Gagnaver á hafsbotni?

01underwater-web1-master675 (160x107)Sérfræðingar hjá Microsoft kanna nú möguleikana á að reisa gagnaver á hafsbotni. Fyrstu tilraunir í þessa veru lofa góðu og benda til að þetta sé ekki aðeins mögulegt heldur einnig ákjósanlegt frá umhverfislegu og rekstrarlegu sjónarmiði. Netþjónum væri þá komið fyrir í rammgerðum neðarsjávarhylkjum, en með því móti mætti draga mjög úr kostnaði og umhverfisáhrifum vegna kælingar sem nú er einn stærsti kostnaðarliðurinn í rekstri gagnavera. Hugmyndin er að framleiða orku fyrir verin með sjávarstrauma- eða sjávarfallavirkjunum, þannig að þau verði sjálfum sér næg hvað það varðar. Hægt yrði að staðsetja gagnaver mun nær stærstu þéttbýlisstöðum en áður, sem myndi m.a. stytta biðtíma notenda, en hingað til hafa gagnaver helst verið byggð á auðum landsvæðum fjarri byggð. Byggingartími veranna gæti einnig styst úr u.þ.b. tveimur árum niður í 90 daga, miðað við að hylkin verði fjöldaframleidd. Fyrstu athuganir benda til að hylkin hafi óveruleg áhrif á sjávarhita og dýralíf í nánasta umhverfi sínu.
(Sjá frétt New York Times 31. janúar).

Stærsta sjávarfallalón í heimi í undirbúningi við Swansea

Swansea-garðurOrkufyrirtækið Tidal Lagoon Power vill hrinda í framkvæmd áætlun um byggingu nokkurra sjávarfallavirkjana við strendur Bretlands, með samanlagt uppsett afl upp á 7.300 megavött (MW). Orkan frá virkjununum á að duga til að uppfylla 10% af allri raforkuþörf Bretlands. Heildarkostnaður við verkið er áætlaður um 12 milljarðar sterlingspunda (um 2.270 milljarðar ísl. kr). Fyrsta skrefið í þessu myndi vera bygging 9,5 km varnargarðs utan um 11,5 ferkílómetra lón í grennd við Swansea og virkjun sjávarfalla inn og út úr lóninu. Þetta yrði stærsta manngerða sjávarfallalón í heimi. Gert er ráð fyrir að þessi eina virkjun verði 320 MW, framleiði um 420 gígavattstundir (GWst) á ári og endist í 120 ár.
(Sjá frétt Guardian í gær).

Samið um 10 MW OTEC-orkuver

OTECÍ gær gekk hergagnaframleiðandann Lockheed Martin frá samningi um byggingu 10 MW orkuvers undan ströndum Kína, þar sem rafmagn verður framleitt með svonefndri hafsvarmaskiptatækni (e. Ocean Thermal Energy Conversion (OTEC)). Undirbúningur að þessu hefur staðið frá því í apríl, en orkuverið verður það stærsta sinnar tegundar í heiminum og hið fyrsta sem nýtir OTEC-tæknina á viðskiptalegum forsendum. Vonir standa til að innan 5 ára verði hægt að hefjast handa við byggingu mun hagkvæmara 100 MW OTEC-orkuvers á grunni reynslunnar sem fæst í þessu verkefni. OTEC-tæknin byggir á því að nýta hitamun djúpsjávar og uppsjávar með ammoníak sem vinnslumiðil sem jafnframt er látinn drífa gufuhverflarafal. Hafsvæði u.þ.b. 80 landa nálægt miðbaug hafa hitastig sem gerir þetta mögulegt.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Sjávarfallavirkjun í Pentlandfirði

Pentland

Í síðustu viku veitti skoska ríkisstjórnin fyrirtækinu MeyGen Ltd. leyfi til að hleypa af stokkunum stærsta sjávarfallaorkuverkefni í Evrópu í Pentlandfirði milli Orkneyja og meginlands Skotlands. Fyrsta skrefið í verkefninu felst í byggingu 9 MW tilraunavirkjunar, en ætlunin er að virkjunin verði 86 MW þegar upp er staðið. Virkjun af þeirri stærð ætti að geta séð 42.000 heimilum fyrir raforku. Pentlandfjörður er talinn henta einstaklega vel til virkjunar sjávarfallaorku, en menn greinir nokkuð á um raunverulega framleiðslugetu.
(Sjá frétt PlanetArk 17. september).

Fyrsta „alvöru“ OTEC-orkuverið

OTECHergagnaframleiðandinn Lockheed Martin áformar að reisa 10 MW orkuver undan ströndum Kína, þar sem rafmagn verður framleitt með svonefndri hafsvarmaskiptatækni (e. Ocean Thermal Energy Conversion (OTEC)). Aðferðin hefur verið þekkt í 130 ár, en þetta verður fyrsta OTEC-orkuverið í heiminum, sem kemst nálægt því að nýta þessa tækni með hagkvæmum hætti. Orkan frá verinu ætti að geta dugað nokkur þúsund heimilum, og í framhaldinu eygja menn möguleika á að byggja sambærileg orkuver með uppsett afl allt að 100 MW. Tæknin byggir á því að nýta hitamun djúpsjávar og uppsjávar með ammoníak sem vinnslumiðil sem jafnframt er látinn drífa gufuhverflarafal.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).