Vísindamönnum við Háskólann í Suður-Kaliforníu (USC) hefur tekist, fyrstum manna, að framleiða metanól úr koltvísýringi eins og hann kemur fyrir í andrúmsloftinu. Hingað til hefur metanól einungis verið framleitt úr koltvísýringi í háum styrk og við hátt hitastig. Hin nýja aðferð felst í að dæla andrúmslofti í gegnum vatnslausn af pentaetýlenhexamíni (PEHA) að viðbættum efnahvata sem fær vetni til að bindast koltvísýringi undir þrýstingi. Þessi lausn er síðan hituð upp í 125-165°C sem er mun lægra hitastig en notað hefur verið í fyrri aðferðum. Lægra hitastig útheimtir augljóslega minni orku, auk þess sem það eykur endingu efnahvatans. Með þessu móti hefur vísindamönnunum tekist að breyta 79% af koltvísýringnum í metanól. Þannig eru slegnar tvær flugur í einu höggi. Koltvísýringur er fjarlægður úr andrúmsloftinu og til verður endurnýjanlegt eldsneyti sem getur komið í stað jarðefnaeldsneytis sem orkugjafi og hráefni í efnaiðnaði. Að minnsta kosti 5-10 ár munu þó líða áður en þetta eldsneyti verður orðið samkeppnisfært í verði.
(Sjá frétt ScienceDaily 2. febrúar).
Greinasafn fyrir flokkinn: Orka
Stærsta sólarorkuver heims gangsett í Marokkó
Í gær kveikti Múhammeð VI, konungur Marokkó, á fyrsta áfanga sólarorkuvers sem verður það stærsta í heimi þegar það verður fullbyggt árið 2018. Verið er staðsett í útjaðri Sahara-eyðimerkurinnar við borgina Ouarzazate og verður uppsett afl þess samtals 580 MW þegar upp verður staðið, en fyrsti áfanginn er 160 MW. Fullbúið á verið að geta séð um 1,1 milljón manna fyrir nægri raforku og með tilkomu þess mun losun kolefnis út í andrúmsloftið minnka um hundruð þúsunda tonna á ári. Um 4 milljarðar Bandaríkjadala (um 500 milljarðar ísl. kr.) hafa verið lagðir í verið, en bygging þess og annarra stórra sólarorkuvera víða um heim er talin geta lækkað framleiðslukostnað raforku frá sólarsellum í náinni framtíð um allt að 15% fyrir hver 5 GW sem bætast við heildaraflið. Stjórnvöld í Marokkó stefna að því að árið 2020 verði hlutdeild endurnýjanlegrar orku í landinu komin í 42% og í 52% árið 2030. Áformin verða væntanlega kynnt nánar á næstu ríkjaráðstefnu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP22) sem haldin verður í Marokkó 7.-18. nóvember nk.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Gagnaver á hafsbotni?
Sérfræðingar hjá Microsoft kanna nú möguleikana á að reisa gagnaver á hafsbotni. Fyrstu tilraunir í þessa veru lofa góðu og benda til að þetta sé ekki aðeins mögulegt heldur einnig ákjósanlegt frá umhverfislegu og rekstrarlegu sjónarmiði. Netþjónum væri þá komið fyrir í rammgerðum neðarsjávarhylkjum, en með því móti mætti draga mjög úr kostnaði og umhverfisáhrifum vegna kælingar sem nú er einn stærsti kostnaðarliðurinn í rekstri gagnavera. Hugmyndin er að framleiða orku fyrir verin með sjávarstrauma- eða sjávarfallavirkjunum, þannig að þau verði sjálfum sér næg hvað það varðar. Hægt yrði að staðsetja gagnaver mun nær stærstu þéttbýlisstöðum en áður, sem myndi m.a. stytta biðtíma notenda, en hingað til hafa gagnaver helst verið byggð á auðum landsvæðum fjarri byggð. Byggingartími veranna gæti einnig styst úr u.þ.b. tveimur árum niður í 90 daga, miðað við að hylkin verði fjöldaframleidd. Fyrstu athuganir benda til að hylkin hafi óveruleg áhrif á sjávarhita og dýralíf í nánasta umhverfi sínu.
(Sjá frétt New York Times 31. janúar).
