Barnakerrur innihalda skaðleg efni

barnavagnar_160Helmingur af þeim barnakerrum sem dönsku neytendasamtökin Tænk skoðuðu á dögunum reyndust innihalda hormónaraskandi og/eða krabbameinsvaldandi efni í áklæði, ólum, regnhlífum, öryggisslám eða handföngum. Efni á borð við TCPP (trísklóróísóprópýl-fosfat), klóróparaffín og naftalín fundust í fjórum kerrum af átta. Tvö fyrrnefndu efnin eru notuð sem eldvarnarefni og sem plastmýkingarefni en naftalín er tjöruefni. Bannað er að nota TCPP í leikföng og vörur sem börn stinga upp í sig, en barnavagnar falla ekki undir þær reglur. Klóróparaffín er á lista Umhverfisstofnunar Danmerkur yfir óæskileg efni en notkun þess er ekki bönnuð. Neytendasamtökin hafa barist fyrir því að skaðleg efni verði bönnuð í öllum vörum ætluðum börnum en ekki einungis leikföngum.
(Sjá frétt Tænk í dag).

Barnavörur innihalda enn skaðleg efni

pennaveskiÓlöglegt magn skaðlegra efna finnst enn í ýmsum vörum sem markaðsettar eru fyrir börn. Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet (MD)) birti á dögunum niðurstöður rannsóknar á 90 barnavörum og reyndust fjórar þeirra innihalda ólöglegt magn af skaðlegum efnum. Þannig fannst SCCP (keðjustutt klórparaffín) og þalatið DEHP í einni gerð pennaveskis og í barnapeysu, nánar tiltekið í aukahlutum á vörunum svo sem rennilásum og hnöppum. Bæði SCCP og þalöt eru notuð sem mýkingarefni í plast. Umhverfisstofnunin hefur krafist þess að þær fjórar vörur sem ekki stóðust lagakröfur verði teknar af markaði í Noregi. Stofnunin telur eftirlit með barnavörum sérstaklega mikilvægt þar sem börn eigi til að stinga hlutum upp í sig, jafnvel þótt þeir séu ekki sérstaklega til þess ætlaðir.
(Sjá frétt Miljødirektoratet í dag).