Flest hreingerningarefni innihalda ofnæmisvaldandi ilmefni eða rotvarnarefni samkvæmt nýrri könnun Neytendasamtaka Danmerkur (Tænk). Skoðaðar voru upplýsingar um innihald 25 vörutegunda og reyndust aðeins 6 þeirra (allar Svansmerktar) lausar við efni af þessu tagi. Rotvarnarefnið MI (metýlísóþíasólínón) fannst í 5 vörutegundum en á hverju ári eru rúmlega 1.000 Danir greindir með ofnæmi fyrir efninu. Tænk ráðleggur fólki að kaupa hreinsiefni sem fengið hafa vottun Norræna svansins eða Umhverfismerkis Evrópusambandsins og eru jafnframt merkt með Bláa kransinum, sem felur í sér viðurkenningu dönsku astma- og ofæmissamtakanna.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).