Trilljón tonna yfirlýsingin undirrituð af 70 fyrirtækjum

?????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????Sjötíu stórfyrirtæki, þ.á.m. Shell, BT, Unilever og EDF Energy, hafa undirritað svonefnda Trilljón tonna yfirlýsingu (e. Trillion tonne communiqué), þar sem þau skora á stjórnvöld að móta skýra stefnu til að sporna við loftslagsbreytingum af mannavöldum.Trilljón tonnin (þúsund milljarðar tonna eða billjón tonn skv. íslenskri málvenju), sem yfirlýsingin dregur nafn sitt af er sú samanlagða heildarlosun kolefnis út í andrúmsloftið sem Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) áætlar að muni leiða til tveggja gráðu meðalhækkunar hitastigs á jörðinni. Fyrirtækin vilja að stjórnvöld ríkja heims komi í veg fyrir að heildarlosun fari yfir þessi mörk. Niall Dunne, sjálfbærnistjóri BT, sgir að „við þurfum að komast yfir þann hugsunarhátt að framsækin stefna í loftslagsmálum sé slæm fyrir fyrirtækin. Hún geti verið mikill hvati til nýsköpunar og ýtt undir hagvöxt og velmegun“. Ekkert fyrirtæki sem hann viti um hafi ekki nú þegar orðið fyrir einhverjum áhrifum loftslagsbreytinga.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Um 3/4 af þekktum olíu- og gaslindum liggi óhreyfðar

Klima2-66vbey_MLeAðeins má nýta um 25% af þekktum olíu- og gaslindum í heiminum ef takast á að halda hlýnun jarðar innan við 2°C frá því sem var fyrir iðnbyltingu. Hin 75 prósentin verða að liggja óhreyfð eða eru með öðrum orðum „óbrennanlegt kolefni“. Þetta kemur fram í drögum að 3. hluta 5. stöðuskýrslu Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) sem kemur út 12. apríl nk. Hér er einungis átt við þekktar lindir sem talið er fjárhagslega og tæknilega mögulegt að vinna olíu eða gas úr. Jafnframt gefa fyrstu drög skýrslunnar til kynna að minnka verði losun gróðurhúsalofttegunda um 40-70% fram til ársins 2030 frá því sem hún er í dag.
(Sjá frétt Aftenposten í gær).

Loftslagsmál útskýrð á 9 mínútum

ipcc stuttmyndNý norsk stuttmynd sem útskýrir stöðu loftslagsmála á 9 mínútum var frumsýnd á loftslagsráðstefnunni í Varsjá á dögunum. Myndin, sem Snöball film gerði fyrir Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC), hentar vel til að kynna loftslagsmál í skólum og annars staðar þar sem þörf er fyrir einfaldar og samþjappaðar útskýringar.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs 22. nóvember).

Kolefniskvótinn uppurinn 2034 með sama áframhaldi

CO2 EDIEStærstu hagkerfi heimsins þurfa að draga úr kolefniskræfni sinni (koltvísýringslosun á hverja framleiðslueiningu (e. carbon intensity)) um 6% á ári ef takast á að viðhalda hagvexti án þess að meðalhitastig í heiminum hækki um meira en 2°C á þessari öld, ef marka má nýja skýrslu frá Pricewaterhouse Coopers. Í skýrslunni kemur einnig fram að á síðustu fimm árum hafi kolefniskræfnin aðeins minnkað um 0,7% á ári, og að jafnvel þótt þessi tala væri tvöfölduð muni hitastig hækka um 4°C fyrir aldamót, þ.e. í líkingu við svörtustu spá IPCC (Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar). Ef svo heldur sem horfir verði kolefniskvóti jarðarbúa uppurinn árið 2034, sem þýðir að þá yrði að hætta losun alfarið til að komast hjá hlýnun umfram 2°C.
(Sjá frétt EDIE 4. nóvember).

„Þessi umbreyting er mannanna verk“

Loftslagsbreytingar eru raunverulegar, þær er að gerast núna, þessi umbreyting er mannanna verk, og aðeins mannanna verk geta bjargað heiminum frá verstu áhrifunum. Þetta er ekki færibandaskýrsla sem við getum hent inn í skjalaskáp. Þetta er ekki pólitískt plagg búið til af pólitíkusum. Þetta eru vísindi“.
(John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í tilefni af kynningu 1. hluta fimmtu ástandsskýrslu Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem fram fór í Stokkhólmi í morgun kl. 8 að íslenskum tíma. (Úr beinni útsendingu The Guardian)).