Skaðleg efni í þrykkimyndum á bómullarbolum

tshirt-nr9---03Hormónaraskandi efni fundust í 10 af 15 bómullarbolum með þrykkimynd sem skoðaðir voru í rannsókn sænsku neytendasamtakanna Råd&Rön í lok október. Flestar þrykkimyndir á fatnaði eru gerðar úr PVC-plasti og þá er í flestum tilfellum notast við þalöt sem mýkingarefni fyrir plastið. Í einum bolnum fundust t.d. þalötin BBP (bensýlbútýlþalat), DINP (díísónýlþalat) og DIDP (diísódekýlþalat), en styrkur þess síðastnefnda var 14 sinnum hærri en leyfilegt er í leikföngum. Til eru önnur efni sem gera sama gagn (staðgönguefni). Þannig innihéldu þrykkimyndir á fimm bolum sem skoðaðir voru ekkert PVC og þar með engin þalöt. Á næsta ári mun Evrópusambandið (ESB) banna notkun þeirra þalata sem teljast skaðlegust, en Råd&Rön telja bannið ekki vernda neytendur þar sem það nær einungis til vöru sem framleidd er innan ESB.
(Sjá frétt Råd&Rön 22. október).

Ný skýrsla um eiturefni í fötum

Chemicals (160x159)Mikið magn skaðlegra efna er notað í framleiðslu á fötum og öðrum textílvörum og hluti efnanna er enn til staðar þegar neytendur fá vörurnar í hendur. Í nýrri skýrslu sænska efnaeftirlitsins (Kemikalieinspektionen) kemur m.a. fram að við framleiðslu á einum stuttermabol séu notuð um 3 kíló af efnum. Meðal efna sem finnist í endanlegri vöru megi nefna litarefni og efni sem vinna gegn myglu og svitalykt, auk bakteríudrepandi efna sem geta stuðlað að sýklalyfjaónæmi. Rúm 10% efnanna sem greint er frá í skýrslunni teljast skaðleg fólki og um 5% eru talin geta haft mjög skaðleg áhrif á umhverfið. Stofnunin telur þörf á að skerpa reglur um efnanotkun í textíliðnaði, enda er þar enn sem komið er lítið um takmarkanir. Þá þurfi að bæta upplýsingaflæðið í vörukeðjunni.
(Sjá fréttatilkynningu Kemikalieinspektionen 3. október).

Sólhlífðarföt í stað sólarvarnar

UVSólhlífðarfatnaður fyrir börn er laus við skaðleg efni samkvæmt nýlegri könnun dönsku neytendasamtakanna Tænk. Hins vegar finnast hormónaraskandi efni í flestum tegundum sólarvarnar sem markaðsett er fyrir börn. Venjulegur fatnaður inniheldur oft á tíðum skaðleg efni, en sólhlífðarfatnaður virðist innihalda mun minna eða nánast ekkert af slíku. Tænk mælir því með slíkum fatnaði sem eiturefnafríum valkosti sem verndar börn gegn útfjólubláum geislum sólar og sparar foreldrum um leið fyrirhöfnina að bera sólarvörn á börnin.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 15. maí).

Öll bómull H&M af sjálfbærum uppruna 2020

26155Um 15,8% af þeirri bómull sem notaður er í fatnað H&M fatakeðjunnar er af sjálfbærum uppruna samkvæmt sjálfbærniskýrslu fyrirtækisins fyrir árið 2013. Fyrirtækið hefur sett sér það markmið að árið 2020 verði öll bómull í fatnaði fyrirtækisins af sjálfbærum uppruna, þ.e.a.s. annað hvort lífrænt vottuð eða úr endurunnum trefjum. H&M leggur mikla áherslu á sjálfbæra þróun og leitast við að búa til lokaðar hringrásir, meðal annars með því að framleiða fatnað úr notuðum textílefnum sem tekið er við í verslunum fyrirtækisins. Á síðasta ári söfnuðust þannig um 3 þúsund tonn af notuðum efnum sem send voru í endurvinnslu. Bómull er mest notaða efnið í fatnaði H&M en bómullarframleiðsla er mjög vatnsfrek, auk þess sem um 10% af öllu skordýraeitri heimsins er notað í bómullarrækt.
Sjá frétt EDIE í dag).

