Risaframleiðandi gallaefnis veðjar á Svaninn

jeansTyrkneski denímframleiðandinn ISKO, sem framleiðir um 250 milljón metra af gallaefni á ári, hefur fengið Svansvottun fyrir 6 af gallaefnum fyrirtækisins. Fyrirtækið framleiðir m.a. gallabuxnaefni fyrir Diesel, Bik Bok og Replay og vegna þess hve umsvifin eru mikil hefur vottunin í för með sér verulegan umhverfislegan sparnað og stórt skref í átt að sjálfbærari tískuframleiðslu. Framleiðslukeðjur í tískugeiranum geta verið mjög flóknar og því er mikil vinna að fá vottun sem tekur tillit til alls lífsferils vörunnar. Til að fá slíka vottun þurfa fyrirtæki að huga að öllum framleiðsluferlinum, allt frá því að ræktun bómullarinnar hefst. Einnig þarf að skoða félagslega þætti svo sem öryggi og aðbúnað starfsmanna í framleiðslukeðjunni, notkun eiturefna við litun og lokameðferð vörunnar o.s.frv.
(Sjá frétt Miljømærkning Danmark 17. mars).

Öll bómull H&M af sjálfbærum uppruna 2020

26155Um 15,8% af þeirri bómull sem notaður er í fatnað H&M fatakeðjunnar er af sjálfbærum uppruna samkvæmt sjálfbærniskýrslu fyrirtækisins fyrir árið 2013. Fyrirtækið hefur sett sér það markmið að árið 2020 verði öll bómull í fatnaði fyrirtækisins af sjálfbærum uppruna, þ.e.a.s. annað hvort lífrænt vottuð eða úr endurunnum trefjum. H&M leggur mikla áherslu á sjálfbæra þróun og leitast við að búa til lokaðar hringrásir, meðal annars með því að framleiða fatnað úr notuðum textílefnum sem tekið er við í verslunum fyrirtækisins. Á síðasta ári söfnuðust þannig um 3 þúsund tonn af notuðum efnum sem send voru í endurvinnslu. Bómull er mest notaða efnið í fatnaði H&M en bómullarframleiðsla er mjög vatnsfrek, auk þess sem um 10% af öllu skordýraeitri heimsins er notað í bómullarrækt.
Sjá frétt EDIE í dag).

Grænþvottur í tískugeiranum

26111Fyrirtæki í tískugeiranum sem segjast leggja áherslu á sjálfbærni, geta mörg hver ekki lagt fram nein gögn máli sínu til stuðnings. Í nýjustu „FeelGoodFashion-skýrslu“ vefsíðunnar Rank A Brand kemur fram að af þeim 368 tískuvörumerkjum sem rannsökuð voru staðhæfðu um 50% að verkefni væru í gangi til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda en aðeins 4% gátu sýnt fram á samdrátt í losun. Sömu sögu var að segja um lífræn og endurunnin efni, en mörg fyrirtæki kváðust nota slík efni í vörur sínar án þess að geta sannað hlutfall þeirra í vörunum. Sífellt fleiri aðilar í tískugeiranum upplýsa um umhverfisáherslur sínar og gildir það nú um 63% af öllum vörumerkjum í greininni. Að mati Rank A Brand er þar um grænþvott að ræða í 30% tilvika, þ.e.a.s. upplýsingar sem eiga sér ekki stoð í raunverulegri starfsemi viðkomandi fyrirtækja.
(Sjá frétt EDIE í dag).