Fyrstu Svansmerktu gallabuxurnar

caj4yoh8jol9bwxyebtv-160x143Fyrstu Svansmerktu gallabuxurnar í heimi eru á leið á markað undir sænska merkinu Velour by Nostalgi. Buxurnar eru framleiddar úr endurunninni eða lífrænt vottaðri bómull og endurunnu pólýesterefni úr plastflöskum. Við framleiðsluna er beitt svonefndri ”recall-tækni” til að efnið haldi formi sínu betur en ella, sem m.a. stuðlar að því að buxurnar séu sjaldnar settar í þvott. Allir hlutar buxnanna hafa staðist kröfur Svansins og gildir það jafnt um tauið sjálft, rennilása, hnappa og umbúðir. Flíkin inniheldur því engin hormónaraskandi efni, ofnæmisvalda eða þungmálma, auk þess sem gerðar eru kröfur um vinnuumhverfi og nýtingu vatns þar sem buxurnar eru framleiddar. Til að fá Svaninn þurfa buxurnar einnig að standast kröfur um gæði og endingu, sem m.a. er mætt með sérstökum gæðafrágangi á saumum. Sala á buxunum hefst formlega 31. janúar nk. en hægt er leggja inn pantanir frá og með 21. jan.
(Sjá fréttatilkynningu á MyNewsDesk 3. janúar).

Risaframleiðandi gallaefnis veðjar á Svaninn

jeansTyrkneski denímframleiðandinn ISKO, sem framleiðir um 250 milljón metra af gallaefni á ári, hefur fengið Svansvottun fyrir 6 af gallaefnum fyrirtækisins. Fyrirtækið framleiðir m.a. gallabuxnaefni fyrir Diesel, Bik Bok og Replay og vegna þess hve umsvifin eru mikil hefur vottunin í för með sér verulegan umhverfislegan sparnað og stórt skref í átt að sjálfbærari tískuframleiðslu. Framleiðslukeðjur í tískugeiranum geta verið mjög flóknar og því er mikil vinna að fá vottun sem tekur tillit til alls lífsferils vörunnar. Til að fá slíka vottun þurfa fyrirtæki að huga að öllum framleiðsluferlinum, allt frá því að ræktun bómullarinnar hefst. Einnig þarf að skoða félagslega þætti svo sem öryggi og aðbúnað starfsmanna í framleiðslukeðjunni, notkun eiturefna við litun og lokameðferð vörunnar o.s.frv.
(Sjá frétt Miljømærkning Danmark 17. mars).

Lindex framleiðir strigaskó úr gömlum gallabuxum

denim sneakersSænska verslunarkeðjan Lindex hefur hafið framleiðslu á strigaskóm úr gömlum gallabuxum sem skilað hefur verið í söfnunargáma Myrorna. Talsmaður Myrorna segir að samtökin taki þátt í verkefninu þar sem þeim finnist spennandi að finna nýja markaði og endurvinnslufarvegi fyrir notaðan fatnað, auk þess sem uppvinnsla (e. upcycling) textílefna feli í sér nýsköpun í handverki og meðferð textílúrgangs. Með uppvinnslu gallabuxnanna lengist líftími vörunnar og neyslumynstur breytist, sem aftur hefur í för með sér minna álag á umhverfið og minni auðlindanotkun. Myrorna safna nú um 21 tonni af textílúrgangi í Svíþjóð á degi hverjum og stefna að því að tvöfalda söfnunina á næstu tveimur árum. Lindex ætti því að hafa nægilegt hráefni í framleiðsluna.
(Sjá frétt á heimasíðu Myrorna 17. febrúar).