1.000 km sólarvegur í Frakklandi
Frönsk stjórnvöld hyggjast leggja 1.000 km af sólarvegum á næstu 5 árum, en með sólarvegum er átt við vegi sem þaktir eru sólarsellum til raforkuframleiðslu. Ef allt gengur upp getur þessi alllangi vegarspotti séð um 5 milljónum manns fyrir raforku, en það samsvarar 8% af íbúum Frakklands. Um 4 metrar af sólarvegi eru taldir duga til að fullnægja raforkuþörf einnar fjölskyldu, að upphitun frátalinni. Að sögn Ségolène Royal, umhverfis- og orkumálaráðherra Frakklands, er þegar búið að bjóða verkið út og er gert ráð fyrir að fyrstu tilraunir með þessa nýjung verði gerðar í vor. Yfirborgð sólarveganna er gert úr 7 mm sólarfilmu sem hefur verið í þróun síðustu 5 ár og var tilbúin til framleiðslu í október 2015. Burðarþolið er nóg til að taka við umferð flutningabíla og viðnámið nóg til að vegirnir verði ekki óþægilega hálir. Ségolène Royal hefur lagt til að lagðir verði sérstakir skattar á bensín til að fjármagna vegabætur af þessu tagi, enda sé lag til þess nú þegar olíuverð er lágt.
(Sjá frétt Global Construction Review 26. janúar).
Ólympíuleikarnir í Ríó fá sjálfbærnivottun
Sl. miðvikudag fékk undirbúningsnefnd Ólympíuleikanna í Ríó afhent skírteini sem staðfestir að leikarnir standist kröfur staðalsins ISO 20121 um sjálfbærni viðburða. Umræddur staðall var tekinn í notkun árið 2012 og voru Ólympíuleikarnir sem haldnir voru í London það ár fyrsti viðburðurinn sem fékk vottun skv. staðlinum. Staðallinn gerir ýmsar kröfur til þeirra sem standa fyrir viðburðum af þessu tagi. Til að fá vottun þarf að standast ítarlega óháða úttekt á fjölmörgum þáttum sem varða umhverfismál og samfélagsmál í tengslum við viðkomandi viðburð, svo sem hvað varðar úrgangsforvarnir, orkunotkun og álag á nærsamfélagið.
(Sjá frétt á heimasíðu Alþjóðaólympíunefndarinnar 28. janúar).
Kanada skerpir á loftslagskröfum til nýrra verkefna
Í gær kynnti Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, áform um auknar umhverfiskröfur sem gerðar verða til nýrra framkvæmda við olíu- og gaslagnir. Samkvæmt nýju reglunum þurfa verkefnin að fara í gegnum mat á áhrifum á loftslag, bæði vegna verkefnanna sjálfra sem slíkra og vegna vinnslu á olíu eða gasi sem flytja á um leiðslurnar. Með þessu er að sögn Justin Trudeau verið að leggja framkvæmdaaðilum þá skyldu á herðar að sýna fram á að framkvæmdin sé í almannaþágu. Jafnframt er ætlunin að tryggja fleiri stjórnsýslustigum, vísindamönnum og frumbyggjum aukinn aðgang að ákvarðanatöku. Nýju reglurnar munu m.a. gilda við leyfisveitingu vegna fyrirhugaðrar lagningar svonefndrar Energy East leiðslu sem á að flytja 1,1 milljón tunna af hráolíu frá Alberta og Saskatchewan þvert yfir mörg landsvæði til olíuhreinsistöðva og útflutningshafna í austanverðu Kanada. Forsætisráðherrann segir það ekki vera hlutverk sitt að vera klappstýra fyrir verkefni af þessu tagi.
(Sjá frétt Reuters í gær).
Rafbílar hlaðnir á 15 mínútum?
Svissneskir vísindamenn telja sig hafa fundið leið til að byggja upp hleðslustöð sem gæti fullhlaðið nokkra rafbíla samtímis á u.þ.b. 15 mínútum. Slík stöð þyrfti að hafa afl upp á 4,5 MW, sem samsvarar orkuþörf 4.500 þvottavéla sem keyrðar eru samtímis. Slíkir raforkuflutningar eru ofviða venjulegu dreifikerfi og því byggir lausn Svisslendinganna á að byggðar verði upp orkugeymslur við hverja hleðslustöð. Þar er í raun um að ræða risavaxnar rafhlöður, en stöð sem á að geta hlaðið 200 rafbíla á sólarhring þyrfti að geta geymt um 2,2 MWst. Miðað við núverandi tækni væri slík rafhlaða á stærð við fjóra venjulega flutningagáma. Með þessu móti væri hægt að byggja upp hleðslustöðvar sem gætu tekið við þegar bensínstöðvar í núverandi mynd líða undir lok.
