Hlýnun sjávar eykur líkur á farsóttum í sjávardýrum

lobsterHækkandi hitastig sjávar eykur líkur á smitsjúkdómum í sjávarlífverum og stuðlar jafnvel að hruni stofna, ef marka má tvær nýjar rannsóknir Cornell Háskólans í Bandaríkjunum. Í annarri rannsókninni voru áhrif hlýnunar sjávar á krossfiska við vesturströnd Bandaríkjanna skoðuð og kom þar fram að hægt var að rekja dauða um 90% krossfiskastofna á svæðinu frá Mexíkó að Alaska til hitabylgju á árunum 2013-2014. Í hinni rannsókninni kom fram að hitastig getur haft áhrif á farsóttir í stofnum skjaldbaka, kórala, humars, skelfisks og marhálms. Þannig er Ameríkuhumar mjög viðkvæmur fyrir breytingum á hitastigi, en humarinn er mikilvægur fyrir efnahag Maine-ríkis nyrst á austurströnd Bandaríkjanna. Erfitt er að koma í veg fyrir smit vegna hækkandi hitastigs, en höfundar rannsóknanna benda á mikilvægi þess að flytja ekki lífverur milli svæða, auk þess sem fylgjast þarf með sveiflum í hitastigi til að geta séð hitabylgjur fyrir.
(Sjá frétt Science Daily 16. febrúar).

Obama staðfestir bann við míkróplasti!

cosmeticsÞann 28. desember sl. undirritaði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lög sem banna notkun míkróplasts í snyrtivörur í Bandaríkjunum. Í lögunum (Microbead-Free Waters Act of 2015) er míkróplast skilgreint sem „plastagnir minni en 5 mm“ og frá og með 1. júlí 2017 verður bannað að framleiða snyrtivörur fyrir Bandaríkjamarkað sem innihalda slíkar agnir. Árið 2019 verður öll sala slíkrar vöru bönnuð. Snyrtivöruframleiðendur hafa tekið lögunum fagnandi og hrósað yfirvöldum fyrir þá samstöðu sem skapaðist við setningu laganna, en margir af stærstu framleiðendunum hafa þegar gert áætlanir um að úthýsa míkróplasti úr vörum sínum. Eins og áður hefur komið fram á 2020.is fékk bann við míkróplasti byr undir báða vængi vestanhafs eftir að rannsóknir sýndu fram á gríðarlegt magn plastagna í Vötnunum miklu.
(Sjá frétt Environmental Leader 4. janúar).

Banna Bandaríkjamenn míkróplast?

microbeadsFulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt lagafrumvarp sem bannar sölu á snyrtivörum sem innihalda míkróplast. Frumvarpið bíður nú samþykktar öldungadeildarinnar og ef af verður kemur bannið til framkvæmda 1. júlí 2017. Míkróplast er farið að hafa veruleg áhrif á vistkerfi Vatnanna miklu og er velgengni frumvarpsins talin tengjast því að miklu leyti. Sem dæmi um ástandið má nefna að um 1,1 milljón plastagna fannst í hverjum ferkílómetra Ontariovatnsins í rannsókn sem gerð var 2013. Einn frummælenda lagafrumvarpsins orðaði það svo að „við munum berjast gegn hverri þeirri starfsemi sem ógnar okkar elskuðu vötnum“. Nú þegar hafa ríkin Illinois og Kalifornía sett lög sem banna vörur með míkróplasti og Ohio og Michigan eru einnig með slíkt í undirbúningi. Þrjú af þessum fjórum ríkjum liggja að Vötnunum miklu.
(Sjá frétt the Guardian í dag).

