Fækkun frjóbera eykur líkur á vannæringu

byflugur_160Ef svo heldur sem horfir er hætta á að meira en helmingur fólks í þróunarlöndunum muni þjást af vannæringu og/eða sjúkdómum sem rekja má beint til fækkunar frjóbera. Í nýrri rannsókn háskólanna í Vermont og Harvard kom fram að áframhaldandi fækkun frjóbera, þ.á m. býflugna, stuðli að aukinni tíðni A-vítamínskorts í fátækustu ríkjum heims, sem aftur eykur líkur á malaríu og blindu. Um 40% af allri fæðuframleiðslu heimsins er háð frjóberum og því hefur fækkun þeirra í för með sér „falið hungur“, þ.e. skort á næringarefnum og snefilefnum.
(Sjá frétt ENN 27. janúar).

Olíuslys í friðlandi í Ísrael

Crude oil streams in desert in south Israel, near the village of Beer Ora, north of EilatMilljónir lítra af olíu flæddu yfir Evrona friðlandið í Ísrael eftir að olíuleiðsla fyrirtækisins Eilat-Ashkelon á svæðinu gaf sig sl. miðvikudag. Talsmaður umhverfisráðuneytis Ísraels segir slysið vera eitt alvarlegasta umhverfisslys í sögu landsins. Evrona friðlandið er þekkt fyrir stórar eyðimerkur, dádýr og sérstæð pálmatré. Olían hefur nú þegar haft neikvæð áhrif á dýra- og plöntulíf á svæðinu og er talið að hreinsun og endurreisn svæðisins muni taka nokkur ár.
(Sjá frétt Planet Ark í dag).

Ísbjörnum í N-Alaska fækkar hratt

polar_bearÍsbjörnum í Norðurhluta Alaska fækkaði um 40% á árunum 2001 til 2010 samkvæmt athugunum Jarðfræðistofnunar Bandaríkjanna (US Geological Survey) sem hefur fylgst með stofninum í áraraðir. Ástandið var sérstaklega slæmt á árunum 2004 til 2006 þegar aðeins um 2,5% af húnum lifðu af. Vísindamenn telja að rekja megi slæma afkomu stofnsins til minnkandi stofnstærðar sela. Þá hefur vetrarísinn þynnst vegna loftslagsbreytinga og orðið hreyfanlegri, sem gerir selveiðarnar enn erfiðari en ella.
(Sjá frétt the Guardian í dag).

Fuglar drepast á olíusöndum Alberta

ducksYfir 100 fuglshræ hafa fundist við úrgangstjarnir á vinnslusvæðum olíusands í Albertafylki í Kanada samkvæmt skýrslum sem Orkustofnun Alberta (Alberta’s Energy Regulator) hefur fengið í hendurnar. Fuglarnir drápust vegna snertingar við eitrað úrkast sem geymt er í tjörnunum, en ekki liggur fyrir hvort fuglarnir lentu þarna vegna óvenjulegra veðuraðstæðna eða óviðunandi fælibúnaðar, sem skylt er að koma upp við tjarnir af þessu tagi. Eitt af fyrirtækjunum sem er ábyrgt fyrir tjörnunum, Canadian Oil Sands ltd., var sektað um 3 milljónir Kanadadala (um 328 millj. ísl. kr.) fyrir svipað atvik árið 2008 þar sem 1.600 endur drápust eftir að hafa lent á gryfju þar sem lögbundnum fælibúnaði hafði ekki verið komið fyrir.
(Sjá frétt Planet Ark 7. nóvember).

Varnarefni í þvagi Svía

nv_logo_sv-200Leifar af varnarefnum finnast í þvagi flestra Svía að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket). Þetta er niðurstaða þriggja rannsókna sem fram fóru á tímabilinu 2004-2011 og náðu til 500 einstaklinga. Í þessum rannsóknum voru gerðar efnagreiningar á þvagprufum, auk þess sem þátttakendur héldu matardagbók.Varnarefni fundust í þvagi flestra þátttakenda, en þó einna mest hjá þeim sem nýlega höfðu innbyrt kaffi, vín, sítrusávexti, grænmeti og tilteknar vörur úr korni. Varnarefnaleifar fundust einnig í grunnvatni og ferskvatni. Naturvårdsverket hefur lýst vonbrigðum með niðurstöðurnar sem sýna að engar framfarir hafa orðið í þessum efnum síðustu 10 ár, þrátt fyrir að löggjöf og stefnumótun hafi miðað að því að minnka notkun varnarefna í sænskum landbúnaði.
(Sjá fréttatilkynningu Naturvårdsverket 7. október).

Nýjar kynslóðir fiska venjast ekki súrum sjó

ENN_fiskarSvo virðist sem nýjar kynslóðir fiska eigi jafnerfitt með að aðlagast háum styrk koltvísýrings í sjónum og forfeður þeirra. Þetta kemur fram í rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Nature Climate Change. Þetta þykir benda til þess að sjávardýr muni aldrei ná að aðlagast að fullu því breytta umhverfi sem loftslagsbreytingarnar hafa í för með sér og að áhrifin muni þannig ekki aðeins bitna á þeim kynslóðum sem nú lifa, heldur einnig á fiskistofnum framtíðarinnar.
(Sjá frétt ENN 6. október).

