Nú er í fyrsta sinn hægt að kaupa svansmerkta barnavagna, burðarrúm, bílstóla o.fl. barnavörur sem eru að hluta til úr textíl, en nýlega tóku gildi nýjar viðmiðunarreglur Norræna svansins fyrir vörur af þessu tagi. Mikill vilji virðist vera til staðar hjá foreldrum til að kaupa umhverfisvænar barnavörur og í nýlegri könnun kváðust 6 af hverjum 10 dönskum foreldrum smábarna frekar vilja kaupa svansmerktan barnavagn en aðra vagna. Til að geta fengið Svaninn þurfa umræddar vörur að uppfylla strangar kröfur m.a. um efni sem notuð eru í tau, fyllingar, plast og við yfirborðsmeðhöndlun á málmum. Þá er bannað að nota tiltekin eldvarnarefni og flúorefni í þessar vörur, svo eitthvað sé nefnt.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Danmörku 5. september).
Greinasafn fyrir merki: Svanurinn
Svansmerkt smínk loks fáanlegt
Danski snyrtivöruframleiðandinn Miild setti í gær á markað fyrstu Svansmerktu förðunarvörunar í heiminum. Um er að ræða vörur á borð við púður og augnskugga, en samtals inniheldur Svansmerkta vörulínan 18 vörutegundir í 6 vöruflokkum. Til að fá Svaninn þurfa snyrtivörur að uppfylla strangar kröfur. Þær mega t.d. ekki innihalda paraben eða önnur efni sem talin eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans og ekki heldur rotvarnarefni sem flokkuð eru sem ofnæmisvaldar. Þá eru gerðar strangar kröfur um ilmefnainnihald og málma á borð við blý, kvikasilfur og nikkel. Vörurnar þurfa einnig að standast ákveðið próf hvað varðar niðurbrot í náttúrunni, uppsöfnun í lífverum og eituráhrif á vatnalífverur. Þá eru gerðar kröfur um efnainnihald í umbúðum o.m.fl. Mikil eftirspurn hefur verið eftir umhverfismerktum förðunarvörum í Danmörku, enda er ofnæmi fyrir efnum í snyrtivörum algengt vandamál. Svansmerktu förðunarvörurnar verða komnar í danskar búðir í byrjun maí en þær fást nú þegar í vefverslun Miild.
(Sjá fréttatilkynningu Svansins í Danmörku í gær).
Ofnæmisvaldar algengir í hreingerningarefnum
Flest hreingerningarefni innihalda ofnæmisvaldandi ilmefni eða rotvarnarefni samkvæmt nýrri könnun Neytendasamtaka Danmerkur (Tænk). Skoðaðar voru upplýsingar um innihald 25 vörutegunda og reyndust aðeins 6 þeirra (allar Svansmerktar) lausar við efni af þessu tagi. Rotvarnarefnið MI (metýlísóþíasólínón) fannst í 5 vörutegundum en á hverju ári eru rúmlega 1.000 Danir greindir með ofnæmi fyrir efninu. Tænk ráðleggur fólki að kaupa hreinsiefni sem fengið hafa vottun Norræna svansins eða Umhverfismerkis Evrópusambandsins og eru jafnframt merkt með Bláa kransinum, sem felur í sér viðurkenningu dönsku astma- og ofæmissamtakanna.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).
Fyrstu Svansmerktu gallabuxurnar
Fyrstu Svansmerktu gallabuxurnar í heimi eru á leið á markað undir sænska merkinu Velour by Nostalgi. Buxurnar eru framleiddar úr endurunninni eða lífrænt vottaðri bómull og endurunnu pólýesterefni úr plastflöskum. Við framleiðsluna er beitt svonefndri ”recall-tækni” til að efnið haldi formi sínu betur en ella, sem m.a. stuðlar að því að buxurnar séu sjaldnar settar í þvott. Allir hlutar buxnanna hafa staðist kröfur Svansins og gildir það jafnt um tauið sjálft, rennilása, hnappa og umbúðir. Flíkin inniheldur því engin hormónaraskandi efni, ofnæmisvalda eða þungmálma, auk þess sem gerðar eru kröfur um vinnuumhverfi og nýtingu vatns þar sem buxurnar eru framleiddar. Til að fá Svaninn þurfa buxurnar einnig að standast kröfur um gæði og endingu, sem m.a. er mætt með sérstökum gæðafrágangi á saumum. Sala á buxunum hefst formlega 31. janúar nk. en hægt er leggja inn pantanir frá og með 21. jan.
(Sjá fréttatilkynningu á MyNewsDesk 3. janúar).
Fyrsta Svansmerkta bílaþvottastöðin í Noregi
Síðastliðinn föstudag varð bílaþvottastöð Shell við Solbråveien í Asker fyrsta svansmerkta bílaþvottastöðin í Noregi. Samtals eiga Norðmenn nú um 2,5 milljónir einkabíla og er áætlað að árlega fari um 10 milljónir rúmmetra af vatni og 100.000 tonn af hreinsiefnum í að þvo alla þessa bíla. Mest af þessu rennur út í nærliggjandi vötn og firði, blandað með tjöruleifum og öðrum óhreinindum af bílunum, auk þess sem eitthvað safnast fyrir í seyru í skólphreinsistöðvum og er síðan gjarnan notað til áburðar á akra. Til að fá Svaninn þurfa bílaþvottastöðvar að uppfylla strangar kröfur um hreinsiefni, vatnsnotkun og hreinsun frárennslis, svo eitthvað sé nefnt. Áætlað er að svansmerktar bílaþvottastöðvar noti um 75% minna vatn en aðrar stöðvar og að þar sé hreinsun fráveituvatns um 90% betri en annars staðar.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 21. október).
