Kemísk efni ógna heilsu og efnahag

151001100058_1_540x360 (160x106)Gríðarleg aukning í umgengni fólks við eiturefni síðustu fjóra áratugi ógnar frjósemi og heilsu manna, á þátt í milljónum dauðsfalla á hverju ári og hefur í för með sér árlegan kostnað upp á milljarða dollara. Meðal afleiðinga má nefna aukna tíðni fósturláta og andvana fæðinga, truflanir á fósturþroska, meðfædda vansköpun, vanþroskun taugakerfis, truflanir á vitsmunaþroska, fjölgun krabbameinstilfella, athyglisbrest og ofvirkni. Efnin sem þessu valda eru m.a. varnarefni, mengunarefni í andrúmslofti, plastefni og leysiefni. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðasamtaka kvensjúkdóma- og fæðingarlækna (International Federation of Gynecology and Obstetrics (FIGO)) sem birtist í gær, en þetta mun vera í fyrsta sinn sem alþjóðasamtök á heilbrigðissviði taka svo skýra afstöðu í þessum efnum. Í tilefni af útgáfu skýrslunnar sagði aðalhöfundar hennar, Dr. Gian Carlo Di Renzo: „Við erum að drekkja heiminum í óprófuðum og óöruggum efnum“. Að mati FIGO þurfa læknar að beita sér fyrir stefnumörkun sem verndar sjúklinga og samfélög fyrir þessari hættu.
(Sjá frétt ScienceDaily í gær).

Coop ræðst gegn skaðlegum efnum

Solcreme_og_tandpas_964894y (160x107)Dagvörurisinn Coop í Danmörku hefur hafið sérstakt átak til að ryðja úr vegi skaðlegum efnum úr eigin vörum fyrirtækisins og úr vörum annarra framleiðenda sem seldar eru í verslunum keðjunnar. Á næstu þremur árum munu tólf tilteknir efnaflokkar verða gerðir útlægir úr öllum vörum sem Coop framleiðir og vörur annarra framleiðenda sem ekki fylgja þessu fordæmi verða fjarlægðar úr búðarhillum. Nú þegar hefur örbylgjupoppi, blautklútum og skólavörum úr PVC verið úthýst og nú síðast bættist tannkremið Colgate Total í þann hóp þar sem það inniheldur tríklósan. Efnin sem um ræðir eru öll lögleg, en það sem er löglegt er ekki endilega öruggt, eins og talsmaður Coop orðar það.
(Sjá frétt Politiken 7. september).

Er grænt te allra meina bót?

gront_te_160Varnarefni fundust í öllum tegundum af grænu tei sem sænsku neytendasamtökin Råd&Rön rannsökuðu á dögunum. Rannsóknin náði til 12 tetegunda og 300 varnarefna sem notuð eru í landbúnaði. Tvær tegundir fengu falleinkunn, en þær voru frá fyrirtækjunum Lipton og Garant og innihéldu hvor um sig um 15 varnarefni. Í bragðbættu grænu tei frá Garant fannst m.a. fimmfalt meira af skordýraeitrinu asetamípríð en leyfilegt er samkvæmt reglum ESB og Lipton-teið innihélt sexfalt leyfilegt magn af rotvarnarefninu fenýlfenól. Lífrænt te frá Clippers fékk bestu einkunnina. Grænt te er gjarnan markaðssett sem heilsudrykkur vegna andoxunarefna sem fyrirfinnast í því frá náttúrunnar hendi.
(Sjá frétt Råd&Rön 27. janúar).

