Kassarúllur með BPA fjarlægðar úr Coop verslunum

kassarullaVerslunarkeðjan COOP í Danmörku hefur ákveðið að hætta að nota kassarúllur sem innihalda bisfenól-A (BPA) þar sem efnið er talið vera hormónaraskandi og hafa áhrif á frjósemi. Notkun efnisins er lögleg en gæðastjóri keðjunnar segir að það hafi verið ákvörðun fyrirtækisins að starfsmenn og viðskiptavinir ættu ekki að þurfa að verða fyrir hugsanlegum eiturhrifum af skaðlegum efnum. Keðjan hefur sagt „The Dirty Dozen“ stríð á hendur, en „The Dirty Dozen“ eru 12 efni sem talin eru skaðleg en hafa ekki verið bönnuð. Að undanförnu hafa þó birst margar rannsóknir sem benda til að kokteiláhrif efnanna séu stórlega vanmetin. Eins og fram hefur komið á 2020.is hefur COOP nú þegar hætt sölu á örbylgjupoppi, blautklútum, skólavörum úr PVC og Colgate Total tannkremi þar sem allar þessar vörur innihalda eitthvert þessara tólf efna.
(Sjá frétt Samvirke.dk í dag).

Leyfilegur styrkur BPA of hár

bisphenol_160Matvælastofnun danska Tækniháskólans (DTU) telur að viðmið sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gaf út í síðasta mánuði fyrir þolanlegan hámarksdagskammt Bisfenóls-A (BPA) sé of hátt. Að mati EFSA ætti dagleg inntaka á 4 míkrógrömmum á hvert kíló líkamsþyngdar að vera örugg frá heilsufarslegu sjónarmiði, en eftir að hafa rýnt þær heimildir sem EFSA byggir niðurstöðu sína á telur DTU að miða ætti við 0,7 míkrógrömm. Sérfræðingar DTU telja að í ráðleggingum EFSA sé ekki nægjanlegt tillit tekið til vísbendinga úr dýrarannsóknum um áhrif efnisins á brjóstvef, þroskun kynfæra og þroskun heila. Því feli hin nýja skilgreining á þolanlegum hámarksdagskammti (e. tolerable daily intake (TDI)) ekki í sér nægjanlega vernd fyrir neytendur. BPA er einkum að finna í tilteknum plastumbúðum og í kassakvittunum og er talið raska hormónastarfsemi líkamans.
(Sjá frétt á heimasíðu DTU 23. febrúar).