Fyrstu Svansmerktu kaffimálin komin á markað
Nú er í fyrsta sinn hægt að drekka morgunkaffið úr Svansmerktum einnota kaffimálum. Finnska fyrirtækið Huhtamaki sem framleiðir kaffimál fyrir mörg stórfyrirtæki fékk á dögunum leyfi til að merkja þessa framleiðsluvöru sína með Svaninum. Til að fá Svaninn þurfa drykkjarmálin að vera a.m.k. að níu tíunduhlutum úr endurnýjanlegu hráefni, pappinn sem notaður er verður að koma úr sjálfbærri skógrækt og rekjanleiki efnisins verður að vera tryggður. Lím, litarefni og efni til yfirborðsmeðhöndlunar verða að vera samþykkt af Svaninum og málin mega ekki innihalda efni sem geta skaðað umhverfi eða heilsu.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 30. ágúst).
Risaframleiðandi gallaefnis veðjar á Svaninn
Tyrkneski denímframleiðandinn ISKO, sem framleiðir um 250 milljón metra af gallaefni á ári, hefur fengið Svansvottun fyrir 6 af gallaefnum fyrirtækisins. Fyrirtækið framleiðir m.a. gallabuxnaefni fyrir Diesel, Bik Bok og Replay og vegna þess hve umsvifin eru mikil hefur vottunin í för með sér verulegan umhverfislegan sparnað og stórt skref í átt að sjálfbærari tískuframleiðslu. Framleiðslukeðjur í tískugeiranum geta verið mjög flóknar og því er mikil vinna að fá vottun sem tekur tillit til alls lífsferils vörunnar. Til að fá slíka vottun þurfa fyrirtæki að huga að öllum framleiðsluferlinum, allt frá því að ræktun bómullarinnar hefst. Einnig þarf að skoða félagslega þætti svo sem öryggi og aðbúnað starfsmanna í framleiðslukeðjunni, notkun eiturefna við litun og lokameðferð vörunnar o.s.frv.
(Sjá frétt Miljømærkning Danmark 17. mars).
100 svansmerktar bílaþvottastöðvar í Danmörku
Á dögunum náði fjöldi svansmerktra bílaþvottastöðva í Danmörku hundraðinu, en til að fá vottun Svansins þurfa stöðvarnar að nota mun minna af vatni og skaðlegum efnum en gengur og gerist í atvinnugreininni. Þannig má svansmerkt bílaþvottastöð nota í mesta lagi 70 lítra af fersku vatni í hvern þvott, en reyndar getur vatnsnotkunin farið allt niður í 35-40 lítra. Þessi litla notkun byggir á því að stöðvarnar eru búnar hringrásarkerfi sem hreinsar vatnið þannig að hægt er að endurnota stóran hluta þess. Svansmerktar stöðvar mega ekki nota hreinsiefni með nanóögnum, skaðlegum flúorsamböndum eða efnum sem talin eru upp á lista ESB yfir hugsanlega hormónaraskara. Tiltekinn hluti hreinsiefnanna verður líka að vera svansmerktur. Olíufélagið OK hefur lagt mikla áherslu á að fá Svansvottun á bílaþvottastöðvar sínar í Danmörku, en OK rekur 99 af þeim 100 stöðvum sem komnar eru með vottun. Hvatinn að þessu er ekki aðeins umhverfislegur, heldur segja forsvarsmenn OK að svansmerktu stöðvarnar komi betur út í rekstri.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Danmörku 29. janúar).
Fyrstu Svansmerktu einnotaáhöldin
Svansmerkt einnotaáhöld eru nú fáanleg í fyrsta sinn, en dansk-norska fyrirtækið Greenway fékk á dögunum leyfi til að merkja nokkrar af vörum sínum með Norræna svaninum. Einnotaáhöldin frá Greenway eru búin til úr pálmablöðum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Um er að ræða áhöld á borð við diska, skálar og matarföt, en til að fá vottun Svansins þarf að uppfylla strangar kröfur um efnainnihald og sitthvað fleira. Áhöldin mega t.d. ekki innihalda flúorsambönd eða þalöt og mega ekki vera úr endurunnum hráefnum þar sem efnaleifar kunna að leynast í þeim. Stór hluti hráefnanna þarf hins vegar að vera endurnýjanlegur, auk þess sem gerðar eru strangar kröfur um orkunotkun í framleiðslunni og um að hægt sé að jarðgera áhöldin eða endurvinna þau með öðrum hætti. Með því að fá Svansmerkingu á vörurnar er Greenway að bregðast við vaxandi eftirspurn viðskiptavina, svo sem frá mötuneytum, hótelum og dagvöruverslunum.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Danmörku í dag).
Varasöm efni í varasalva
Tuttuguogfimm af 89 tegundum varasalva sem dönsku neytendasamtökin Tænk prófuðu nýlega fengu falleinkunn vegna innihaldsefna sem eru ofnæmisvaldar eða eru talin geta truflað hormónastarfsemi líkamans. Aðeins 17 tegundir voru laus við varasöm efni og fengu þar af leiðandi ágætiseinkunn á prófinu. Tænk bendir á að varasalvi sem inniheldur hormónaraskandi efni sé ekki endilega skaðlegur heilsunni einn og sér en efni úr varasalva geti auðveldlega borist inn í líkamann og bæst þar við efnakokteil af öðrum uppruna. Samtökin mæla með því að fók noti Svansmerktan varasalva. Slíkur varasalvi er laus við hormónaraskandi efni, þó að hann kunni að innihalda einhver ilmefni sem stuðlað geta að ofnæmi.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 25. október).