Grænþvottur í tískugeiranum

26111Fyrirtæki í tískugeiranum sem segjast leggja áherslu á sjálfbærni, geta mörg hver ekki lagt fram nein gögn máli sínu til stuðnings. Í nýjustu „FeelGoodFashion-skýrslu“ vefsíðunnar Rank A Brand kemur fram að af þeim 368 tískuvörumerkjum sem rannsökuð voru staðhæfðu um 50% að verkefni væru í gangi til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda en aðeins 4% gátu sýnt fram á samdrátt í losun. Sömu sögu var að segja um lífræn og endurunnin efni, en mörg fyrirtæki kváðust nota slík efni í vörur sínar án þess að geta sannað hlutfall þeirra í vörunum. Sífellt fleiri aðilar í tískugeiranum upplýsa um umhverfisáherslur sínar og gildir það nú um 63% af öllum vörumerkjum í greininni. Að mati Rank A Brand er þar um grænþvott að ræða í 30% tilvika, þ.e.a.s. upplýsingar sem eiga sér ekki stoð í raunverulegri starfsemi viðkomandi fyrirtækja.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Gallabuxur úr plastrusli úr hafinu

Pharell WilliamsTónlistarmaðurinn Pharrell Williams hefur tekið upp samstarf við fataframleiðandann G-Star RAW undir yfirskriftinni „Raw for the Oceans„. Ætlunin er að safna plastrusli úr hafinu og vinna úr því þráð til framleiðslu á gallabuxum. Fyrstu flíkurnar líta væntanlega dagsins ljós 15. ágúst nk.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Dýru barnafötin líka eitruð

TískulygiHelstu tískurisar heimsins nota hættuleg efni við framleiðslu á barnafötum, ekki síður en aðrir framleiðendur. Þetta kemur fram í skýrslunni A Little Story about a Fashionable Lie sem Greenpeace kynnti á dögunum í tengslum við tískuvikuna sem nú stendur yfir í Mílanó. Í rannsókn Greenpeace fundust leifar af hættulegum efnum í 16 flíkum af 27 sem teknar voru til skoðunar. Meðal þessara efna voru þalöt og perflúoruð efni (PFC), svo og nonýlfenólethoxýlöt (NPE), sem enn eru notuð sem bleikiefni í fataiðnaði þrátt fyrir mikla skaðsemi í umhverfislegu og heilsufarslegu tilliti og þrátt fyrir að notkun þeirra sé bönnuð í fataframleiðslu innan ESB. Rannsókn Greenpeace náði til fataframleiðendanna Dior, Dolce&Gabbana, Giorgio Armani, Hermés, Louis Vuitton, Marc Jacobs, Trussardi og Versace. Trussardi var eina merkið þar sem ekki fundust hættuleg efni.
(Sjá fréttatilkynningu Greenpeace 17. febrúar).

H&M býður föt úr notuðu gallaefni

H&MÍ næsta mánuði mun fataframleiðandinn H&M setja á markað fimm gerðir af fatnaði sem gerður er úr notuðu gallaefni. Hráefnið er fengið úr söfnun H&M á notuðum fötum, sem hleypt var af stokkunum á öllum markaðssvæðum fyrirtækisins fyrir ári síðan. Samtals hafa safnast hátt í 3.500 tonn af fötum.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Hættuleg efni í barnafötum

Barnaföt PolitikenHættuleg efni fundust í 76 af 82 barnaflíkum sem skoðaðar voru í nýrri könnun Greenpeace. Styrkur efnanna var yfirleitt undir hættumörkum, en Greenpeace bendir á að eiturefni eigi ekkert erindi í barnaföt, enda nóg til af öðrum skaðminni efnum sem hægt sé að nota í staðinn. Vissulega skolast mikið af þessum efnum úr fötunum í fyrsta þvotti, en þá berast þau út í umhverfið þar sem þau geta skaðað lífríkið.
(Sjá fréttatilkynningu Greenpeace 14. janúar).

Leigja treyju?

LeasefleeceFyrirtækið Mud Jeans í Hollandi býður nú hettupeysur til leigu, gerðar úr endurunnum gallabuxum úr lífrænni bómull, auk viskósblöndu. Leigjendur geta valið um að greiða 100 evrur í upphafi leigutímans, sem getur verið eins langur og verkast vill, eða greiða 20 evrur í upphafi og síðan 5 evrur á mánuði þar til sömu hámarksupphæð er náð. Þegar flíkinni er skilað, sem getur gerst hvenær sem er, er 20 evru skilagjald endurgreitt í báðum tilvikum í formi afsláttar af næstu viðskiptum. Með þessu móti er fötunum aldrei hent, heldur er allt efnið endurunnið að notkun lokinni. Verkefnið gengur undir nafninu Lease a fleece.
(Sjá frétt EDIE í dag).