Leifar af 15 mismunandi varnarefnum fundust í einni og sömu rúsínutegundinni sem tekin var með í rannsókn sænsku neytendasamtakanna Råd & Rön á eiturefnum í rúsínum sem seldar eru í sænskum matvöruverslunum. Af þessum 15 efnum er tvö bönnuð í löndum ESB. Um var að ræða rúsínur frá fyrirtækinu Montedos sem eru markaðsettar sérstaklega fyrir börn. Varnarefnaleifar í snefilmagni eru ekki taldar hafa mikil eituráhrif, en hins vegar er ekkert vitað um samverkandi áhrif efnanna, þ.e.a.s. svonefnd kokkteiláhrif. Áhrif efna ráðast eðlilega af neyslumagni, auk þess sem börn eru viðkvæmari fyrir eiturefnum en fullorðnir þar sem þau fá í sig meira magn á hverja þyngdareiningu. Í rannsókninni kom í ljós að lífrænt vottaðar rúsínur innihéldu engar varnarefnaleifar, en 7 af 14 sýnum í rannsókninni voru með lífræna vottun. Allar hinar rúsínurnar innihéldu einhverjar varnarefnaleifar.
(Sjá frétt Råd&Rön 25. nóvember).