Gríðarleg aukning í umgengni fólks við eiturefni síðustu fjóra áratugi ógnar frjósemi og heilsu manna, á þátt í milljónum dauðsfalla á hverju ári og hefur í för með sér árlegan kostnað upp á milljarða dollara. Meðal afleiðinga má nefna aukna tíðni fósturláta og andvana fæðinga, truflanir á fósturþroska, meðfædda vansköpun, vanþroskun taugakerfis, truflanir á vitsmunaþroska, fjölgun krabbameinstilfella, athyglisbrest og ofvirkni. Efnin sem þessu valda eru m.a. varnarefni, mengunarefni í andrúmslofti, plastefni og leysiefni. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðasamtaka kvensjúkdóma- og fæðingarlækna (International Federation of Gynecology and Obstetrics (FIGO)) sem birtist í gær, en þetta mun vera í fyrsta sinn sem alþjóðasamtök á heilbrigðissviði taka svo skýra afstöðu í þessum efnum. Í tilefni af útgáfu skýrslunnar sagði aðalhöfundar hennar, Dr. Gian Carlo Di Renzo: „Við erum að drekkja heiminum í óprófuðum og óöruggum efnum“. Að mati FIGO þurfa læknar að beita sér fyrir stefnumörkun sem verndar sjúklinga og samfélög fyrir þessari hættu.
(Sjá frétt ScienceDaily í gær).