Ísbjörnum í Norðurhluta Alaska fækkaði um 40% á árunum 2001 til 2010 samkvæmt athugunum Jarðfræðistofnunar Bandaríkjanna (US Geological Survey) sem hefur fylgst með stofninum í áraraðir. Ástandið var sérstaklega slæmt á árunum 2004 til 2006 þegar aðeins um 2,5% af húnum lifðu af. Vísindamenn telja að rekja megi slæma afkomu stofnsins til minnkandi stofnstærðar sela. Þá hefur vetrarísinn þynnst vegna loftslagsbreytinga og orðið hreyfanlegri, sem gerir selveiðarnar enn erfiðari en ella.
(Sjá frétt the Guardian í dag).
Greinasafn fyrir merki: Alaska
Japanskt frauðplast á fjörum Alaska
Gríðarlegt magn af japönsku frauðplasti hefur rekið á fjörur Alaska síðustu mánuði. Þetta er ein af afleiðingum jarðskjálftans mikla í Japan í mars 2011 og flóðbylgjunnar sem fylgdi í kjölfarið. Plastið er m.a. úr einangrun húsa sem skemmdust í hamförunum og úr flotholtum á sjó. Plastið hefur nú náð að berast þvert yfir Kyrrahafið og er víða að finna á vesturströnd Bandaríkjanna. Erfiðast verður þó að hreinsa strendur Alaska, þar sem svæðið er afskekkt og strandlínan löng. Umhverfisverndarsinnar hafa áhyggjur af áhrifum plastsins á dýralíf, en frauðplast brotnar seint eða aldrei niður í náttúrunni og getur m.a. valdið köfnun og stíflað meltingarvegi dýra.
(Sjá frétt PlanetArk 31. janúar).
Shell í vanda við Alaska
Í framhaldi af strandi Kulluk olíupallsins við Sitkalidakeyju við Alaska á nýársnótt eykst nú þrýstingur á ríkisstjórn Baracks Obama að fresta öllum frekari áætlunum um olíuboranir á Norðurheimskautssvæðinu. Forsvarsmenn olíufélagsins Shell, sem er eigandi pallsins, leggja á það áherslu að strandið hafi átt sér stað við flutning á pallinum og hafi ekkert með olíuboranir að gera sem slíkar. Umhverfisverndarsamtök benda hins vegar á að strandið sé sönnun þess að olíufélög geti ekki fyrirbyggt umhverfisslys í tengslum við olíuvinnsluna. Frá því á árinu 2005 hefur Shell varið um 4,5 milljörðum dollara (um 600 milljörðum ísl. kr.) í undirbúning olíuvinnslu á norðurheimskautssvæðinu við Alaska, en enn hefur ekki reynst unnt að hefja boranir.
(Sjá frétt PlanetArk 4. janúar).