28% fjárfestinga Alþjóðabankans í loftslagsaðgerðir

world bankAlþjóðabankinn (World Bank) mun hér eftir láta 28% af fjárfestingum sínum renna til loftslagsverkefna, auk þess allar ákvarðanir um fjármögnun verkefna munu taka mið af loftslagsmálum. Alþjóðabankinn er stærsti aðilinn sem veitir fé til þróunarríkja og því getur þessi áherslubreyting haft gríðarleg áhrif á möguleika þróunarríkjanna til að sporna við loftslagsbreytingum. Þegar þessi áherslubreyting var kynnt sagði Jim Yong Kim, forseti Alþjóðabankans m.a.: „Við erum að bregðast skjótt við til að hjálpa löndum til að auka nýtingu endurnýjanlega orkugjafa, draga úr kolefnisháðum orkugjöfum, þróa sjálfbær samgöngukerfi og byggja sjálfbærar, íbúavænar borgir fyrir sífellt fleiri þéttbýlisbúa. Þróunarríkin vilja hjálp frá okkur við að hrinda landsáætlunum sínum í lofslagsmálum í framkvæmd og við ætlum að gera allt sem við getum til að hjálpa þeim“.
(Sjá frétt the Guardian 7. apríl).

Endurnýting reiðhjóla í góðgerðarskyni

26043_160Bretar geta skilað inn gömlum og biluðum hjólum, fengið 10% afslátt af nýjum og þannig hjálpað til við að auka hreyfanleika bágstaddra í Afríku! Þetta tilboð er hluti af söfnunarátaki bresku góðgerðarsamtakanna Re-Cycle sem hófst í dag. Reiðhjól eru talin mikilvægur liður í útrýmingu fátæktar þar sem þau auðvelda fjölskyldum í dreifbýli að nálgast þjónustu á borð við heilsugæslu, vinnustaði og skóla. Re-Cycle hefur staðið fyrir söfnun sem þessari árlega síðan 1997 og sent um 53 þúsund hjól til Mið- og Suður-Afríku um leið og þau hafa dregið úr magni úrgangs í Bretlandi. Gert er við hjólin áður en þau eru send áleiðis, en auk þess snýst hluti verkefnisins um þjálfun heimamanna í viðhaldi reiðhjóla.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Landabrask ógnar fæðuframleiðslu

Erlendir fjárfestar og framleiðendur lífeldsneytis hafa keypt upp landsvæði á síðasta áratug sem hefðu dugað til að fæða nær þúsund milljón manns. Þetta kemur fram í skýrslu Oxfam sem kom út í dag. Um er að ræða spildur sem eru samtals u.þ.b. áttfalt stærri en Bretland. Þetta land hefur ýmist verið tekið undir orkugróður eða látið bíða eftir hærra endursöluverði. Mest hafa landakaupin verið í þróunarlöndum með alvarlegan hungurvanda. Þannig hafa nær 30% af öllu landi í Líberíu verið seld til stórra fjárfesta og um 65% af öllu ræktanlegu landi í Kambódíu. Í skýrslu sinni biðlar Oxfam til Alþjóðabankans að hætta stuðningi við landabrask af þessu tagi.
(Sjá umfjöllun The Guardian í dag).