Stjórnvöld í Ástralíu hafa leyft að þremur milljónum rúmmetra af aur verði sturtað í hafið innan marka þjóðgarðsins sem umlykur kóralrifið mikla. Þetta er gert til að liðka til fyrir hafnarframkvæmdum við Abbot Point þar sem verið er að byggja stærstu kolaútskipunarhöfn í heimi, en þær framkvæmdir tengjast áformaðri kolavinnslu úr Galilee lægðinni í Queensland. Umhverfisverndarsinnar, vísindamenn og ferðaþjónustuaðilar hafa barist gegn þessari losun jarðefna í hafið, bæði vegna þeirra beinu áhrifa sem losunin kann að hafa á kóralrifin og vegna fyrirsjáanlega aukinnar skipaumferðar um svæðið. Þessir aðilar óttast jafnvel að rifin verði tekin af heimsminjaskrá UNESCO. Stjórnvöld hafa bent á það á móti að meira rask myndi fylgja öðrum hafnarframkvæmdum, að botninn á þessu svæði einkennist hvort sem er af sandi, seti og leir og að losunarstaðurinn sé ekki svo ýkja nálægt kóralrifunum, jafnvel þótt hann sé innan marka verndarsvæðisins.
(Sjá frétt The Telegraph í dag).