Átaks þörf í náttúruvernd

GBO4 (160x202)Ríkissstjórnir heimsins þurfa að gera mun betur en þær hafa gert síðustu ár til að ná náttúruverndarmarkmiðum sem sett hafa verið fyrir árið 2020. Þetta kemur fram í skýrslunni „Global Biodiversity Outlook“ sem kynnt var við upphaf 12. ráðstefnu aðildarríkja Samningsins um líffræðilega fjölbreytni sem hófst í S-Kóreu í gær. Margt hefur verið vel gert en ef svo heldur sem horfir nást þó aðeins fimm markmið af 53. Öll hin 48 málin eru á eftir áætlun. Best hefur gengið að nálgast markmið um stækkun náttúruverndarsvæða, en mun verr að hægja á eyðingu náttúrulegra búsvæða og fyrirbyggja útdauða tegunda. Áætlað er að þjóðir heims verji nú um 50 milljörðum Bandaríkjadala á ári (um 6.000 milljörðum ísl. kr.) til verkefna af þessu tagi, en fjárþörfin er talin liggja á bilinu 150-440 milljarðar dala. Til mikils er að vinna þegar höfð eru í huga verðmæti þeirrar þjónustu sem náttúran veitir mönnum.
(Sjá frétt PlanetArk í dag)

100 milljón hektarar af ósnertum skógi horfnir á 14 árum

forest_160Um 104 milljónir hektara af ósnertum skógi, eða sem svarar til þriggja Þýskalanda, (um tífalds flatarmáls Íslands), hafa horfið síðan á árinu 2000 samkvæmt nýrri greiningu sem unnin var af Greenpeace, Háskólanum í Maryland, Transparent World, the World Resources Institute (WRI) og Rússlandsdeild WWF. Við greininguna var notast við gervitunglamyndir og skoðuð þekja í landupplýsingakerfi (GIS) sem skilgreind er sem ósnertur skógur. Um 65% af ósnertum skógi heimsins er að finna í Rússlandi, Kanada og Brasilíu og hafa um 50 milljónir hektara eyðilagst vegna uppbyggingar í þessum löndum. Aðstandendur greiningarinnar segja stjórnvöld þurfa að bregðast flljótt við hnignuninni með því að stækka vernduð landsvæði og bæta réttindi samfélaga sem eru háð afkomu skóga. Auk þess þurfi Sameinuðu þjóðirnar, iðnríki og þróunarstofnanir að styðja við verndun ósnertra skóga í þróunarríkjum. Ósnertir skógar gegna mikilvægu hlutverki í að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni, hægja á loftslagsbreytingum og tryggja gæði andrúmslofts og vatns.
(Sjá frétt WRI 4. september).

Leggja þarf vegi með gát

A woman rides a bicycle outside HanoiBæta þarf undirbúning að lagninu nýrra vega ef komast á hjá verulegum neikvæðum áhrifum á náttúruna og afkomumöguleika komandi kynslóða. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem sagt var frá í grein í tímaritinu Nature í gær, þar sem getum er að því leitt að á næstu 35 árum verði byggðir vegir sem ná myndu 600 sinnum í kringum jörðina. Í greininni kemur fram að uppbygging vegakerfis sé mjög mikilvæg í þróunarríkjum þar sem lélegt aðgengi bænda að mörkuðum og heildsölum sé ein helsta hindrun í vegi aukinnar fæðuframleiðslu og byggðaþróunar. Stysta leiðin milli áfangastaða sé gjarnan valin í sparnaðarskyni, en með því séu búsvæði dýra og plantna oftar en ekki slitin í sundur. Þetta hafi verið raunin m.a. á Amazon-svæðinu, í Nýju-Gíneu, Síberíu og Kongó. Á mörgum þessara svæða sé lífríkið afar fjölbreytt og svæðin því mikilvægur hlekkur í að viðhalda sérstæðum vistkerfum auk þess sem svæðin hægi á loftslagsbreytingum með upptöku og geymslu kolefnis. Því sé ódýrasta leiðin ekki endilega sú hagkvæmasta ef horft er til framtíðar.
(Sjá frétt Planet Ark í dag).

Diclofenac drepur erni

eagleTvær nýjar rannsóknir hafa styrkt kenningar um að Voltaren og önnur lyf sem innihalda virka efnið diclofenac séu hættuleg örnum af ættkvíslinni Aquila. Vitað var um skaðsemi diclofenacs fyrir hrægamma, en nú virðist ljóst að fleiri tegundir ránfugla verði fyrir barðinu á þessu efni. Efnið getur eyðilagt nýru fuglanna og þannig dregið þá til dauða. Frá þessu er sagt í grein í nýjasta hefti fuglaverndartímaritsins Bird Conservation International. Þessar niðurstöður ýta undir kröfur um að notkun diclofenacs við dýralækningar verði bönnuð í Evrópu og að banni sem komið hefur verið á í SA-Asíu verði fylgt eftir af festu.
(Sjá frétt ENN í gær).