Um 60% danskra neytenda vilja að föt séu framleidd með sjálfbærari hætti en nú tíðkast og 56% segjast reiðubúin að borga meira fyrir slíkan fatnað. Um 22% myndu ekki setja það fyrir sig þótt sjálfbærari fötin væru allt að 20% dýrari í innkaupum, en nær allir eru sammála um að úrvalið sé lítið og að erfitt sé að finna föt sem framleidd eru með sjálfbærni að leiðarljósi. Þetta kom fram í rannsókn sem Neytendasamtök Danmerkur (Tænk) gerðu nýlega meðal rúmlega 1.000 danskra neytenda sem valdir voru af handahófi. Samtökin beina því til fataframleiðenda að koma betur til móts við eftirspurn eftir sjálfbærum fatnaði en benda jafnframt á að greiðsluvilji sem fram kemur í könnunum skili sér ekki alltaf þegar á hólminn er komið.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 5. september).