Kokteiláhrif margfalda hættu á krabbameini

akrylamid_160Líkur á krabbameini geta aukist verulega vegna kokteiláhrifa skaðlegra efna samkvæmt nýrri ransókn á vegum Háskólans í Roskilde þar sem rýnt var í samverkandi áhrif akrýlamíðs og tveggja varnarefna. Rannsóknin leiddi í ljós að þrátt fyrir að magn hvers efnis um sig væri undir skilgreindum hættumörkum hafði kokteilinn mjög skaðleg áhrif á DNA í frumum. Akrýlamíð virtist þannig geta magnað upp krabbameinsvaldandi eiginleika varnarefnanna þrátt fyrir lágan styrk þeirra. Kokteiláhrifin geta m.a. falist í því að eitt tiltekið efni geri frumuhimnur gegndræpari og greiði þannig öðrum skaðlegum efnum leið inn í frumuna. Höfundar rannsóknarinnar leggja áherslu á að taka þurfi tillit til kokteiláhrifa þegar leyfileg hágmarksgildi einstakra efna eru ákveðin, því að gildin verði annars of há. Varrúðarreglunni skuli þannig beitt við ákvörðun hágmarksgilda.
(Sjá frétt Videnskap DK í dag).

Lífræn vottun í Danmörku í 25 ár

okologisk_160Danska Ø-merkið fyrir lífræna vottun fagnar nú 25 ára afmæli. Merkið hefur átt stóran þátt í að gera Dani að þeirri þjóð sem kaupir mest lífrænt, en um 8% af öllum matarinnkaupum í Danmörku eru nú lífrænt vottuð. Síðan vottunin var sett á laggirnar hefur danska þjóðin komið í veg fyrir að rúmlega þrjár milljónir tonna af eiturefnum sleppi út í náttúruna og á sama tíma verndað um 4.300 milljarða lítra af grunnvatni fyrir mengun af völdum varnarefna með því einu að kaupa lífrænt vottaðar vörur. Aðstandendur vottunarinnar telja að velgengni Ø-merkisins megi rekja til þess trausts sem merkingin hefur unnið sér á dönskum markaði. Um 98% danskra neytenda þekkja til merkisins og um 80% treysta því fullkomlega. Nú kaupa um 45% danskra neytenda lífrænt vottaðar vörur vikulega og um 70% mánaðarlega. Danir áætla að sala á lífrænt vottuðum vörum muni tvöfaldast á næstu 25 árum.
(Sjá frétt Økologisk Landsforening í dag).

Mikið af varnarefnum í grænmeti og ávöxtum

Frugt_og_gr_nt_er_f_898417yUm 66% af ávöxtum og 33% af grænmeti á dönskum markaði innihalda skaðleg efni samkvæmt nýrri rannsókn Matvælastofnunar Danmerkur (Fødevarestyrelsen) og Matvæladeildar Tækniháskóla Danmerkur (DTU). Innfluttar vörur koma sérstaklega illa út úr rannsókninni, enda er erfiðara fyrir yfirvöld í Danmörku að fylgjast með og stjórna notkun efna í framleiðslu utan landsteinana. Flestar tegundir af jarðarberjum, perum og eplum sem rannsakaðar voru innihéldu varnarefnaleifar, en þar var yfirleitt um að ræða skordýra- eða plöntueitur sem sat utan á ávöxtunum. Varnarefnin innihéldu yfirleitt hormónaraskandi efni sem geta haft áhrif á þroska barna auk þess að stuðla að offitu. Þar sem svipuð efni eru notuð við framleiðslu ólíkra afurða getur hver einstaklingur innbyrgt töluvert magn þegar á heildina er litið. Til að forðast skaðleg efni í matvöru hvetur Matvælastofnun Danmerkur fólk til að velja innlenda vöru og lífrænt vottaða ef mögulegt er.
(Sjá frétt Politiken í dag).

