Filma úr efninu grafen, sem hægt er að vinna úr grafíti, gæti gert það mögulegt að framleiða raforku í sólarsellum í rigningu. Grafen er tvívítt form kolefnis sem hefur þann eiginleika að leiða vel rafmagn og innihalda mikið af rafeindum sem geta ferðast óbundnar um efnið. Regnvatn inniheldur sölt sem leysast upp í jákvætt og neikvætt hlaðnar jónir. Þegar regndroparnir snerta yfirborð grafenfilmunnar tekur grafenið til sín óbundnar rafeindir en vatnið verður þeim mun ríkara af jákvætt hlöðnum jónum, svo sem natríum, kalsíum og ammóníumjónum. Þannig myndast tvöfalt lag rafeinda og jákvætt hlaðinna jóna og skilyrði skapast til að mynda spennu og rafstraum. Frekari þróun tækninnar getur aukið afköst sólarsella þar sem hægt verður að framleiða rafmagn þótt sólar njóti ekki.
(Sjá frétt Science Daily í dag).