Sænsk orkugeymsla í samkeppni við Tesla

johan-box-of-energy-700-ny-teknikSænska fyrirtækið Box of energy setti nýlega upp fyrsta orkuboxið í Svíþjóð, nánar tiltekið á eyjunni Orust norðan við Gautaborg. Boxið getur geymt 20 kWst af raforku og þannig gert það mögulegt að nýta sólarorku þótt dimmt sé orðið. Hægt verður að kaupa boxin í mismunandi útfærslum með 10-220 kWst geymslugetu. Tesla hefur hingað til verið þekktasti söluaðili tækni til að geyma orku í heimahúsum, en „orkuveggur“ fyrirtækisins fór í almenna sölu á liðnu vori. Fleiri aðilar eru að hasla sér völl á þessum markaði, enda búist við mjög aukinni eftirspurn á næstu misserum samfara aukinni framleiðslu á raforku til eigin nota, svo sem með sólarsellum og vindmyllum.
(Sjá frétt NyTeknik 17. september).

Tesla horfir til Þýskalands

tesla_160Rafbílaframleiðandinn Tesla bindur miklar vonir við sölu „heimarafhlöðunnar“ í Þýskalandi, enda séu Þjóðverjar mjög meðvitaðir um umhverfismál og í fararbroddi í heiminum í nýtingu sólarorku. Tesla kynnti rafhlöðuna („orkuvegginn“ (Tesla Powerwall)) í síðustu viku. Hana er t.d. hægt að festa á vegg í bílskúrnum og í henni er hægt að geyma umframorku sem grípa má til þegar rafmagnið fer eða þegar orkuframboð er lítið og verðlag hátt. Rafhlaðan auðveldar neytendum þannig að framleiða og geyma sína eigin raforku án tengingar við flutningskerfi og opnar m.a. möguleika á að nýta sólarorku á nóttu sem degi. Markmið Tesla með orkuveggnum er að „umbreyta algjörlega orkuinnviðum heimsins í átt að fullkomlega sjálfbæru kolefnishlutleysi“.
(Sjá frétt ENN 5. maí).

Flestir rafbílar skráðir í Bandaríkjunum

tesla_160Um 41% allra rafbíla í heiminum eru skráðir í Bandaríkjunum, en ótrúleg aukning hefur verið í sölu slíkra bíla síðan Nissan Leaf og Chevrolet Volt voru settir á markað vestra árið 2010. Þá hefur drægni Tesla bílanna haft mikil áhrif á markaðinn og aukið trú fólks á getu rafbíla til að koma í staðinn fyrir hefðbundna bíla. Í árslok 2014 voru um 712.000 rafbílar skráðir í heiminum, þar af um 290.000 í Bandaríkjunum. Japan er í öðru sæti hvað þetta varðar og Kína í því þriðja. Markaðsgreiningar benda til að Bandaríkin muni leiða rafbílavæðinguna næstu 5 ár en eftir það er talið líklegt að Evrópa verði stærsti markaðurinn, þar sem stefnumótun Evrópuríkja er hagstæðari fyrir rafbílaeigendur, m.a. vegna kolefnisskatta og niðurgreiðslna fyrir vistvæna bíla.
(Sjá frétt ENN 21. apríl).

Tesla slær sölumet á fyrsta ársfjórðungi

tesla_160Rafbílaframleiðandinn Tesla setti sölumet á fyrsta ársfjórðungi 2015, en þá seldi fyrirtækið samtals 10.030 bíla. Þetta er 55% aukning frá fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Aukninguna má að mestu rekja til Tesla Model S sem hefur fengið frábærar viðtökur og hefur m.a. verið valinn bíll ársins tvö ár í röð af tímaritinu Consumer Reports. Um 25% af öllum nýskráðum rafbílum í Bandaríkjunum á fyrstu mánuðum ársins voru Model S. Mikil aukning varð almennt í sölu rafbíla á síðasta ári en um 320.000 rafbílar voru nýskráðir í heiminum árið 2014. Þetta eru um 43% af öllum rafbílum sem nú eru í umferð. Elon Musk, stofnandi Tesla, hefur tilkynnt að fyrirtækið muni kynna nýja vöru síðar í þessum mánuði og er frekari tilkynninga beðið með mikilli eftirvæntingu.
(Sjá frétt EDIE í dag).