Helmingur af öllu fiskmeti í súginn

seafoodUm 47% af öllum þeim sjávarafurðum sem ætlaðar eru til manneldis í Bandaríkjunum fara til spillis að því er fram kemur í nýrri rannsókn frá Johns Hopkins Center for a Livable Future (CLF). Þar af tapast um 12 prósentustig vegna brottkasts á sjó og um 7 prósentustig í dreifingu og sölu. Langstærsti hlutinn, um 28 prósentustig, fer í súginn hjá neytendum. Samtals er þannig rúmlega milljón tonnum af sjávarfangi sóað árlega, en sá skammtur myndi duga til að sjá 10-12 milljónum manna fyrir nægu próteini.
(Sjá frétt ENN í dag).

Lyfsölurisi með átak í söfnun lyfjaúrgangs

CVS_lyfLyfsölurisinn CVS í Bandaríkjunum hefur tekið til við að dreifa sérstökum tunnum fyrir lyfjaúrgang til sveitarfélaga og lögregluembætta með það að markmiði að lágmarka neikvæð áhrif úrgangsins á umhverfi og samfélag. Talið er að um 10-30% allra lyfja sem seld eru vestra séu aldrei notuð og safnist því fyrir í skápum eða endi annað hvort í salerninu eða ruslinu. Þaðan berist þau oftar en ekki í vötn og haf og geti þar skaðað vistkerfi og jafnvel heilsu manna ef þau berast inn í fæðukeðjuna. Lyfjaafgöngum á alla jafna að skila í apótek, því að erfitt hefur reynst að tryggja að lyfjaleifum sem skilað er á grenndarstöðvar sé ekki stolið úr gámunum. CVS hefur nú þegar dreift 275 sérstökum söfnunarílátum sem standast kröfur um öryggi og stefnir að því að færa yfirvöldum víðsvegar um Bandaríkin um 700 stykki til viðbótar á næstu misserum.
(Sjá frétt ENN í dag).

Hvíta húsið til bjargar býflugum

bees_160Hvíta húsið gaf í dag út Landsáætlun um heilsueflingu býflugna og annarra frjóbera sem á að stuðla að endurheimt frjóberastofna í Bandaríkjunum. Áætlunin kemur út samhliða rannsóknaniðurstöðum sem sýna að býflugnabændur í Bandaríkjunum hafa á einu ári misst um 42% af býflugnabúum sínum. Býflugur, fuglar, leðurblökur og fiðrildi gegna lykilhlutverki í frævun ávaxta- og grænmetisplantna auk annarra plantna sem eru undirstaða fæðuöflunar. Verðmæti þeirrar vistkerfaþjónustu sem þessir frjóberar veita er áætlað um 15 milljarðar Bandaríkjadala á ári (um 2.000 milljarðar ísl. kr.). Landsáætlunin felur meðal annars í sér tillögur um hvernig best sé að endurheimta skóglendi eftir skógarelda, hvernig hanna skuli opinberar byggingar með heilbrigði frjóbera í huga og hvernig haga skuli verndun vegkanta sem eru mikilvæg búsvæði frjóbera. Þá er stefnt að því að endurheimta eða bæta tæplega 3 milljónir hektara af landi fyrir frjóbera á næstu 5 árum.
(Sjá frétt Washington Post í dag).

2.500 milljörðum eytt í ónotað rafmagn

electronics_160Bandaríkjamenn eyða árlega um 19 milljörðum dala (um 2.500 milljörðum ísl .kr.) í rafmagn fyrir raftæki sem ekki eru í notkun, að því er fram kemur í nýrri úttekt Natural Resources Defense Council. Að meðaltali eru þetta um 165 dalir á hvert heimili (21 þús. ísl.kr.). Til að framleiða þetta rafmagn þarf um 50 stór raforkuver. Raforkan er notuð á meðan fólk heldur að slökkt sé á tækinu eða þegar tækið er stillt á „Standby“ eða „sleep-mode“. Einnig hefur færst í aukana að fólk hafi alltaf kveikt á tækjum á borð við fartölvur, sem nota þá rafmagn þó að þau séu ekki í notkun. Þrátt fyrir að orkunýtni raftækja hafi batnað mjög á síðustu árum hefur tækniþróun leitt til þess að mörg raftæki nota sífellt rafmagn. Þannig hafa margar þvottavélar, þurrkarar, ískápar og fleiri tæki rafskjá og rafrænan stjórnunarbúnað. Önnur tæki, svo sem sjónvörp, eru í stöðugu netsambandi sem eykur einnig orkunotkun. Neytendur geta dregið úr orkusóun með því að nota tímarofa, fjöltengi með rofa, snjalltengi („smart power strip“) eða með því að breyta stillingum tækja.
(Sjá frétt ENN 7. maí).

