Afneitun loftslagsbreytinga tengist félagslegri drottnunargirni

uppsala-uniEinstaklingar sem haldnir eru félagslegri drottnunargirni (e. social dominance orientation (SDO)) eru líklegri en aðrir til að afneita loftslagsvísindum. Afneitunin tengist karllægum viðhorfum og persónuleikaeinkennum á borð við lága samkennd, valdahneigð og þröngsýni. Einkenni félagslegrar drottnunargirni eru m.a. þau að viðkomandi telur mismunun félagslegra hópa réttlætanlega eða æskilega og finnst maðurinn ráða yfir náttúrunni. Afneitunin gæti tengst ólíkri félagslegri stöðu þeirra sem eru öðrum fremur valdir að loftslagsbreytingum og þeirra sem verða einkum fyrir barðinu á þeim. Allt þetta og margt fleira kemur fram í doktorsritgerð Kirsti Jylhä sem stundað hefur rannsóknir við Háskólann í Uppsölum á hugmyndafræðilegum rótum afneitunar í loftslagsmálum.
(Sjá fréttatilkynningu Háskólans í Uppsölum 29. september).

Fyrsta ölduvirkjunin tengd raforkukerfi Norðurlanda

vågkraftsboj-sotenäs-ansluten-till-elnätetÍ síðustu viku var rafstraum frá ölduvirkjun í fyrsta sinn hleypt inn á raforkukerfi Norðurlandanna þegar fyrstu einingarnar af Sotenäs-ölduvirkjuninni út af Lysekil á vesturströnd Svíþjóðar voru tengdar við land. Sotenäsvirkjunin er nýjung á heimsvísu að því leyti að þetta er fyrsta ölduvirkjunin sem samanstendur af mörgum einingum sem eru auk heldur tengdar við fyrsta neðansjávarspenni í heimi. Virkjunin er þróunarverkefni sem fjármagnað er af orkufyrirtækinu Fortum, Orkustofnun Svíþjóðar og nýsköpunarfyrirtækinu Seabased og unnið í samvinnu við vísindamenn við Ångströmrannsóknarstofuna við Háskólann í Uppsölum.
(Sjá fréttatilkynningu Fortum í gær).

Leikskóli selur foreldrum matarafganga

Gungor-och-flagga (160x120)Foreldrar barna á leikskólanum Dalby Hage utan við Uppsali í Svíþjóð eiga þess nú kost að kaupa matarafganga frá leikskólanum. Matráðskonan á leikskólanum stakk upp á þessu á foreldrafundi og fékk góðar undirtektir. Afgangarnir eru seldir í öskjum og kostar skammturinn 25 sænskar krónur (um 380 ísl. kr.). Foreldrar hafa tekið þessu fagnandi og um leið dregur þetta úr matarsóun á leikskólanum. Tekjunar af sölunni verða nýttar til að auka hlutdeild lífrænna matvæla og staðbundinnar framleiðslu í innkaupum leikskólans.
(Sjá frétt MiljöAktuellt í dag).

Ný umhverfisvæn aðferð við endurheimt litíums

Alfalfafururafhl (160x89)Vísindamenn við háskólann í Uppsölum í Svíþjóð hafa þróað nýja umhverfisvæna tækni til að endurheimta litíum úr litíumrafhlöðum og öðrum rafeindabúnaði, en þetta hefur verið vandkvæðum bundið til þessa. Aðferðin byggir á nýtingu lífrænna efnasambanda og með henni má endurheimta litíum við lágt hitastig án mikilla umhverfisáhrifa. Hið endurheimta litíum nýtist síðan í nýjar rafhlöður úr endurnýjanlegum efnum sem m.a. eru fengin úr refasmára (e. alfalfa) og furukvoðu. Þessar rafhlöður geta geymt 99% af þeirri orku sem rúmast í þeim litíumrafhlöðum sem nú eru í notkun, auk þess sem þær eru endurvinnanlegar og samkeppnishæfar í verði. Með þessu kunna að opnast nýir og umhverfisvænni möguleikar en áður hafa þekkst í orkugeymslu.
(Sjá frétt Science Daily 29. september).