Langtímaáhrif olíumengunar vanmetin

150908082807_1_540x360 (160x211)Olíumengun í sjó getur veikt blóðrásarkerfi fullvaxinna fiska sem komist hafa í snertingu við olíuna á fósturskeiði. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sagt er frá í vefútgáfu tímaritsins Scientific Reports. Fiskarnir líta út fyrir að vera fullkomlega eðlilegir, en hjörtu þeirra þroskast ekki eðlilega, sem leiðir til þess að þeir synda hægar en ella, hafa minna mótstöðuþrek gegn sjúkdómum og eiga almennt minni möguleika á að komast af en aðrir fiskar. Þessar niðurstöður eru taldar geta skýrt hrun síldarstofna fjórum árum eftir Exxon Valdez olíuslysið við Alaska vorið 1989. Um leið felst í þeim vísbending um að breyta þurfi áhættumati vegna olíuslysa, þar sem tjón af slíkum slysum hafi verið vanmetið fram til þessa.
(Sjá frétt Science Daily 8. september).

Olíuslys í friðlandi í Ísrael

Crude oil streams in desert in south Israel, near the village of Beer Ora, north of EilatMilljónir lítra af olíu flæddu yfir Evrona friðlandið í Ísrael eftir að olíuleiðsla fyrirtækisins Eilat-Ashkelon á svæðinu gaf sig sl. miðvikudag. Talsmaður umhverfisráðuneytis Ísraels segir slysið vera eitt alvarlegasta umhverfisslys í sögu landsins. Evrona friðlandið er þekkt fyrir stórar eyðimerkur, dádýr og sérstæð pálmatré. Olían hefur nú þegar haft neikvæð áhrif á dýra- og plöntulíf á svæðinu og er talið að hreinsun og endurreisn svæðisins muni taka nokkur ár.
(Sjá frétt Planet Ark í dag).

Olíuslys á Norðurheimskautssvæðinu fyrirséð

Borpallur við GrænlandFullvíst má telja að olíuslys verði á Norðurheimskautssvæðinu ef leyft verður að bora þar eftir olíu. Þetta er mat sérfræðings sem stýrði rannsókn á Deepwater Horizon slysinu við oíuborpall BP á Mexíkóflóa vorið 2010. Slys á Norðurheimskautssvæðinu myndi auk heldur hafa langtum víðtækari afleiðingar en slys sunnar á hnettinum, þar sem niðurbrot olíunnar mun taka nokkra áratugi í svo köldum sjó, auk þess sem erfitt mun verða að beita tiltækum hreinsibúnaði við þær veðuraðstæður sem algengar eru á þessum slóðum. Olíuleit á svæðinu getur jafnvel skapað mikla hættu og haft áhrif á alla fæðukeðjuna.
(Sjá frétt The Guardian í dag).