Endurvinnsluátak hjá H&M

73567Fatarisinn H&M, sem nú er orðin næststærsta fataverslunarkeðja í heimi, ætlar hér eftir að veita árleg verðlaun upp á milljón evrur (um 148 millj. ísl. kr.) fyrir nýja tækni til að endurvinna föt. Í næstu viku mun H&M jafnframt setja á markað nýja gallabuxnalínu með endurunninni bómull. Karl-Johan Persson, forstjóri H&M, sagði af þessu tilefni að ekkert fyrirtæki í fataiðnaði gæti haldið áfram á þeirri braut sem greinin væri nú á og að tilgangurinn með verðlaununum væri ekki síst að finna nýja tækni til að endurvinna textílþræði án þess að gæði þeirra minnkuðu. H&M og fleiri fataframleiðendur hafa vaxandi áhyggjur af yfirvofandi bómullarskorti samfara fjölgun mannkyns og útbreiddum einnotahugsunarhætti. Í þessu felst mikil áskorun fyrir H&M sem hefur lagt megináherslu á ódýr föt. Lágt verð felur í sér aukna hættu á að fötum sé fleygt fyrr en ella og ný keypt í staðinn.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).

Öll bómull H&M af sjálfbærum uppruna 2020

26155Um 15,8% af þeirri bómull sem notaður er í fatnað H&M fatakeðjunnar er af sjálfbærum uppruna samkvæmt sjálfbærniskýrslu fyrirtækisins fyrir árið 2013. Fyrirtækið hefur sett sér það markmið að árið 2020 verði öll bómull í fatnaði fyrirtækisins af sjálfbærum uppruna, þ.e.a.s. annað hvort lífrænt vottuð eða úr endurunnum trefjum. H&M leggur mikla áherslu á sjálfbæra þróun og leitast við að búa til lokaðar hringrásir, meðal annars með því að framleiða fatnað úr notuðum textílefnum sem tekið er við í verslunum fyrirtækisins. Á síðasta ári söfnuðust þannig um 3 þúsund tonn af notuðum efnum sem send voru í endurvinnslu. Bómull er mest notaða efnið í fatnaði H&M en bómullarframleiðsla er mjög vatnsfrek, auk þess sem um 10% af öllu skordýraeitri heimsins er notað í bómullarrækt.
Sjá frétt EDIE í dag).

Sjálfbærnistjórinn valdamestur

?????????????????Helena Helmersson, sjálfbærnistjóri sænska fatarisans H&M, er langefst á lista viðskiptablaðsins Väckans affärer yfir valdamestu konurnar í sænsku viðskiptalífi, enda annast hún mikilvægustu framtíðarmálin í stærsta fyrirtækinu á hlutabréfamarkaðnum, eins og það er orðað í rökstuðningi blaðsins. Á þriggja ára ferli sínum sem sjálfbærnistjóra þykir Helenu hafa tekist að flétta sjálfbærni inn í alla starfsemi fyrirtækisins, þannig að sjálfbærni hafi þar nú sama vægi og sölutölur.
(Sjá frétt Miljöaktuellt.se 6. mars).

H&M býður föt úr notuðu gallaefni

H&MÍ næsta mánuði mun fataframleiðandinn H&M setja á markað fimm gerðir af fatnaði sem gerður er úr notuðu gallaefni. Hráefnið er fengið úr söfnun H&M á notuðum fötum, sem hleypt var af stokkunum á öllum markaðssvæðum fyrirtækisins fyrir ári síðan. Samtals hafa safnast hátt í 3.500 tonn af fötum.
(Sjá frétt EDIE í dag).

H&M tekur við notuðum fötum

H&MFrá og með febrúar á næsta ári mun H&M verslunarkeðjan taka við notuðum og gölluðum fötum til endurvinnslu í öllum þeim 48 löndum þar sem keðjan er starfandi, óháð vörumerkjum og því hvar fötin voru upphafleg keypt. Þessi nýbreytni er liður í viðleitni fyrirtækisins til að stuðla að sjálfbærri þróun. Þeir sem skila inn fötum fá afsláttarmiða frá H&M í staðinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Svenska dagbladet í gær).