Fækkun frjóbera eykur líkur á vannæringu

byflugur_160Ef svo heldur sem horfir er hætta á að meira en helmingur fólks í þróunarlöndunum muni þjást af vannæringu og/eða sjúkdómum sem rekja má beint til fækkunar frjóbera. Í nýrri rannsókn háskólanna í Vermont og Harvard kom fram að áframhaldandi fækkun frjóbera, þ.á m. býflugna, stuðli að aukinni tíðni A-vítamínskorts í fátækustu ríkjum heims, sem aftur eykur líkur á malaríu og blindu. Um 40% af allri fæðuframleiðslu heimsins er háð frjóberum og því hefur fækkun þeirra í för með sér „falið hungur“, þ.e. skort á næringarefnum og snefilefnum.
(Sjá frétt ENN 27. janúar).

Loftslagsbreytingar gætu fært Bretum malaríu

MoskítóVirtir sérfræðingar á sviði heilbrigðismála hvetja bresk stjórnvöld til að bregðast nú þegar við vaxandi ógn sem stafar af malaríu og öðrum hitabeltissjúkdómum, svo sem beinbrunasótt og Vesturnílarveirunni, sem eiga það sameiginlegt að berast með moskítóflugum. Tilfellum slíkra sjúkdóma hefur fjölgað mjög í sunnanverðri Evrópu á allra síðustu árum og telja umræddir sérfræðingar að þeir kunni að berast tiltölulega hratt norður á bóginn samfara hækkandi hitastigi og aukinni úrkomu að sumarlagi, eins og spáð er að raunin verði á Bretlandseyjum á næstu árum. Á síðasta ári kom út skýrsla þar sem því var spáð að sjúkdómar af þessu tagi gætu haldið innreið sína á Bretlandi upp úr 2080, en nú  þykir líklegt að það gerist mun fyrr.
(Sjá frétt The Guardian 5. maí).