Þúsundir farfugla hafa fallið dauðir af himnum ofan í suðvesturríkjum Bandaríkjanna síðustu daga. Líklegt þykir að þetta tengist afbrigðilegu tíðarfari vegna loftslagsbreytinga, m.a. langvarandi þurrkum á mikilvægum viðkomustöðum fuglanna á leið sinni norðan frá Kanada og Alaska til suðlægari slóða. Þar hefur því e.t.v. ekki verið hægt að ná í þá fæðu sem fuglarnir þurfa til að ljúka flugferðinni. Þá kunna gróðureldar í Kaliforníu að hafa neytt þá til að breyta flugleiðinni, auk þess sem breyttar aðstæður vegna loftslagsbreytinga í sumarhögunum gætu hafa leitt til þess að ekki náðist að safna nægum forða fyrir flugið. Skammvinnt kuldakast þar norður frá gæti einnig hafa orðið til þess að fuglarnir lögðu fyrr af stað en ella, án þess að vera nægjanlega undir ferðalagið búnir. Flest þykir sem sagt benda til að fuglarnir hafi drepist úr hungri á fluginu, en reykur frá gróðureldum kann einnig að hafa haft áhrif. Fugladauði af þessu tagi er ekki alveg óþekktur, en umfangið virðist með allra mesta móti.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Fáheyrður fugladauði í Bandaríkjunum
Svara