Unglingar kæra ríkið fyrir að vernda þá ekki fyrir loftslagsbreytingum

2559Hópur unglinga í Oregon-ríki í Bandaríkjunum hefur höfðað mál gegn alríkisstjórninni fyrir að brjóta á réttindum þeirra til lífs, frelsis, eignarhalds og jafnréttis með því að aðhafast ekkert til að vernda þau fyrir áhrifum loftslagbreytinga. Héraðsdómur Oregon þarf nú að ákveða hvort unglingarnir verði fyrir skaða sem rekja megi til aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálum og þ.a.l. hvort málið haldi áfram á næsta dómsstig. Málið er rekið af samtökunum Our Children’s Trust og er eitt margra slíkra sem höfðuð hafa verið víðsvegar í Bandaríkjunum að undanförnu. Lögfræðingur hópsins segir málið ekki einungis snúast um athafnaleysi heldur vinni stjórnvöld gagngert gegn hagsmunum barna, m.a. með því að gefa út leyfi til olíu- og gasvinnslu. Ólíklegt þykir að málið komist upp úr héraðsdómi en það þrýstir engu að síður á stjórnvöld að búa til og fylgja aðgerðaáætlun til að sporna við loftslagsbreytingum.
(Sjá frétt the Guardian 10. mars).

Engin úrgangur urðaður frá brugghúsum MillerCoors

MillerCoorsBjórframleiðandinn MillerCoors, sem framleiðir m.a. Miller bjórinn, tilkynnti á dögunum að sá árangur hefði náðst að ekkert af þeim úrgangi sem fellur til í brugghúsum fyrirtækisins í Bandaríkjunum sé urðaður. Fyrirtækið ákvað árið 2009 að hefja aðgerðir til að minnka úrgang og hefur nú náð úrgangsmagninu niður um 89%. Á sama tíma hafa þau unnið að því að finna endurvinnslufarveg fyrir þann úrgang sem verður til í brugghúsunum og nú fara næstum 100% alls úrgangs í efnisendurvinnslu en lítill hluti er sendur í orkuvinnslu. Fyrirtækið mun nú leggja áherslu á að gera aðra hluta framleiðslukeðjunnar urðunarlausa til að draga úr umhverfisáhrifum fyrirtækisins í heild.
(Sjá frétt CNBC 17. febrúar).

Hlýnun sjávar eykur líkur á farsóttum í sjávardýrum

lobsterHækkandi hitastig sjávar eykur líkur á smitsjúkdómum í sjávarlífverum og stuðlar jafnvel að hruni stofna, ef marka má tvær nýjar rannsóknir Cornell Háskólans í Bandaríkjunum. Í annarri rannsókninni voru áhrif hlýnunar sjávar á krossfiska við vesturströnd Bandaríkjanna skoðuð og kom þar fram að hægt var að rekja dauða um 90% krossfiskastofna á svæðinu frá Mexíkó að Alaska til hitabylgju á árunum 2013-2014. Í hinni rannsókninni kom fram að hitastig getur haft áhrif á farsóttir í stofnum skjaldbaka, kórala, humars, skelfisks og marhálms. Þannig er Ameríkuhumar mjög viðkvæmur fyrir breytingum á hitastigi, en humarinn er mikilvægur fyrir efnahag Maine-ríkis nyrst á austurströnd Bandaríkjanna. Erfitt er að koma í veg fyrir smit vegna hækkandi hitastigs, en höfundar rannsóknanna benda á mikilvægi þess að flytja ekki lífverur milli svæða, auk þess sem fylgjast þarf með sveiflum í hitastigi til að geta séð hitabylgjur fyrir.
(Sjá frétt Science Daily 16. febrúar).

