslag“, „gagnsæi“ og „vatn“. Nestlé kemur skást út úr þessum samanburði, en fær þó aðeins 38 stig af 70 mögulegum. ABF (Associated British Foods) vermir botnsætið með aðeins 13 stig, og Kellogg’s og General Mills eru litlu ofar með 16 stig. Öll hafa fyrirtækin gefið út yfirlýsingar um mikilvægi ábyrgra viðskipta með matvæli, en ekkert þeirra hefur staðið við orð sín hvað það varðar. Oxfam hvetur neytendur til að senda fyrirtækjunum skýr skilaboð um að gera betur, enda verði þau ekki lengi stór án neytenda. Fyrst verður sjónum beint að réttindum „kvennanna á bak við súkkulaðið“.
(Sjá frétt The Guardian í dag).