Ný heimasíða sýnir áhrif hækkandi yfirborðs sjávar

501Samtökin Coastal Risk Australia hafa búið til heimasíðu með hjálp Google Maps þar sem notast er við reiknilíkön fyrir breytingar á yfirborði sjávar til ársins 2100 til að sýna hvaða hús og hverfi muni fara undir sjó vegna loftslagsbreytinga. Einstaklingar og fyrirtæki í Ástralíu geta slegið inn heimilisfangið sitt og séð hvaða áhrif loftslagsbreytingar muni hafa á húsin þeirra og þannig áætlað breytingar á fasteignaverði og tryggingariðgjöldum. Byggt er á gögnum frá Vísindanefnd SÞ um loftslagsbreytingar (IPCC), en af þeim má ráða að margar frægustu strandir Ástralíu hverfi fyrir næstu aldamót. Einn af aðstandendum síðunnar segir að markmið síðunnar sé ekki að ýta undir móðursýki heldur að reyna að fá fólk til að hætta að stinga höfðinu í sandinn.
(Sjá frétt the Guardian í dag).

Hækkun sjávarborðs gleymist í skipulagsáætlunum

Um þriðjungur sveitarfélaga í Suður-Svíþjóð tekur ekkert tillit til hækkandi sjávarborðs í skipulagsáætlunum sínum og um 60% af þeim sem taka hækkunina með í reikninginn virðast ekki byggja áætlanir sínar á traustum grunni. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Tækniháskólans í Stokkhólmi (KTH) og Rannsóknamiðstöðvar öryggis- og varnarmála (FOI). Strandsvæði verða sífellt vinsælli til búsetu og algengt er að hafnarsvæði séu tekin undir íbúðabyggð án tillits til hækkandi sjávarstöðu.
(Sjá frétt á heimasíðu KTH 31. október).