Kemísk efni ógna heilsu og efnahag

151001100058_1_540x360 (160x106)Gríðarleg aukning í umgengni fólks við eiturefni síðustu fjóra áratugi ógnar frjósemi og heilsu manna, á þátt í milljónum dauðsfalla á hverju ári og hefur í för með sér árlegan kostnað upp á milljarða dollara. Meðal afleiðinga má nefna aukna tíðni fósturláta og andvana fæðinga, truflanir á fósturþroska, meðfædda vansköpun, vanþroskun taugakerfis, truflanir á vitsmunaþroska, fjölgun krabbameinstilfella, athyglisbrest og ofvirkni. Efnin sem þessu valda eru m.a. varnarefni, mengunarefni í andrúmslofti, plastefni og leysiefni. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðasamtaka kvensjúkdóma- og fæðingarlækna (International Federation of Gynecology and Obstetrics (FIGO)) sem birtist í gær, en þetta mun vera í fyrsta sinn sem alþjóðasamtök á heilbrigðissviði taka svo skýra afstöðu í þessum efnum. Í tilefni af útgáfu skýrslunnar sagði aðalhöfundar hennar, Dr. Gian Carlo Di Renzo: „Við erum að drekkja heiminum í óprófuðum og óöruggum efnum“. Að mati FIGO þurfa læknar að beita sér fyrir stefnumörkun sem verndar sjúklinga og samfélög fyrir þessari hættu.
(Sjá frétt ScienceDaily í gær).

Verðandi mæður velji lífrænt

Gravid ØkoFleiri efni en áður var talið geta truflað þroskun heila í börnum í móðurkviði. Þetta kemur fram í grein Dr. Philippe Grandjean og samstarfsmanna hans sem birtast mun í læknatímaritinu Lancet í næsta mánuði. Börn sem fá þessi efni í sig á fósturskeiði eða með móðurmjólk eru líklegri en önnur til að greinast með einhverfu, lesblindu, ADHD og aðrar þroskaraskanir, en efnin sem um ræðir geta m.a. leynst í matvælum, snyrtivörum, leikföngum og klæðnaði. Dr. Philippe kallar eftir alþjóðlegum aðgerðum til að tryggja að börn verði ekki fyrir varanlegu heilsutjóni af völdum efna af þessu tagi og ráðleggur jafnframt verðandi mæðrum að velja lífræn matvæli til að forðast varnarefnaleifar í matvælum.
(Sjá frétt Danska ríkisútvarpsins 15. febrúar).