67% af almenningssamgöngum í Svíþjóð knúin með endurnýjanlegu eldsneyti

BiodieselhybriderHlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í almenningssamgöngum í Svíþjóð er komið í 67% en árið 2006 var þetta hlutfall aðeins 6%. Á síðasta ári var hlutfallið 58%. Þá var Stokkhólmslén sá landshluti þar sem hlutfallið var hæst, en árið 2014 voru 85,7% af öllum kílómetrum í almenningssamgöngum á því svæði eknir á endurnýjanlegu eldsneyti. Lífdísill er langmest notaða endurnýjanlega eldsneytið, metan af endurnýjanlegum uppruna (lífgas) er víðast hvar í öðru sæti og í Stokkhólmi og víðar er einnig nokkuð notað af etanóli (ED95).
(Sjá frétt í Bussmagasinet í gær).

Flugvélaeldsneyti framleitt úr notaðri matarolíu

fugvel_clipartFlugvélaframleiðandinn Boeing og kínverskur samstarfsaðili hafa reist tilraunaverksmiðju í austurhluta Kína til að framleiða flugvélaeldsneyti úr notaðri matarolíu. Verksmiðjan getur tekið við um 240.000 lítrum af matarolíu árlega, sem dugar til að komast að niðurstöðu um hagkvæmni framleiðslunnar. Samtals er talið að framleiða mætti um 1,8 milljarða lítra af eldsneyti úr allri þeirri notuðu matarolíu sem fellur til í Kína árlega. Notuð matarolía inniheldur eiturefni og getur því verið skaðleg heilsu. Auk þess hafa skipulögð glæpasamtök í Kína stundað það að safna notaðri matarolíu og selja hana aftur sem nýja. Með því að nýta olíuna í framleiðslu flugvélaeldsneytis eru þannig hægt að minnka umhverfisáhrif flugferða um leið og spornað er gegn ólöglegri sölu á olíunni.
(Sjá frétt Planet Ark 23. október).

ESB takmarkar notkun fóðurplantna í lífeldsneyti

Biofuels made from sugar cane, Sao Paulo, BrazilFramvegis mega fóðurplöntur að hámarki standa undir 7% af allri framleiðslu lífeldsneytis í Evrópusambandinu samkvæmt nýju samkomulagi ráðherra orkumála ESB frá 13. júní sl. Notkun lífeldsneytis af fyrstu kynslóð hefur verið gagnrýnd þar sem eldsneytið er m.a. framleitt úr fóðurplöntum á borð við maís og sykurreyr sem gætu annars nýst sem fæða fyrir fólk og dýr. Jafnframt getur ræktun og landnotkun vegna framleiðslunnar haft í för með sér aukna losun gróðurhúsalofttegunda og hækkun á matvælaverði. Með því að draga úr notkun fóðurplantna til eldsneytisframleiðslu er brautin einnig rudd fyrir lífeldsneytisframleiðslu af annarri og þriðju kynslóð svo sem framleiðslu úr lífrænum úrgangi, hauggasi o.s.frv. Samkomulag ráðherranna verður nú lagt fyrir Evrópuþingið til endanlegrar afgreiðslu.
(Sjá frétt the Guardian 13. júní).

Landabrask ógnar fæðuframleiðslu

Erlendir fjárfestar og framleiðendur lífeldsneytis hafa keypt upp landsvæði á síðasta áratug sem hefðu dugað til að fæða nær þúsund milljón manns. Þetta kemur fram í skýrslu Oxfam sem kom út í dag. Um er að ræða spildur sem eru samtals u.þ.b. áttfalt stærri en Bretland. Þetta land hefur ýmist verið tekið undir orkugróður eða látið bíða eftir hærra endursöluverði. Mest hafa landakaupin verið í þróunarlöndum með alvarlegan hungurvanda. Þannig hafa nær 30% af öllu landi í Líberíu verið seld til stórra fjárfesta og um 65% af öllu ræktanlegu landi í Kambódíu. Í skýrslu sinni biðlar Oxfam til Alþjóðabankans að hætta stuðningi við landabrask af þessu tagi.
(Sjá umfjöllun The Guardian í dag).