Þann 1. desember skiptu allir strætóar í Malmö úr jarðgasi yfir í lífgas, en aðgerðin var sú síðasta í röð verkefna sem miðuðu að því að ekkert jarðefnaeldsneyti yrði notað í almenningssamgöngum í bæjum á Skáni í árslok 2015. Allir innanbæjarstrætóar á Skáni keyra nú á lífgasi auk þess sem fimm sporvagnar í Landskrona ganga fyrir endurnýjanlegu rafmagni. Á Skáni er mikið framleitt af lífgasi í gas- og jarðgerðarstöðum. Jarðgas og lífgas er efnafræðilega sama efni (metan) og er dreift í sama dreifikerfi og því þurfa kaupendur upprunavottorð frá dreifingaraðila sem staðfestir að keypt hafi verið lífgas en ekki jarðgas. Óháður vottunaraðili gengur úr skugga um að dreifingaraðilar selji ekki sama vottorðið oftar en einu sinni. Næsta markmið er að hætta notkun jarðefnaeldsneytis í almenningssamgöngum á milli sveitarfélaga. Þessu markmiði ætla Skánverjar að ná fyrir árið 2018.
(Sjá frétt Sydsvenskan í dag).