Mikið magn af steindinni magnetít (Fe3O4) fannst í heilavef 37 einstaklinga á öllum aldri sem skoðaðir voru í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences. Magnetít myndast í einhverjum mæli í heilum manna en vísindamennirnir sem stóðu að umræddri rannsókn telja agnirnar sem hér um ræðir upprunnar í menguðu lofti frá umferð og iðnaði. Þær eru stærri og hafa aðra lögun en agnir sem fyrir eru í heilanum og fundust í hundrað sinnum meira magni. Þessar niðurstöður valda áhyggjum, m.a. vegna þess að magnetít gefur frá sér stakeindir (e. free radicals) sem flýta mjög fyrir oxun og geta þannig hugsanlega m.a. átt þátt í þróun Alzheimer sjúkdómsins.
(Sjá frétt The Guardian 5. september).