Svansmerkt smínk loks fáanlegt

Danski snyrtivöruframleiðandinn Miild setti í gær á markað fyrstu Svansmerktu förðunarvörunar í heiminum. Um er að ræða vörur á borð við púður og augnskugga, en samtals inniheldur Svansmerkta vörulínan 18 vörutegundir í 6 vöruflokkum. Til að fá Svaninn þurfa snyrtivörur að uppfylla strangar kröfur. Þær mega t.d. ekki innihalda paraben eða önnur efni sem talin eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans og ekki heldur rotvarnarefni sem flokkuð eru sem ofnæmisvaldar. Þá eru gerðar strangar kröfur um ilmefnainnihald og málma á borð við blý, kvikasilfur og nikkel. Vörurnar þurfa einnig að standast ákveðið próf hvað varðar niðurbrot í náttúrunni, uppsöfnun í lífverum og eituráhrif á vatnalífverur. Þá eru gerðar kröfur um efnainnihald í umbúðum o.m.fl. Mikil eftirspurn hefur verið eftir umhverfismerktum förðunarvörum í Danmörku, enda er ofnæmi fyrir efnum í snyrtivörum algengt vandamál. Svansmerktu förðunarvörurnar verða komnar í danskar búðir í byrjun maí en þær fást nú þegar í vefverslun Miild.
(Sjá fréttatilkynningu Svansins í Danmörku í gær).

Ofnæmisvaldar algengir í hreingerningarefnum

test-kemi-i-universalrengoering160Flest hreingerningarefni innihalda ofnæmisvaldandi ilmefni eða rotvarnarefni samkvæmt nýrri könnun Neytendasamtaka Danmerkur (Tænk). Skoðaðar voru upplýsingar um innihald 25 vörutegunda og reyndust aðeins 6 þeirra (allar Svansmerktar) lausar við efni af þessu tagi. Rotvarnarefnið MI (metýlísóþíasólínón) fannst í 5 vörutegundum en á hverju ári eru rúmlega 1.000 Danir greindir með ofnæmi fyrir efninu. Tænk ráðleggur fólki að kaupa hreinsiefni sem fengið hafa vottun Norræna svansins eða Umhverfismerkis Evrópusambandsins og eru jafnframt merkt með Bláa kransinum, sem felur í sér viðurkenningu dönsku astma- og ofæmissamtakanna.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).

ESB bannar MI í snyrtivörum!

lotionpaahaand1170x659Evrópusambandið (ESB) hefur bannað rotvarnarefnið MI (metýlísóþíasólínón) í svokölluðum „leave-on“ húðvörum, þ.e.a.s. vörum á borð við hvers kyns krem og svitarlyktareyði, sem ætlað er að liggja lengi á húðinni. Dönsk yfirvöld hafa lengi kallað eftir slíku banni, en MI er ofnæmisvaldandi og telja dönsk yfirvöld efnið vera eina helstu ástæðuna fyrir fjölgun ofnæmistilfella í Danmörku. Í framhaldinu mun ESB ákveða hámarksviðmið fyrir MI í öðrum snyrtivörum, en efnið er m.a. notað í sjampó og raksápu.
(Sjá frétt Miljøstyrelsen í dag).

Ofnæmisvaldandi efni algeng í handsápum

haandsaebe-testÞekktir ofnæmisvaldar eða hormónaraskandi efni fundust í þriðju hverri handsáputegund sem dönsku neytendasamtökin Tænk skoðuðu nýlega. Farið var yfir innihaldslýsingar í 76 mismunandi tegundum af handsápu og reyndust 25 þeirra innihalda efni sem talin eru geta skaðað umhverfi og heilsu. Nokkrar tegundir innihéldu m.a. bakteríudrepandi efnið tríklósan sem er talið geta truflað hormónastarfsemi líkamans auk þess sem það stuðlar að vexti lyfjaónæmra baktería. Tríklósan getur safnast upp í fæðukeðjunni og er skaðlegt vatnalífverum. Nítján tegundir innihéldu rotvarnarefnin MCI og MI (metýlklóróísóthiazólínon og metýlísóthiazólínon) sem eru ein algengasta orsök ofnæmis af völdum rotvarnarefna. Leyfilegur hámarksstyrkur þessara efna var 25-faldaður árið 2005 og síðan hefur ofnæmistilfellum vegna þeirra fjölgað gríðarlega. Um 1.000 tilfelli greinast nú í Danmörku árlega.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 21. ágúst).

Er grænt te allra meina bót?

gront_te_160Varnarefni fundust í öllum tegundum af grænu tei sem sænsku neytendasamtökin Råd&Rön rannsökuðu á dögunum. Rannsóknin náði til 12 tetegunda og 300 varnarefna sem notuð eru í landbúnaði. Tvær tegundir fengu falleinkunn, en þær voru frá fyrirtækjunum Lipton og Garant og innihéldu hvor um sig um 15 varnarefni. Í bragðbættu grænu tei frá Garant fannst m.a. fimmfalt meira af skordýraeitrinu asetamípríð en leyfilegt er samkvæmt reglum ESB og Lipton-teið innihélt sexfalt leyfilegt magn af rotvarnarefninu fenýlfenól. Lífrænt te frá Clippers fékk bestu einkunnina. Grænt te er gjarnan markaðssett sem heilsudrykkur vegna andoxunarefna sem fyrirfinnast í því frá náttúrunnar hendi.
(Sjá frétt Råd&Rön 27. janúar).

Rotvarnarefni í leikföngum

SápukúlurBarnaleikföng á borð við fingramálningu, módelleir, andlitsmálningu og sápukúlur innihalda oft rotvarnarefni sem geta haft skaðleg áhrif við mikla notkun. Í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) kemur fram að 23 mismunandi rotvarnarefni, þ.á.m. parabenar, hafi fundist við athugun á vörum af þessu tagi. Í framhaldi af þessu hefur stofnunin farið fram á að Evrópusambandið taki afstöðu til þess hvort reglur um rotvarnarefni í leikföngum séu nægilega strangar.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 20. febrúar).