Coop ræðst gegn skaðlegum efnum

Solcreme_og_tandpas_964894y (160x107)Dagvörurisinn Coop í Danmörku hefur hafið sérstakt átak til að ryðja úr vegi skaðlegum efnum úr eigin vörum fyrirtækisins og úr vörum annarra framleiðenda sem seldar eru í verslunum keðjunnar. Á næstu þremur árum munu tólf tilteknir efnaflokkar verða gerðir útlægir úr öllum vörum sem Coop framleiðir og vörur annarra framleiðenda sem ekki fylgja þessu fordæmi verða fjarlægðar úr búðarhillum. Nú þegar hefur örbylgjupoppi, blautklútum og skólavörum úr PVC verið úthýst og nú síðast bættist tannkremið Colgate Total í þann hóp þar sem það inniheldur tríklósan. Efnin sem um ræðir eru öll lögleg, en það sem er löglegt er ekki endilega öruggt, eins og talsmaður Coop orðar það.
(Sjá frétt Politiken 7. september).

Coop hættir sölu á örbylgjupoppi

coop_popcornCoop í Danmörku hefur hætt sölu á örbylgjupoppi í öllum 1.200 verslunum fyrirtækins í Danmörku vegna hræðslu við áhrif hormónaraskandi flúoraðra efna í umbúðunum. Ákvörðunin var tekin í framhaldi af rannsókn vísindamanna frá Syddansk Universitet sem sýndi auknar líkur á fósturláti hjá konum með mikið magn flúors í blóði. Verslunarkeðjan, sem rekur einnig verslanir undir nöfnunum Fakta, Kvickly og Super Brugsen, hefur unnið markvisst að því að draga úr magni flúoraðra efna í eigin vörum og meðal annars fjarlægt slík efni úr bökunarpappír og möffinsformum sem fyrirtækið framleiðir. Coop hefur um nokkurt skeið unnið með birgjum að því að finna staðgönguefni flúorefnanna í popppokunum, en án árangurs. Á meðan ekki liggur fyrir hvernig hægt sé að draga úr notkun efnanna og tryggja þar með öryggi netenda hvað þetta varðar mun Coop aðeins selja poppbaunir og poppkorn sem búið er að poppa.
(Sjá frétt DR í dag).

Umhverfisvænsta bygging heims formlega opnuð í gær

Co-ophúsið í ManchesterNýtt 14 hæða hús sem hýsir höfuðstöðvar Co-op í Manchester hefur verið útnefnt umhverfisvænsta hús í heimi, en það náði hæsta skori vottunarkerfisins BREEAM til þessa, 95,16%. Þessi einstaki árangur byggir á mörgum þáttum. Þar má nefna að orka fyrir húsið er framleidd úr uppskeru af ökrum Co-op, hitastig jarðvegsins undir húsinu er nýtt til að jafna árstíðabundna hitasveiflu innandyra, og tvöfalt ytrabyrði hússins virkar sem sæng á vetrum en loftræsting á sumrum. Elísabet Englandsdrottning opnaði húsið formlega í gær, fimmtudaginn 14. nóvember.
(Sjá frétt EDIE í gær).