Kolaskaut í rafhlöður framleidd úr bjórskólpi

beerVísindamenn við háskólann í Boulder, Colorado í Bandaríkjunum hafa fundið leið til að framleiða efni í kolaskaut fyrir rafhlöður úr fráveituvatni frá bjórverksmiðjum. Efnið er framleitt af sveppnum Neurospora crassa sem þrífst vel í sykurríku bjórskólpinu. Aðferðin er í sjálfu sér ekki ný en skólpið hentar betur en annar lífmassi þar sem það er tiltölulega einsleitt og alltaf til í nægu magni þar sem um 7 lítra af vatni þarf til að framleiða 1 lítra af bjór. Með framleiðslunni eru slegnar tvær flugur í einu höggi, því að sveppirnir hjálpa í leiðinni til við að hreinsa vatnið áður en því er sleppt út í viðtakann. Með því að beita aðferðinni í stórum stíl ætti að vera hægt að lækka kostnað við hreinsun verulega og lækka um leið kostnað við orkugeymslu.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Rafbílar hlaðnir á 15 mínútum?

Fit_EV_Direct_Solar_Charging_Plug-668-668x409Svissneskir vísindamenn telja sig hafa fundið leið til að byggja upp hleðslustöð sem gæti fullhlaðið nokkra rafbíla samtímis á u.þ.b. 15 mínútum. Slík stöð þyrfti að hafa afl upp á 4,5 MW, sem samsvarar orkuþörf 4.500 þvottavéla sem keyrðar eru samtímis. Slíkir raforkuflutningar eru ofviða venjulegu dreifikerfi og því byggir lausn Svisslendinganna á að byggðar verði upp orkugeymslur við hverja hleðslustöð. Þar er í raun um að ræða risavaxnar rafhlöður, en stöð sem á að geta hlaðið 200 rafbíla á sólarhring þyrfti að geta geymt um 2,2 MWst. Miðað við núverandi tækni væri slík rafhlaða á stærð við fjóra venjulega flutningagáma. Með þessu móti væri hægt að byggja upp hleðslustöðvar sem gætu tekið við þegar bensínstöðvar í núverandi mynd líða undir lok.
(Sjá frétt á HybridCar.com í gær).

Nýjungar í rafvæðingu samgangna

EVFimmtíu áhugaverðar nýjungar í rafvæðingu samganga eru kynntar í nýrri skýrslu nýsköpunarsetursins Urban Foresight undir yfirskriftinni EV City Casebook. Skýrslunni er ætlað að vekja athygli á skapandi verkefnum sem þegar eru komin í gang og þykja líkleg til að ryðja brautina fyrir rafvæðingu samgangna. Meðal verkefna sem kynnt eru í skýrsluna má nefna þráðlausa hleðslu rafknúinna strætisvagna í borginni Gumi í Suður-Kóreu, en þar taka vagnarnir hleðslu úr rafsegulsviði sem myndast yfir lögnum á 12 km hluta af akstursleið vagnanna. Einnig er kynnt net rafleigubíla í borginni Hangzhou í Kína þar sem bílstjórar geta skipt tómum rafhlöðum út fyrir fullar í höfuðstöðum leigubílafyrirtækisins.
(Sjá frétt EDIE 3. desember).

Hleðslustöð á hjólum

26188Hreyfanleg hleðslustöð fyrir rafbíla verður framvegis hluti af þeirri neyðarþjónustu sem fyrirtækið RAC í Bretlandi býður viðskiptavinum sínum. Þjónustubílar fyrirtækisins verða búnir 5 kW hleðslustöð til að hlaða rafbíla sem verða rafmagnslausir á miðri leið. Hálftíma hleðsla dugar fyrir 24 km akstur, sem ætti að koma viðskiptavininum heim eða á næstu hleðslustöð. Ef á þarf að halda er hægt að fylla geyminn á u.þ.b. 4 klst. RAC segir hleðslustöðina vera svar fyrirtækisins við ört stækkandi rafbílaflota Bretlands, en í dag eru rafbílanotendur í Bretlandi rúmlega 9.000 talsins.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Nýr flæðisrafgeymir vekur vonir

HarvardVísindamenn við Harvardháskóla hafa þróað nýja gerð rafgeymis þar sem algengt og ódýrt lífrænt efni er notað í stað sjaldgæfra málma. Um er að ræða flæðisrafgeymi þar sem vökvi tekur í sig rafhleðslu í sérstökum rafbreyti (e. electrochemical conversion hardware) og er síðan geymdur hlaðinn í tanki. Þegar nota þarf orkuna flæðir vökvinn til baka í gegnum rafbreytinn yfir í annan tank þar sem hann bíður eftir nýrri hleðslu. Stærð tankanna er óháð stærð rafbreytisins, ólíkt því sem gerist í venjulegum rafhlöðum þar sem báðir hlutar eru sambyggðir. Lífræna efnið sem tekur við hleðslunni er kínón, en það er að finna í olíuafurðum og í fjölmörgum plöntum, m.a. í rabarbara. Þessi nýja tækni gæti boðað nýja tíma í nýtingu endurnýjanlegrar orku, svo sem vindorku og sólarorku, þar sem erfiðleikar við geymslu orkunnar hafa staðið í vegi fyrir því að hægt væri að jafna sveiflur í framboði og eftirspurn. Fræðilega væri hægt að nota tæknina hvort sem er í stórum stíl sem hluta af raforkukerfi á landsvísu eða í heimilisstærð.
(Sjá frétt á heimasíðu Harvardháskóla 8. janúar).