Fangelsisdómur fyrir dreifingu ágengra tegunda

Ríkisstjórn Svíþjóðar áformar ýmsar lagabreytingar til að hefta útbreiðslu ágengra tegunda í landinu. Í tillögum stjórnarinnar er m.a. gert ráð fyrir að hver sá sem dreifir ágengum tegundum af ásetningi eða með vítaverðu gáleysi skuli dæmdur til sektargreiðslu eða fangelsisvistar í allt að tvö ár. Þá er lagt til að heimilt verði að tilgreina í reglugerðum hvaða aðgerða skuli gripið til vegna einstakra tegunda og að sveitarstjórnir geti gripið til aðgerða til að eyða ágengum tegundum af landi í einkaeigu, jafnvel gegn vilja eigandans. Tillögum stjórnarinnar er ætlað að tryggja að Svíþjóð uppfylli skilyrði Evrópureglugerðar frá árinu 2015.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 23. febrúar).

Framandi tegundir hafa óvænta aðlögunarhæfni á nýjum svæðum

Framandi tegundir virðast hafa meiri aðlögunarhæfni þar sem þær nema land en áður var talið, að því er fram kom í viðamikilli rannsókn sem sagt er frá í grein í vefritinu Nature Ecology and Evolution. Þessi uppgötvun kollvarpar fyrri hugmyndum um að tegundir séu líklegastar til að ná útbreiðslu á svæðum þar sem loftslag og aðrar aðstæður eru eins og á heimasvæðum þeirra. Framandi tegundir geta með öðrum orðum orðið ágengar þó að aðstæður á nýjum stað virðist óhagstæðar við fyrstu sýn og verið fljótari að aðlagast þar en á gamla staðnum. Jafnframt virðist þessi aðlögunarhæfni meiri hjá ræktuðum tegundum en villtum. Þetta kallar á breytingar á áhættumati vegna innflutnings tegunda, þar sem þetta eykur óvissu í spám um afdrif tegundar á nýju svæði. Jafnframt getur þetta torveldað beitingu lífrænna varna (e. biological control). Allt þetta gerir varnir gegn framandi ágengum tegundum flóknari og ómarkvissari en ella og getur þannig haft víðtæk áhrif á fæðuframleiðslu og viðnámsþrótt vistkerfa.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Ágengar tegundir enn meiri ógn en talið var

Red swamp crayfishÁgengar framandi tegundir ógna lífræðilegri fjölbreytni, heilsu manna og hagkerfum jafnvel enn meira en áður var talið, ef marka má tvær nýjar skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA). Þar kemur m.a. fram að af þeim 395 tegundum evrópskra lífvera sem IUCN flokkar sem tegundir í bráðri útrýmingarhættu (e. critically endangered) séu 110 í hættu vegna ágengra framandi tegunda. Áætlað hefur verið að ágengar tegundir kosti Evrópu um 12 milljarða evra á ári (rúmlega 2.000 milljarða ísl. kr). Sem dæmi um þetta má nefna tjón á uppskeru af völdum Spánarsnigils og kostnað vegna zebrakræklings sem m.a. stíflar vatnssíur og kælivatnstanka.
(Sjá frétt á heimasíðu EEA í gær).

Barist við hreindýr á Suður-Georgíu

Hreindýr Suður-GeorgíuUm 3.000 hreindýrum verður útrýmt á eyjunni Suður-Georgíu á Suðurheimskautssvæðinu næstu tvö sumur í umfangsmikilli aðgerð til að koma í veg fyrir frekara tjón á lífríki eyjunnar. Hreindýrin voru upphaflega flutt til Suður-Georgíu árið 1911 sem fæða fyrir norska hvalveiðimenn. Síðan hefur þeim fjölgað mjög og valdið mikilli gróður- og jarðvegseyðingu, auk þess sem þau hafa eyðilegt búsvæði fugla og annarra innlendra tegunda. Hreindýrin á Suður-Georgíu eru hluti af miklu stærra vandamáli á heimsvísu, en samanlagt árlegt tjón af völdum ágengra tegunda hefur verið áætlað um 1,4 trilljónir Bandaríkjadala (um 182.000 milljarðar ísl. kr).
(Sjá frétt PlanetArk í gær).

Freigátufuglar aftur á Ascension eftir 150 ára fjarveru

A-male-frigatebird-010Á dögunum fundust tvö hreiður freigátufugla á Ascension-eyjunni í sunnanverðu Atlantshafi, en u.þ.b. 150 ár eru liðin síðan villikettir útrýmdu síðustu ungum tegundarinnar á eyjunni. Freigátufuglar eru í hópu sjaldgæfustu sjófugla heims og því þykja þetta mikil tíðindi. Endurkoma fuglanna er árangur margra ára átaks til að útrýma villiköttum á Ascension. Köttunum var upphaflega sleppt á eyjunni í kringum aldamótin 1800 til að koma í veg fyrir að rottur fjölguðu sér óhóflega. Rotturnar höfðu borist þangað vegna gáleysis manna og voru farnar að ógna fuglastofnum. Raunin varð sú að kettirnir gengu í lið með rottunum í ungaátinu og síðan þá hafa fuglar átt mjög undir högg að sækja á þessum slóðum.
(Sjá frétt The Guardian 8. desember).