(Sjá frétt á HybridCar.com í gær).
Fyrsta ölduvirkjunin tengd raforkukerfi Norðurlanda
Í síðustu viku var rafstraum frá ölduvirkjun í fyrsta sinn hleypt inn á raforkukerfi Norðurlandanna þegar fyrstu einingarnar af Sotenäs-ölduvirkjuninni út af Lysekil á vesturströnd Svíþjóðar voru tengdar við land. Sotenäsvirkjunin er nýjung á heimsvísu að því leyti að þetta er fyrsta ölduvirkjunin sem samanstendur af mörgum einingum sem eru auk heldur tengdar við fyrsta neðansjávarspenni í heimi. Virkjunin er þróunarverkefni sem fjármagnað er af orkufyrirtækinu Fortum, Orkustofnun Svíþjóðar og nýsköpunarfyrirtækinu Seabased og unnið í samvinnu við vísindamenn við Ångströmrannsóknarstofuna við Háskólann í Uppsölum.
(Sjá fréttatilkynningu Fortum í gær).
Rafvæðing skipa hafin hjá Kystverket
Strandlengjustofnun Noregs (Kystverket) hefur ákveðið að nota tvinntækni í fjölnotaskipinu OV Bøkfjord sem hefur verið í smíðum frá því á árinu 2014. Gengið var frá samningum við Rolls Royce rétt fyrir áramót um afhendingu á rafgeymum og öðrum búnaði sem þessu tengist. Breytingin mun seinka afhendingu skipsins, en Kystverket hyggst einnig gera kröfu um tvinntækni í systurskipi sem sett verður í útboðsferli á næstu vikum. Enn fremur er verið að skoða hvort mögulegt sé að breyta tveimur eldri skipum stofnunarinnar í tvinnskip, en með því móti ætti að vera hægt að draga verulega úr olíunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda. Áætlað er að stofnkostnaður hvers skips hækki um 15 milljónir norskra króna (um 225 millj. ísl. kr.) við þessa breytingu, en á móti er gert ráð fyrir allt að 25% sparnaði í eldsneytiskaupum sem þýðir að breytingin borgar sig upp á u.þ.b. 10 árum. Tvinntæknin gerir það mögulegt að nýta dísilvélar skipanna mun betur en ella, viðhaldsþörf minnkar og hægt verður að keyra skipin alfarið á rafmagni þegar þau liggja við bryggju og draga þannig úr hávaða og loftmengun.
(Sjá frétt Teknisk Ukeblad 5. janúar).
Ekkert jarðefnaeldsneyti í almenningssamgöngum á Skáni
Þann 1. desember skiptu allir strætóar í Malmö úr jarðgasi yfir í lífgas, en aðgerðin var sú síðasta í röð verkefna sem miðuðu að því að ekkert jarðefnaeldsneyti yrði notað í almenningssamgöngum í bæjum á Skáni í árslok 2015. Allir innanbæjarstrætóar á Skáni keyra nú á lífgasi auk þess sem fimm sporvagnar í Landskrona ganga fyrir endurnýjanlegu rafmagni. Á Skáni er mikið framleitt af lífgasi í gas- og jarðgerðarstöðum. Jarðgas og lífgas er efnafræðilega sama efni (metan) og er dreift í sama dreifikerfi og því þurfa kaupendur upprunavottorð frá dreifingaraðila sem staðfestir að keypt hafi verið lífgas en ekki jarðgas. Óháður vottunaraðili gengur úr skugga um að dreifingaraðilar selji ekki sama vottorðið oftar en einu sinni. Næsta markmið er að hætta notkun jarðefnaeldsneytis í almenningssamgöngum á milli sveitarfélaga. Þessu markmiði ætla Skánverjar að ná fyrir árið 2018.
(Sjá frétt Sydsvenskan í dag).