Á dögunum náði fjöldi svansmerktra bílaþvottastöðva í Danmörku hundraðinu, en til að fá vottun Svansins þurfa stöðvarnar að nota mun minna af vatni og skaðlegum efnum en gengur og gerist í atvinnugreininni. Þannig má svansmerkt bílaþvottastöð nota í mesta lagi 70 lítra af fersku vatni í hvern þvott, en reyndar getur vatnsnotkunin farið allt niður í 35-40 lítra. Þessi litla notkun byggir á því að stöðvarnar eru búnar hringrásarkerfi sem hreinsar vatnið þannig að hægt er að endurnota stóran hluta þess. Svansmerktar stöðvar mega ekki nota hreinsiefni með nanóögnum, skaðlegum flúorsamböndum eða efnum sem talin eru upp á lista ESB yfir hugsanlega hormónaraskara. Tiltekinn hluti hreinsiefnanna verður líka að vera svansmerktur. Olíufélagið OK hefur lagt mikla áherslu á að fá Svansvottun á bílaþvottastöðvar sínar í Danmörku, en OK rekur 99 af þeim 100 stöðvum sem komnar eru með vottun. Hvatinn að þessu er ekki aðeins umhverfislegur, heldur segja forsvarsmenn OK að svansmerktu stöðvarnar komi betur út í rekstri.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Danmörku 29. janúar).
100 svansmerktar bílaþvottastöðvar í Danmörku
Svara