Er rúsínan í pylsuendanum full af varnarefnum?

russin_lidl_paket_184pxLeifar af 15 mismunandi varnarefnum fundust í einni og sömu rúsínutegundinni sem tekin var með í rannsókn sænsku neytendasamtakanna Råd & Rön á eiturefnum í rúsínum sem seldar eru í sænskum matvöruverslunum. Af þessum 15 efnum er tvö bönnuð í löndum ESB. Um var að ræða rúsínur frá fyrirtækinu Montedos sem eru markaðsettar sérstaklega fyrir börn. Varnarefnaleifar í snefilmagni eru ekki taldar hafa mikil eituráhrif, en hins vegar er ekkert vitað um samverkandi áhrif efnanna, þ.e.a.s. svonefnd kokkteiláhrif. Áhrif efna ráðast eðlilega af neyslumagni, auk þess sem börn eru viðkvæmari fyrir eiturefnum en fullorðnir þar sem þau fá í sig meira magn á hverja þyngdareiningu. Í rannsókninni kom í ljós að lífrænt vottaðar rúsínur innihéldu engar varnarefnaleifar, en 7 af 14 sýnum í rannsókninni voru með lífræna vottun. Allar hinar rúsínurnar innihéldu einhverjar varnarefnaleifar.
(Sjá frétt Råd&Rön 25. nóvember).

Varnarefni í þvagi Svía

nv_logo_sv-200Leifar af varnarefnum finnast í þvagi flestra Svía að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket). Þetta er niðurstaða þriggja rannsókna sem fram fóru á tímabilinu 2004-2011 og náðu til 500 einstaklinga. Í þessum rannsóknum voru gerðar efnagreiningar á þvagprufum, auk þess sem þátttakendur héldu matardagbók.Varnarefni fundust í þvagi flestra þátttakenda, en þó einna mest hjá þeim sem nýlega höfðu innbyrt kaffi, vín, sítrusávexti, grænmeti og tilteknar vörur úr korni. Varnarefnaleifar fundust einnig í grunnvatni og ferskvatni. Naturvårdsverket hefur lýst vonbrigðum með niðurstöðurnar sem sýna að engar framfarir hafa orðið í þessum efnum síðustu 10 ár, þrátt fyrir að löggjöf og stefnumótun hafi miðað að því að minnka notkun varnarefna í sænskum landbúnaði.
(Sjá fréttatilkynningu Naturvårdsverket 7. október).

Verðandi mæður velji lífrænt

Gravid ØkoFleiri efni en áður var talið geta truflað þroskun heila í börnum í móðurkviði. Þetta kemur fram í grein Dr. Philippe Grandjean og samstarfsmanna hans sem birtast mun í læknatímaritinu Lancet í næsta mánuði. Börn sem fá þessi efni í sig á fósturskeiði eða með móðurmjólk eru líklegri en önnur til að greinast með einhverfu, lesblindu, ADHD og aðrar þroskaraskanir, en efnin sem um ræðir geta m.a. leynst í matvælum, snyrtivörum, leikföngum og klæðnaði. Dr. Philippe kallar eftir alþjóðlegum aðgerðum til að tryggja að börn verði ekki fyrir varanlegu heilsutjóni af völdum efna af þessu tagi og ráðleggur jafnframt verðandi mæðrum að velja lífræn matvæli til að forðast varnarefnaleifar í matvælum.
(Sjá frétt Danska ríkisútvarpsins 15. febrúar).

Varnarefni í léttvíni

VínÍ rannsókn sem Landbúnaðarháskóli Svíþjóðar (SLU) gerði fyrir sjónvarpsþáttinn Kalla fakta á sjónvarpsstöðinni TV4 fundust varnarefnaleifar í fjórum af tíu mest seldu tegundum kassavíns í Svíþjóð. Evrópusambandið hefur ekki sett nein viðmiðunargildi fyrir leyfileg hámörk varnarefna í víni, en styrkur efnanna í umræddri rannsókn var allt að 55 sinnum hærri en leyft er í drykkjarvatni. Ein víntegund af þessum fjórum, Les Fumées Blanches, innihélt efnið Þíóphanatmetýl, sem talið er stuðla að krabbameinsvexti og ófrjósemi.
(Sjá frétt Sænska ríkisútvarpsins 24. nóvember).