Obama staðfestir bann við míkróplasti!

cosmeticsÞann 28. desember sl. undirritaði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lög sem banna notkun míkróplasts í snyrtivörur í Bandaríkjunum. Í lögunum (Microbead-Free Waters Act of 2015) er míkróplast skilgreint sem „plastagnir minni en 5 mm“ og frá og með 1. júlí 2017 verður bannað að framleiða snyrtivörur fyrir Bandaríkjamarkað sem innihalda slíkar agnir. Árið 2019 verður öll sala slíkrar vöru bönnuð. Snyrtivöruframleiðendur hafa tekið lögunum fagnandi og hrósað yfirvöldum fyrir þá samstöðu sem skapaðist við setningu laganna, en margir af stærstu framleiðendunum hafa þegar gert áætlanir um að úthýsa míkróplasti úr vörum sínum. Eins og áður hefur komið fram á 2020.is fékk bann við míkróplasti byr undir báða vængi vestanhafs eftir að rannsóknir sýndu fram á gríðarlegt magn plastagna í Vötnunum miklu.
(Sjá frétt Environmental Leader 4. janúar).

Banna Bandaríkjamenn míkróplast?

microbeadsFulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt lagafrumvarp sem bannar sölu á snyrtivörum sem innihalda míkróplast. Frumvarpið bíður nú samþykktar öldungadeildarinnar og ef af verður kemur bannið til framkvæmda 1. júlí 2017. Míkróplast er farið að hafa veruleg áhrif á vistkerfi Vatnanna miklu og er velgengni frumvarpsins talin tengjast því að miklu leyti. Sem dæmi um ástandið má nefna að um 1,1 milljón plastagna fannst í hverjum ferkílómetra Ontariovatnsins í rannsókn sem gerð var 2013. Einn frummælenda lagafrumvarpsins orðaði það svo að „við munum berjast gegn hverri þeirri starfsemi sem ógnar okkar elskuðu vötnum“. Nú þegar hafa ríkin Illinois og Kalifornía sett lög sem banna vörur með míkróplasti og Ohio og Michigan eru einnig með slíkt í undirbúningi. Þrjú af þessum fjórum ríkjum liggja að Vötnunum miklu.
(Sjá frétt the Guardian í dag).

Helmingur af öllu fiskmeti í súginn

seafoodUm 47% af öllum þeim sjávarafurðum sem ætlaðar eru til manneldis í Bandaríkjunum fara til spillis að því er fram kemur í nýrri rannsókn frá Johns Hopkins Center for a Livable Future (CLF). Þar af tapast um 12 prósentustig vegna brottkasts á sjó og um 7 prósentustig í dreifingu og sölu. Langstærsti hlutinn, um 28 prósentustig, fer í súginn hjá neytendum. Samtals er þannig rúmlega milljón tonnum af sjávarfangi sóað árlega, en sá skammtur myndi duga til að sjá 10-12 milljónum manna fyrir nægu próteini.
(Sjá frétt ENN í dag).

Lyfsölurisi með átak í söfnun lyfjaúrgangs

CVS_lyfLyfsölurisinn CVS í Bandaríkjunum hefur tekið til við að dreifa sérstökum tunnum fyrir lyfjaúrgang til sveitarfélaga og lögregluembætta með það að markmiði að lágmarka neikvæð áhrif úrgangsins á umhverfi og samfélag. Talið er að um 10-30% allra lyfja sem seld eru vestra séu aldrei notuð og safnist því fyrir í skápum eða endi annað hvort í salerninu eða ruslinu. Þaðan berist þau oftar en ekki í vötn og haf og geti þar skaðað vistkerfi og jafnvel heilsu manna ef þau berast inn í fæðukeðjuna. Lyfjaafgöngum á alla jafna að skila í apótek, því að erfitt hefur reynst að tryggja að lyfjaleifum sem skilað er á grenndarstöðvar sé ekki stolið úr gámunum. CVS hefur nú þegar dreift 275 sérstökum söfnunarílátum sem standast kröfur um öryggi og stefnir að því að færa yfirvöldum víðsvegar um Bandaríkin um 700 stykki til viðbótar á næstu misserum.
(Sjá frétt ENN í dag).