Í gær kveikti Múhammeð VI, konungur Marokkó, á fyrsta áfanga sólarorkuvers sem verður það stærsta í heimi þegar það verður fullbyggt árið 2018. Verið er staðsett í útjaðri Sahara-eyðimerkurinnar við borgina Ouarzazate og verður uppsett afl þess samtals 580 MW þegar upp verður staðið, en fyrsti áfanginn er 160 MW. Fullbúið á verið að geta séð um 1,1 milljón manna fyrir nægri raforku og með tilkomu þess mun losun kolefnis út í andrúmsloftið minnka um hundruð þúsunda tonna á ári. Um 4 milljarðar Bandaríkjadala (um 500 milljarðar ísl. kr.) hafa verið lagðir í verið, en bygging þess og annarra stórra sólarorkuvera víða um heim er talin geta lækkað framleiðslukostnað raforku frá sólarsellum í náinni framtíð um allt að 15% fyrir hver 5 GW sem bætast við heildaraflið. Stjórnvöld í Marokkó stefna að því að árið 2020 verði hlutdeild endurnýjanlegrar orku í landinu komin í 42% og í 52% árið 2030. Áformin verða væntanlega kynnt nánar á næstu ríkjaráðstefnu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP22) sem haldin verður í Marokkó 7.-18. nóvember nk.
(Sjá frétt The Guardian í gær).