Bæta þarf undirbúning að lagninu nýrra vega ef komast á hjá verulegum neikvæðum áhrifum á náttúruna og afkomumöguleika komandi kynslóða. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem sagt var frá í grein í tímaritinu Nature í gær, þar sem getum er að því leitt að á næstu 35 árum verði byggðir vegir sem ná myndu 600 sinnum í kringum jörðina. Í greininni kemur fram að uppbygging vegakerfis sé mjög mikilvæg í þróunarríkjum þar sem lélegt aðgengi bænda að mörkuðum og heildsölum sé ein helsta hindrun í vegi aukinnar fæðuframleiðslu og byggðaþróunar. Stysta leiðin milli áfangastaða sé gjarnan valin í sparnaðarskyni, en með því séu búsvæði dýra og plantna oftar en ekki slitin í sundur. Þetta hafi verið raunin m.a. á Amazon-svæðinu, í Nýju-Gíneu, Síberíu og Kongó. Á mörgum þessara svæða sé lífríkið afar fjölbreytt og svæðin því mikilvægur hlekkur í að viðhalda sérstæðum vistkerfum auk þess sem svæðin hægi á loftslagsbreytingum með upptöku og geymslu kolefnis. Því sé ódýrasta leiðin ekki endilega sú hagkvæmasta ef horft er til framtíðar.
(Sjá frétt Planet Ark í dag).