Fosfór endurheimtur úr skólpi

phosphorus_160Bandarískir vísindamenn hafa þróað nýja og betri aðferð til að endurheimta fosfór úr skólpi, en mikið af fosfór tapast með yfirborðsvatni og fljótandi úrgangi frá mönnum og dýrum. Athuganir vísindamannanna benda til að venjuleg skólphreinsistöð í Bandaríkjunum gæti framleitt um 490 tonn af fosfór árlega með þessari endurvinnslutækni. Með því að samþætta líffræðilegar og efnafræðilegar aðferðir telja vísindamennirnir að hægt sé að ná um 90% fosfórs úr fráveituvatni áður en því er sleppt út og að stofnkostnaður vegna hinnar nýju tæki ætti að geta borgað sig upp á þremur árum með sölu á fosfór. Fosfór er notaður í tilbúinn áburð og er undirstaða nútíma landbúnaðar. Eftirspurn eftir fosfór vex ört og er talið að nýtanlegar fosfórbirgðir heims muni ganga til þurrðar áður en langt um líður.
(Sjá frétt Science Daily 5. maí).

Flestir rafbílar skráðir í Bandaríkjunum

tesla_160Um 41% allra rafbíla í heiminum eru skráðir í Bandaríkjunum, en ótrúleg aukning hefur verið í sölu slíkra bíla síðan Nissan Leaf og Chevrolet Volt voru settir á markað vestra árið 2010. Þá hefur drægni Tesla bílanna haft mikil áhrif á markaðinn og aukið trú fólks á getu rafbíla til að koma í staðinn fyrir hefðbundna bíla. Í árslok 2014 voru um 712.000 rafbílar skráðir í heiminum, þar af um 290.000 í Bandaríkjunum. Japan er í öðru sæti hvað þetta varðar og Kína í því þriðja. Markaðsgreiningar benda til að Bandaríkin muni leiða rafbílavæðinguna næstu 5 ár en eftir það er talið líklegt að Evrópa verði stærsti markaðurinn, þar sem stefnumótun Evrópuríkja er hagstæðari fyrir rafbílaeigendur, m.a. vegna kolefnisskatta og niðurgreiðslna fyrir vistvæna bíla.
(Sjá frétt ENN 21. apríl).

Costco vill hætta sölu kjúklings sem alinn er á sýklalyfjum

Photo of the rear of a Costco membership card /American Express credit cardCostco verslunarkeðjan ætlar að hætta að selja kjöt af kjúklingum og öðrum dýrum sem meðhöndluð hafa verið með sýklalyfjum sem einnig eru notuð gegn sýkingum í fólki. Slík lyf eru mikið notuð í landbúnaði vestanhafs. Stöðug inntaka þeirra drepur veikustu bakteríurnar, en þær sterkustu þróa þol gegn lyfjunum. Þannig verða til lyfjaónæmar bakteríur sem ógna heilsu manna. Neytendasamtök og lýðheilsufræðingar um allan heim hafa þrýst mjög á framleiðendur og stjórnvöld að hætta eða banna notkun sýklalyfja í dýrahaldi og með ákvörðun sinni bætist Costco í þann hóp sem vill að þetta gangi eftir.
(Sjá frétt News Daily 5. mars).