Ríkissstjórnir heimsins þurfa að gera mun betur en þær hafa gert síðustu ár til að ná náttúruverndarmarkmiðum sem sett hafa verið fyrir árið 2020. Þetta kemur fram í skýrslunni „Global Biodiversity Outlook“ sem kynnt var við upphaf 12. ráðstefnu aðildarríkja Samningsins um líffræðilega fjölbreytni sem hófst í S-Kóreu í gær. Margt hefur verið vel gert en ef svo heldur sem horfir nást þó aðeins fimm markmið af 53. Öll hin 48 málin eru á eftir áætlun. Best hefur gengið að nálgast markmið um stækkun náttúruverndarsvæða, en mun verr að hægja á eyðingu náttúrulegra búsvæða og fyrirbyggja útdauða tegunda. Áætlað er að þjóðir heims verji nú um 50 milljörðum Bandaríkjadala á ári (um 6.000 milljörðum ísl. kr.) til verkefna af þessu tagi, en fjárþörfin er talin liggja á bilinu 150-440 milljarðar dala. Til mikils er að vinna þegar höfð eru í huga verðmæti þeirrar þjónustu sem náttúran veitir mönnum.
(Sjá frétt PlanetArk í dag)